Heill gæfa gengi, Landnemar lifi lengi!

landnemamerkiSkátafélagið Landnemar hélt upp á 65 ára afmæli sitt í dag með ævintýralegri óvissuferð sem endaði við Gróttuvita á Seltjarnarnesi. Veðrið var eins og best verður á kosið og félagar og fjölskyldur þeirra létu sig ekki vanta.
Í eina sæng með Úlfynjum

Landnemar miða afmæli sitt við stofnun skátasveitarinnar Landnemar en hún var stofnsett innan Skátafélags Reykjavíkur þann 9. janúar 1950. Í lok sjöunda áratugarins var sveitin sameinuð stúlknasveitinni Úlfynjur og við þá sameiningu stungu stelpurnar upp á því að sameiginlegt félag drengja og stúlkna skyldi heita Skátafélagið Landnemar. Í dag eru Landnemar eitt af átta skátafélögum í Reykjavík.

Drekaskátarnir Gulli og Jónas létu sitt ekki eftir liggja í póstaleik dagsins.

Drekaskátarnir Jónas og Gulli létu sitt ekki eftir liggja í póstaleik dagsins.

Viðey, Úlfljótsvatn, Hveradalir?

Þegar rútan renndi frá félagsheimili Landnema við Háuhlíð vissi enginn þátttakenda hvert ætti að halda og spenningurinn var mikill. Haukur Haraldsson, fararstjóri, magnaði upp spennuna með því að láta rútubílstjóran hringsóla um miðborgina á meðan spenntir þátttakendur reyndu að giska á hvert förinni væri heitið.

Kynngimagnað umhverfi Gróttu var kjörinn vettvangur fyrir óvissuferðina.

Kynngimagnað umhverfi Gróttu var kjörinn vettvangur fyrir óvissuferðina.

Óvissan tekur enda

Þegar allt var bókstaflega að springa úr spenningi renndi rútan upp að bílastæðinu handan við Gróttuvita og afmælisgestirnir stukku út úr bílnum, nánast allir í einu! Tignarlegur Gróttuvitinn, 26 metrar á hæð, blasti við og tók sig vel út – aðstæður frábærar, sex stiga frost, hægur andvari og hálfheiður himinn.

Fálkaskátarnir Elsa, Stephanie og Rósa Guðbjörg nutu brimsins við Gróttu.

Fálkaskátarnir Elsa, Stephanie og Rósa Guðbjörg nutu brimsins við Gróttu.

Flóð og fjara

Aðgengi að Gróttuvita er takmörkunum háð því aðeins er hægt að komast að honum á fjöru og því þurftu Landnemar að sæta lagi og gæta þess að dvelja ekki of lengi til að lokast ekki inni.

Þegar komið var út að vitanum hófst skemmtilegur póstaleikur þar sem skátarnir þurftu að leysa fjölbreytt verkefni í tengslum við fjöruna og sjóinn, finna krabba, skeljar og kuðunga, bera kennsl á fugla og líta eftir flöskuskeytum.

Að póstleiknum loknum komu gestir saman í notalegri aðstöðu þar sem boðið var upp á heitt súkkulaði, kex og nýbakaðar kleinur. Þá tók við dúndrandi kvöldvaka með skemmtiatriðum og öllu tilheyrandi.

Það var svo farið að halla í kvöldmat þegar hópurinn snéri til baka og skildi sáttur og glaður við skátaheimilið eftir ævintýralegan afmælisdag.

Engin ellimerki

„Það eru engin ellimerki á Landnemum þrátt fyrir háan aldur félagsins“ sagði Haukur Haraldsson sem var fararstjóri í dag. „Við erum reyndar hér nokkur sem höfum verið með nánast frá byrjun en við höfum aldrei litið jafn vel út“ sagði Haukur með brosi á vör og var þá að vitna til þess að í ferðinni í dag voru nokkrir af elstu Landnemunum með í för. Sum þeirra voru að fylgja barnabörnunum í óvissuferðina og setti það hlýlegan svip á daginn og sýnir hversu traust bakland félagsins er.

Öflugt Landnemalið

„Við búum ákaflega vel að foringjum og eldra liði“ segir Haukur. „Okkar gæfa undanfarin ár hefur verið sú hve unga fólkið hefur haldið tryggð við félagið okkar og lagt því lið með margvíslegum hætti og þátttaka foreldra er auðvitað ómetanleg“.

Stjórn Landnema: Kristinn Arnar (Kiddi), Arnlaugur, Halldóra, Sigurgeir Bjartur og Kári.

Stjórn Landnema: Kristinn Arnar (Kiddi), Arnlaugur, Halldóra, Sigurgeir Bjartur og Kári.

Á mörgum vígstöðvum

„Það var mikið að gera hjá okkur Landnemum í dag“ heldur Haukur áfram. „Óvissuferðin í tilefni afmælisins er auðvitað hápunkturinn en svo er megnið af okkar dróttskátum fjarverandi því þeir eru að taka þátt í undirbúningshelgi fyrir Crean og við erum mjög stolt af því að eiga verðuga fulltrúa í því krefjandi alþjóðlega verkefni.

Hrönn, Haukur, Elsa og Stephanie í góðum gír.

Hrönn og Haukur í góðum félagsskap.

 

Allt í gangi

„Það má segja að það sé bara allt í gangi“ segir Hrönn Þormóðsdóttir, Landnemi og formaður Skátasambands Reykjavíkur. „Eftir óvissuferðina í dag tekur við lokaundirbúningur fyrir Vetrarmót Reykjavíkurskáta sem haldið verður 16.-18. janúar á Úlfljótsvatni. „Þetta mót er sameiginlegt verkefni allra skátafélaganna í Reykjavík og við ætlum að nýta okkur frábært umhverfi Úlfljótsvatns og vetrarumhverfið til hins ýtrasta. Skátarnir munu gista í skálum, húsum, tjöldum og jafnvel í snjóhúsum ef aðstæður leyfa – allt eftir aldri og aðstæðum“.

:: Fleiri myndir á Facebook
Til hamingju með daginn!

Skátamál óska Landnemum til hamingju með daginn og Reykjavíkurskátum alls hins besta við framkvæmd Vetrarmótsins. Samhliða þeim góðu kveðjum viljum við hvetja öll skátafélög, -sveitir og –flokka til að senda Skátamálum upplýsingar um starfið svo hægt sé að gera því skil á vefnum okkar. Myndir, sögur og hvaðeina eru vel þegnar og best er að senda tölvupóst á netfangið skatar@skatar.is til að koma slíku efni áleiðis!

/gp

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar