Góður árangur í leiðtogaþjálfun

Þátttökumet í leiðtogaþjálfun skáta var slegið síðasta vetur og allt útlit fyrir að komandi vetur verði ekki síðri, en fyrsta námskeið vetrarins hefst 6. september. Góða aðsókn má rekja til þess að dagskráin var gerð aðgengilegri og sóttu margir eldri skátar og foreldrar vönduð dagsnámskeið um helgar.

Námskeiðin í vetur eru leiðtoganámskeið skáta og verður bæði boðið upp á grunnnámskeið og framhaldsnámskeið, en þau voru í fyrsta sinn í boði á liðnum vetri. Grunnnámið er byggt upp á fimm skrefum sem raðast nokkuð jafnt á jafnmargar helgar yfir veturinn og auðveldar það fleirum að sækja þessa þjálfun. Hægt er að hefja námið á mismunandi tímum á hverju ári.

Framhaldsnámskeiðin í vetur verða væntanlega fjögur: um mannauðsstjórnun, viðburða- og verkefnastjórnun, einstaklingsleiðsögn í leiðtogaþjálfun og um undirbúning og kennslu á stuttum námskeiðum.

Ólafur Proppé, fyrrum rektor Kennaraháskólans, er skólastjóri Gilwell-skólans. Hann segir mikilvægt að sjálfboðaliðar njóti viðeigandi þjálfunar ásamt faglegum- og félagslegum stuðningi í starfi. „Þannig vaxa þeir og þroskast sem leiðtogar í eigin lífi í starfi fyrir skátahreyfinguna,“ segir hann.

Gilwell-skólinn á sér alþjóðlegan uppruna eins og nafnið bendir til. Íslenski Gilwell-skólinn er þó rekinn sjálfstætt og með dagskrá sem löguð er íslenskum aðstæðum. Skólanum var í sumar sett ný skipulagsskrá og ríkir mikill metnaður hjá stjórnendum hans að bjóða vandaða leiðtogaþjálfun og endurmenntun. Stefnt er að skipulegu gæðamati á starfi Gilwell-skólans og er markið sett á EQM vottun, en Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er vottunaraðili hennar á Íslandi.

Gilwell-skólinn er opinn öllum 18 ára og eldri sem hafa áhuga á að að efla sig sem leiðtoga og leggja skátahreyfingunni lið – hvort sem þeir hafa verið skátar á yngri árum eða ekki.

 

Nánari upplýsingar:

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar