Heimildarmynd um Vetraráskorun Crean frumsýnd

Í gærkvöldi var frumsýnd heimildarmynd um Vetraráskorun Crean, en Guðmundur Pálsson fylgdi hópnum sem tók þátt í síðustu áskorun eftir. Myndin var frumsýnd á kynningarkvöldi Crean sem haldið var í gærkvöldi, en þangað mættu áhugasamir umsækjendur um þátttöku í næstu vetraráskorun.

„Það er mikilvægt fyrir skáta að huga betur að því að nota myndbönd af þessu tagi til kynningar á sínu starfi og ekki síst til þess að varðveita á skemmtilegan hátt heimildir um skátastarfið,“ segir Guðmundur en hann hefur víða komið að kynningu á skátastarfi.

Efni til í lengri mynd

Guðmundur vann heimildarmyndina sem verkefni í námskeiðinu „Heimildarmyndir“ á vorönn 2015 sem er hluti af meistaranámi hans í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Hann segist hafa eftir bestu getu fylgt hópnum eftir á meðan á áskorunni stóð en að auki fékk hann afnot af myndefni sem Arnar Steinn Einarsson hjá Mbl.is og Miloš Zajíc tóku upp. Tékkinn Miloš starfaði sem sjálfboðaliði á Úlfljótsvatni einmitt meðan á verkefninu stóð. Myndin er tekin upp í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ, á Hellisheiði og Úlfljótsvatni og nágrenni þess.

Þar sem verkefnið í HÍ snérist um að gera að hámarki 8 mín. heimildarmynd réði það lengdinni á þessari mynd en Guðmundur á myndefni og viðtöl sem búið er að grófklippa í 20 mínútna mynd. Hann vonast til að ná að taka hana í endanlega vinnslu í vetur en þetta sé allt spurning um tíma því lokafrágangur gríðarlega tímafrekur.

Fleiri járn í eldinum

Guðmundur er með fleiri járn í eldinum þegar kemur að heimildamyndum. Lokaverkefni hans  í meistaranáminu er heimildarmynd sem fengið hefur vinnutitilinn „Undraland við Úlfljótsvatnið blátt með augum Björgvins Magnússonar“. Í myndinni rekur Björgvin sögu skátastarfs við Úlfljótsvatn frá upphafi til dagsins í dag og samhliða því fáum við að kynnast þessum merkilega skáta betur. Tökur hafa staðið yfir með hléum frá því í apríl og stefnir Guðmundur á að ljúka þeim fyrir næstu áramót.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar