Háskólanemar finna sig í skátastarfi

„Skátastarf og gildi tómstundafræðinnar falla ákaflega vel saman“ segir dr. Kolbrún Þ. Pálsdóttir lektor við Tómstunda – og félagsmálafræði Háskóla Íslands, en hún kom með tæplega 60 nemendur á kynningu um aðferðir og hugmyndafræði skátastarfs.

Tómstunda- og félagsmálafræði er kennd bæði sem BA og Meistaranám við Menntavísindasvið og hentar öllum sem vilja afla sér þekkingar til starfa á sviði tómstunda- og félagsmála.

Árlegar heimsóknir til skátanna

Nemendahópurinn mætti í Hraunbyrgi, skátaheimili Hraunbúa í Hafnarfirði í gær þar sem Ingibjörg Hannesdóttir fræðslustjóri skátamiðstöðvar tók á móti þeim. „Það er sérlega ánægulegt að fá þennan hóp í heimsókn, en tómstundafræðin hefur komið í slíkar kynningarheimsóknir til okkar í Bandalagi íslenskra skáta allnokkur undanfarin ár. Þar sem hópurinn hefur stækkað ár frá ári ákváðum við að leita til Hraunbúa um fá að taka á móti þeim hér í Hraunbyrgi, en auk þess að hér sé öflugt starf í félaginu er húsið sérstaklega hannað fyrir skátastarf og því gaman fyrir nemendur að koma hingað“.

 

Skátar í einn dag

Skátar í einn dag

Fjör í flokkum

Einn af grunnþáttum í Skátaaðferðinni er flokkurinn, þar sem skátarnir vinna í litlum virkum hópum að skipulagi og verkefnum. Nemendur tómstundafræðinnar fengu að spreyta sig á að búa til flokk og tókst sérlega vel upp í að búa til hvatningarhróp og velja sér hlutverk í flokknum. Facebookari, instagrammari, söngstjóri, hópeflisstjóri og matreiðslumeistari voru í mörgum flokkum og enginn gleymdi gjaldkeranum!  Ingibjörg segir að flokkar nemenda tómstundafræðinnar gætu virkað mjög vel í raunverulegu skátastarfi.

Skátabolti og grill yfir opnum eldi

Í lok fyrirlestursins var tekinn skátabolti með inniskó í stað bolta og heimatilbúnum reglum og nemendur fengu að grilla yfir opnum eldi í rigningunni. „Veðrið skiptir ekki máli þegar þú ert skáti“ sagði Harpa Hrönn Grétarsdóttir, gildismeistari sem kom og skipulagði fjörið í lok heimsóknarinnar. „Maður bara býr sig vel og fer svo út að skemmta sér!“.

Sjá nánar um Tómstunda og félagsmálafræði

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar