Grunngildi á Skátaþingi

Óhætt er að segja að næsta Skátþing muni geta markað tímamót í sögu skátastarfs á Íslandi en fram eru komnar tillögur um nýtt skátaheit og samþykktir um grunngildi hreyfingarinnar.

Í gærkvöldi  sendi Skátamiðstöðin út marvíslegar upplýsingar tengdar dagskrá næsta skátaþings sem haldið verður eftir tvær vikur.  Í útsendum gögnum er meðal annars að finna tvær tillögur um nýtt skátaheit og einnig eru tillögur um lagabreytingar sem snúast um grunngildi skátahreyfingarinnar.  Tenglar á útsend gögn eru neðst í þessari frétt.

Þá eru einnig tímamót að á Skátaþingi verður í fyrsta sinn kosið til ungmennaráðs, en formaður þess mun sitja í stjórn BÍS.  Sjálfkjörið verður í öll embætti í stjórn BÍS að frátöldu ungmennaráði . Til formanns upplýsingaráðs bjóða tveir sig fram, þeir Benjamín Axel Árnason núverandi formaður og  mótframbjóðandi hans Gunnlaugur Bragi Björnsson.

Nýtt skátaheit

Umræða um skátaheitið hefur staðið yfir um nokkurt skeið innan skátahreyfingarinnar. Á síðasta skátaþingi var lögð áhersla á að umræðan um skátaheit skyldi vera ígrunduð og upplýst, svo sú ákvörðun sem tekin verði á þinginu verði skátasamfélaginu öllu til heilla. Síðan þá hefur verið efnt til skoðanakannana meðal skáta og kynninga til að efla umræðu enn frekar um málið svo fá megi fram sjónarmið starfandi skáta og foreldra.  Sérstök upplýsingasíða um skátaheitið var sett upp og þar er gerð betur grein fyrir umræðu og áherslum >   http://skataheit.wordpress.com/

Tvær tillögur um nýtt skátaheit verða bornar upp á þinginu í apríl og eiga báðar það sammerkt að orðið „guð“ og „ættjörðin“ falla út. Báðar eru breytingartillaga við 4. gr. laga BÍS sem fjallar um íslenska skátaheitið.

Fyrri tillagan um hvernig íslenska skátaheitið skuli vera hljóðar svo:

Ég er skáti á meðal skáta.
Ég trúi að gjörðir mínar hafi tilgang
og að til sé fleira en það sem augu mín fá séð
Ég legg mig fram við að láta gott af mér leiða
og halda skátalögin.

Flutningsmenn tillögunnar eru Arnór Bjarki Svarfdal, Svönum, Auður Sesselja Gylfadóttir, Ægisbúum, Árný Björnsdóttir, Hraunbúum, Guðrún Häsler, Segli, Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir, Segli, Katla Sigríður Magnúsdóttir, Ægisbúum og Þórhallur Helgason, Segli.

 

Seinni tillagan um hvernig íslenska skátaheitið skuli vera hljóðar svo:

Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess
að gera skyldu mína við samvisku og samfélag,
að hjálpa öðrum
og að halda skátalögin.

Flutningsmenn tillögunnar eru Bergþóra Ólöf Björnsdóttir, Elmar Orri Gunnarsson, Guðrún Sigríður Ólafsdóttir, Haukur Haraldsson, Helgi Grímsson, Sigurður Viktor Úlfarsson, Sveinn Þórhallsson og Vilborg Norðdahl.

 

Núverandi skátaheit  hljóðar svo:

Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess;
að gera skyldu mína við guð og ættjörðina,
að hjálpa öðrum
og að halda skátalögin.

Inn á vefum um skátaheitið má sjá umfjöllun um núverandi skátaheit   í kaflanum „Um skátaheitið í nýjum foringjahandbókum“

Með báðum tillögum um ný skátaheiti fylgir greinargerð sem skátar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér.

 Gögnin í grænu skýi

Eins og áður segir sendi Skátamiðstöðin í gærkvöldi út tölvupóst til skátafélaganna með yfirliti yfir gögn sem eru tiltæk:

Gögn varðandi skátaþing 2014 verða gerð aðgengileg á „greenqloud“

Útsend gögn 

 • Drög að dagskrá Skátaþings.
 • Drög að skýrslu stjórnar.
 • Drög að ársreikningi.
 • Fjárhagsáætlun og tillögu að árgjaldi skátafélaga til BÍS.
 • Drög að starfsáætlun BÍS til fimm ára.
 • Tillögur frá skátafélögum, stjórn BÍS, ráðum þess og nefndum.
 • Kynningu á þeim frambjóðendum sem í kjöri verða á þinginu.

 

Lagabreytingar

 • Tillaga stjórnar BÍS að nýju lagasafni
 • Tillaga sameiningarheitið – skátaheit
 • Tillaga skátaheit
 • Greinagerð með tillögum stjórnar
 • Grunngildi – tillaga og greinargerð

Vakin er sérstök athygli á að skátaþing verður grænt, gögn eru vistuð á grænu skýi og ýmsar nýjungar verða kynntar á þinginu sjálfu.

 

Skátaþing verður haldið 4.-5. apríl í Snælandsskóla í Kópavogi. – skráning og upplýsingasíða þingsins –http://skatamal.is/um_okkur/skatathing

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar