Heiður tekur sæti í stjórn BÍS

Heiður Dögg Sigmarsdóttir tók á miðvikudag fyrir viku sæti í stjórn BÍS sem tengiliður við upplýsingaráð, en eins og sagt var frá fyrr í sumar sagði Gunnlaugur Bragi Björnsson formaður upplýsingaráðs af sér á stjórnarfundi í lok júní.

Stjórn BÍS fór þess á leit við Heiði að hún tæki sæti í stjórn til að brúa bilið fram að næsta skátaþingi, en þá verður kosið í embættið eins og lög gera ráð fyrir. Heiður hefur átt sæti í upplýsingaráði frá Skátaþingi 2013.

Stýrði Fönix á Landsmóti

Skátaferill Heiðar byrjaði í skátafélaginu Árbúum þegar hún var 9 ára en dróttskátaárunum eyddi hún í skátafélaginu Hamri og starfaði meðal annars við Útilífsskólann og Sumarbúðir skáta á Úlfljótsvatni.

Heiður sér fram á skrautlegan og skemmtilegan vetur með upplýsingaráði

Heiður sér fram á skrautlegan og skemmtilegan vetur með upplýsingaráði

Heiður sneri aftur í Árbúa á framhaldsskólaárunum og sinnti þar foringjastöðum. Næst tóku við 5 ár erlendis í háskólanámi en hún sneri aftur í skátahreyfinguna sumarið 2012 þegar hún tók að sér að stýra útvarpsstöðinni Fönix á landsmóti 2012. Síðustu 3 ár hefur Heiður verið sveitarforingi dróttskátasveitarinnar Pegasus, en vegna þessa nýja verkefnis mun hún ekki ná að sinna þeim pósti í vetur.
Heiður útskrifaðist úr Gilwell leiðtogaþjáfun í janúar 2014 og hefur sótt framhaldsnámskeið í mannauðsstjórnun og markþjálfun.

Ferðamenn með áhuga á menningu í uppáhaldi

Heiður er 29 ára sagnfræðingur, fjöl- og menningarmiðlari. „Ég tók grunnnámið mitt í Texas sem er mjög ólíkt Íslandi og það hefur haft mikil áhrif á lífssýn mína og þekkingu sem ég vona að nýtist mér í þessu nýja verkefni,“ segir hún en í febrúar fyrir ári síðan útskrifaðist Heiður úr meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun. Nokkrum vikum síðar eignaðist hún dóttur sem eðlilega tók ríkulega af tíma hennar næstu mánuði.

Heiður starfar nú hjá Iceland Travel, sem er stærsta ferðaskrifstofa á Íslandi á innlendum markaði. „Ég vinn sem ferðaráðgjafi í vefsöludeild og vinn við að bóka og selja útlendingum allskonar Íslandsferðir,“ segir hún. „Uppáhalds kúnnarnir mínir eru þeir sem sýna metnað í að kynnast íslenskri menningu og okkur Íslendingum en það er mitt sérfag. Mér finnst líka mikilvægt að ferðamenn viti hvernig eigi að bera virðingu fyrir landinu okkar en það er því miður ekki nógu algengt.”

Skrautlegur vetur án skátabúnings

• En hvernig verður veturinn framundan?

„Veturinn verður skrautlegur og skemmtilegur,“ segir Heiður Dögg. „Þessa dagana er verið að undirbúa kynningarvikuna og síðan taka við önnur verkefni. Ég ætla að halda áfram með það sem Gunnlaugur var byrjaður á en svo er upplýsingaráð með önnur spennandi járn í eldinum sem koma í ljós bráðlega“.

„Mitt lykilorð fyrir veturinn er samvinna en við í upplýsingaráði höfum oft tekið eftir því að hin ýmsu verkefni, stór sem smá, yrðu auðveldari ef fleiri aðilar myndu vinna saman að verkefnunum. Okkur langar að gera enn betur en áður á þessu sviði enda er skáti samvinnufús og hjálpsamur,” segir Heiður.

Skátarnir eru víða

Skátarnir eru víða

Í upplýsingaráði eiga sæti auk Heiðar, Helga Stefánsdóttir og Jón Halldór Jónasson. Venjulega sitja fjórir einstaklingar í ráðinu ásamt formanni, en í sumar sagði Harpa Halldórsdóttir sig úr ráðinu af persónulegum ástæðum. „Við verðum einungis þrjú í ráðinu fram að næsta skátaþingi en við höfðum hugsað okkur að stofna vinnuhóp til að styðja við okkar starf. Ef einhver 16 ára og eldri hefur áhuga á fjölmiðla og upplýsingamálum að þá mega þeir endilega hafa samband við okkur,“ segir Heiður. „Það er nóg pláss og fullt af fimmaura bröndurum í boði”.

Ósk um að taka sæti í stjórn kom Heiði nokkuð á óvart og hún segist þurfa að setja sig inn í margvíslega hluti á næstu vikum. „Ég á ekki einu sinni skátabúning í augnablikinu því mér tókst að týna honum. En þar sem eitt af núverandi verkefnum upplýsingaráðs er að fara yfir búningamálin að þá fæ ég mér kannski ekki nýjan búning fyrr en við erum búin að gera breytingar,“ segir hún með stríðnistón í röddinni.

Heiður segir að upplýsingaráð stefni í mikla sókn skátanna á samfélagsmiðlunum í vetur og hvetur alla til að fylgjast með Facebook, Instagram og nýjustu viðbótinni Twitter. „Þá mega skátar endilega vera duglegir við að bæta inn myndum af starfinu sínu og merkja við #skatarnir,“ segir hún.

Tengd frétt:

Gunnlaugur Bragi hættir í stjórn BÍS 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar