Gleðisprettur á skátamót í Englandi

Íslenskur hópur úr nokkrum skátafélögum fer í lok júlí á „Run to the fun“ skátamótið sem haldið er í Devon héraði á Englandi. „Það eru 26 skátar að fara á þetta mót, Við erum úr Vífli, Svönum, Fossbúum og Skátafélagi Borgarness,“ segir Vigdís Björk Agnarsdóttir sem er fararstjóri ásamt Atla Bachmann. Flestir sem fara eru á rekkaskátaaldri, 16 – 18 ára.
Skátar frá Devon fóru víða um Ísland eftir dvöl sína á síðasta landsmóti og nutu leiðsagnar Vigdísar.

Skátar frá Devon fóru víða um Ísland eftir dvöl sína á síðasta landsmóti og nutu leiðsagnar Vigdísar.

Íslenskir skátar eiga góðar tengingar við skáta í Devon héraði og á það rætur að rekja til heimsmóts skáta 2007 sem haldið var á Englandi, en eftir það mót voru íslenskir skátar í heimagistingu víðsvegar í Devon héraði.

Skátar frá Devon í tvígang á landsmót hérlendis

Vígdís var þar í heimagistingu ásamt mörgum félögum úr skátafélaginu Vífli og segir hún að árið eftir heimsmótið hafi skátar frá Devon ákveðið að sækja Landsmót skáta á Akureyri. „Þangað kom myndarlegur hópur sem síðan gisti í Jötunheimum í Garðabæ fyrir og eftir mót og hittu þar mikið af þeim skátum sem voru í heimagistingu árið áður,“ segir Vígdís.

Skátar frá Devon komu síðan aftur á Landsmót skáta í fyrra og að þessu sinni með 45 manna hóp. „Þetta eru frábærir skátar og foringjar sem skemmtu sér mjög vel fyrir norðan,“ segir Vigdís sem fór með hópnum í viku ferð eftir mótið fyrir norðan. Þau lögðu leið sína um Húsavík, Mývatn, suður Sprengisand, í Landmannalaugar og Þórsmörk. „Við enduðum ferðina á Úlfljótsvatni í yndislegu veðri.“ segir Vigdís.

Fullvaxin dagskrá á Run to the fun

Skátarnir frá Devon kynntu íslenskum félögum sínum mótið Run to the Fun í Devon. „Þetta er þriðja mótið sem haldið er þarna og mér sýnist dagskráin bjóða upp á frábær atriði eins og survival þjálfun hjá breska hernum og Sirkusrólu þjálfun í rólu af stærri gerðinni,“ segir Vigdís og það er tilhlökkun í röddinni.  Vigdís er alvön fullvaxinni dagskrá en hún er formaður Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.

„Eftir mót munu gestgjafarnir í Devon sjá um okkur í 4 daga og skipuleggja dagskrá fyrir okkur og eftir það verðum við 4 daga í Gilwell park,“ segir Vigdís og lofar góðri frásögn að loknu mótinu í Devon.

Nánari upplýsingar um Run to the fun, en mótið stendur yfir frá 25. júlí – 1. ágúst.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar