Guðmundur Finnbogason skiptir um starfsvettvang

Guðmundur Finnbogason starfaði sem framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvar skáta að Úlfljótsvatni frá júní 2013 er hann fluttist á staðinn með fjölskyldu sinni, eiginkonunni Guðrúnu Ásu Kristleifsdóttur og þremur börnum þeirra. Fyrsta eina og hálfa árið gengdi Guðrún stöðu dagskrárstjóra fyrir Útilífsmiðstöðina.

Með ráðningu Guðmundar vildi Úlfljótsvatsráð beina starfseminni  inn á nýjar brautir og freista þess að renna nýjum stoðum undir hana. Ráðist var í stefnumótun sem dró saman hugmyndir víða að úr skátahreyfingunni og varð sú vinna innlegg í lögbundið deiliskipulag fyrir jörðina Úlfljótsvatn sem nú er á lokastigi.  Þá var ráðist í víðtæka markaðsetningu á Útilífsmiðstöðinni. Gert var átak í því að þróa og efla skólabúðirnar og  farið var í markaðsetningu staðarins  til erlendra skátahópa. Útilífsmiðstöðin leiddi þrjú fjölþjóðleg verkefni sem hlutu styrk frá Erasmus plus  áætlun Evrópusambandsins. Þar á meðal má nefna fjölþjóðlega ráðstefnu um útikennslu sem sótt var af yfir 100 íslenskum kennurum og fyrirlesurum frá 8 löndum sem og 5 þjóða þróunarverkefni um gæði í starfi skátamiðstöðva. Útilífsmiðstöðin hefur einnig fengið styrki frá Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fjölda annarra aðila á undanförnum árum. Í tenglsum við þessa erlendu markaðssókn hefur Guðmundur og samstarfsfólk hans heimsótt fjölda skátamiðstöðva víða um heim til að kynna Útilífsmiðstöðina sem vænlegan kost fyrir skátahópa sem vilja sækja Ísland heim.

Stærstu verkefni Úlfjótsvatsráðs á síðastliðnum tveimur árum voru að sjálfsögðu undirbúningur fyrir Landsmót skáta árið 2016 og World Scout Moot nú í sumar. Allt tókst það með miklum ágætum þótt metfjöldi þátttakenda hafi reynt til þrautar á innviði staðarins.  Að lokum má nefna að nú í haust  mun Útilífsmiðstöðin standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu stjórnenda skátamiðstöðva (Center Manager Conference) á Úlfljótsvatni.

Guðmundur hefur nú tekið við stöðu aðstoðarskólastjóra Bláskógarskóla á Laugarvatni en hann mun þó áfram sinna áfram trúnaðarstörfum fyrir skátahreyfinguna. Meðal næstu verkefna þar er fararstjórn á World Scout Jamboree 2019.

Stjórn BÍS vill þakka Guðmundi og eiginkonu hans fyrir gott samstarf á liðnum árum og óskar fjölskyldunni allri velfarnaðar á nýjum vettvangi.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar