Guðbjartur Hannesson kvaddur

 Skátar kveðja góðan félaga, en Guðbjartur Hannesson verður borinn til grafar í dag. Hann var ávallt kallaður Gutti og svaraði eiginlega ekki öðru nafni. Bandalag íslenskra skáta sendir eftirfarandi kveðju:

Guðbjartur Hannesson er farinn heim. Við skátar kveðjum með söknuði góðan vin og öflugan félaga sem kvaddi allt of snemma. Gutti gekk ungur til liðs við skátahreyfinguna, á einu af blómaskeiðum Skátafélags Akraness. Honum voru fljótt falin forystustörf og sýndi hann að það fór honum vel að leiða aðra í starfi. Við skátar nutum starfskrafta hans að fullu á árunum 1973-1975 þegar hann starfaði sem erindreki Bandalags íslenskra skáta. Þá ferðaðist hann um landið, hélt námskeið og studdi við foringja skátafélaganna á allan hátt. Sem stjórnmálamaður var hann ávallt vakandi fyrir starfi skátanna og leitaði lausna til þess að tryggja hagsmuni þeirra. Fyrir það erum við í stjórn Bandalags íslenskra skáta honum ævinlega þakklát. Sem örlítinn þakklætisvott fyrir þennan stuðning var hann sæmdur silfurmerki BÍS á Skátaþingi 2014.

Af djúpri virðingu þakka íslenskir skátar Guðbjarti fyrir samfylgdina og senda aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.

Þú ert skáti horfinn heim,
himinn, jörð, ber sorgarkeim.
Vinar saknar vinafjöld,
varðar þökkin ævikvöld.

Sérhver hefur minning mál,
við munum tjöld og varðeldsbál,
bjartan hug og brosin þín,
þau bera ljósið inn til mín.

Kveðjustundin helg og hlý,
hugum okkar ríkir í.
Skátaminning, skátaspor,
skilja eftir sól og vor.

(Hörður Zóphaníasson.)

 F.h. stjórnar Bandalags íslenskra skáta,

Bragi Björnsson, skátahöfðingi

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar