Gunnlaugur Bragi Björnsson

Gunnlaugur Bragi Björnsson

Gunnlaugur Bragi Björnsson

Kæru skátar!
Ég gef kost á mér til embættis formanns upplýsingaráðs með sæti í stjórn BÍS. Ég starfa sem ráðgjafi hjá Arion banka og mun ljúka BSc gráðu í viðskiptafræði með áherslu á upplýsingamiðlun og almannatengsl vorið 2014. Lokaverkefni mitt fjallar um hlutverk innri og ytri upplýsingamiðlunar á krísutímum, leiðbeinandi er Katrín Pálsdóttir fréttamaður til margra ára.

Áður hef ég meðal annars starfað sem aðstoðarmaður forstjóra hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki, verslunarstjóri, forfallakennari og frístundaleiðbeinandi auk þess að starfa við bókhald og innheimtu. Árið 2012 hlaut ég fjögurra mánaða starfsnámsstöðu hjá Góðum samskiptum, almannatengslaráðgjöf.

Skátaferill minn hófst í Frumbyggjum á Höfn í Hornafirði, fyrst sem skáti og flokksforingi, en síðar sem aðstoðarsveitarforingi og sveitarforingi. Ég tók upp þráðinn með Skjöldungum í Reykjavík og var á árunum 2007 til 2010 meðal annars sveitarforingi og starfsmaður félagsins auk þess að sitja í stjórn. Síðar hef ég starfað að ýmsum verkefnum með öðrum félögum, meðal annars Haförnum og Segli.

Ég hef á síðustu árum tekið þátt í ýmsum verkefnum fyrir Bandalag íslenskra skáta, farið utan á námskeið og ráðstefnur auk þess að starfa með ýmsum vinnuhópum, nefndum og ráðum, meðal annars alþjóðaráði og upplýsingaráði BÍS. Gilwell þjálfun lauk ég árið 2010.

Á árinu 2012 sinnti ég ýmis konar kynningamálum og fjölmiðlasamskiptum fyrir skátana. Þar má til dæmis nefna Landsmót skáta og Friðarþing, en viðburðirnir skiluðu báðir hreyfingunni góðri umfjöllun sem eftir var tekið.

Með framboði mínu vil ég gefa íslenskum skátum nýjan valkost og tækifæri til að fá ungan og kraftmikinn einstakling inn í stjórn hreyfingarinnar. Ég vil auka sýnileika hreyfingarinnar með bættum upplýsinga- og kynningamálum. Helstu stefnumál mín snúa meðal annars að eftirtöldum þáttum:

  • endurskoðun verkefna upplýsingaráðs og aukin aðkoma ráðsins að umsjón eða ráðgjöf vegna einstakra viðburða
  • árleg ímyndar- og samskiptaáætlun BÍS
  • áframhaldandi endurskoðun skátabúningsins
  • aukin þátttaka skáta í samfélagsumræðu
  • aukin sýnileiki hreyfingarinnar í fjölmiðlum
  • bætt upplýsingagjöf stjórnar BÍS til skátafélaga
  • aukinn stuðningur við skátafélög á sviði upplýsinga- og kynningamála
  • áframhaldandi endurskoðun vefsíðna skátanna og stefnumiðuð notkun samfélagsmiðla

Í von um að gefa sem flestum kost á að kynna sér stefnumál mín eru frekari upplýsingar um mig og ítarlegri upplýsingar um stefnumálin auk umsagna vina og samstarfsfólks aðgengilegar á kynningarsíðunni minni, gunnlaugur.is. Auk þess má fylgjast með mér á Facebook síðunni facebook.com/gunnlaugurbr.

Stjórn BÍS samanstendur af fulltrúum skáta í landinu og þarf því að endurspegla töluverða fjölbreytni. Skátar þurfa að finna að stjórnarmenn sitji í þeirra umboði og séu þeirra fulltrúar. Auk þess að hafa skýra sýn tel ég mig góðan talsmann ungs fólks. Því óska ég eftir umboði Skátaþings 2014 til að leiða upplýsingamál íslenskra skáta næstu þrjú árin.

Með bestu skátakveðju,

Gunnlaugur Bragi

Netfang: gunnlaugurbragi@skatar.is

Sími: 856-7784