Gleði í Garðabæ á 17. júní

Skátar skipa stóran sess í hátíðarhöldum á 17. júní víðsvegar um landið og sjást aldrei meira í fjölmiðlum en þann dag í skrúðgöngum og heiðursvörðum. Þó eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því hve mikil vinna býr að baki slíkum skemmtunum.

Garðbæingar gerðu sér glaðan dag á þjóðhátíðardegi Íslendinga eins og aðrir landsmenn. Skátafélagið Vífill hafði veg og vanda að undirbúningi og framkvæmd hátíðarhaldanna. ,,Við sáum um hátíðina og alla dagskránna” segir Guðrún Þórey Sigurbjörnsdóttir starfsmaður skátafélagsins Vífils. ,,Þetta var mikil dagskrá og rosa fjör”.

Íbúar úr Latabæ skemmtu íbúum Garðabæjar. Ljósmynd: Guðrún Þórey

Íbúar úr Latabæ skemmtu íbúum Garðabæjar. Ljósmynd: Guðrún Þórey

Skátarnir fóru fyrir skrúðgöngu, seldu veitingar, buðu upp á andlitsmálningu og fengu meðal annars Pollapönk, Línu Langsokk og Jón Jónsson til að hjálpa sér við að halda uppi fjörinu. ,,Það gekk rosalega vel þrátt fyrir mikla rigningu” segir Guðrún Þórey og bætir við að veðrið hafi ekki haft neikvæð áhrif á mætinguna.

Reynsluboltar í skipulagningu

Skátarnir í Garðabænum hafa áralanga reynslu í að sjá um hátíðarhöld á 17. júní. ,,Ég er búin að sjá um þetta í fimm ár“ segir Guðrún Þórey sem vílar ekki fyrir sér að sjá um undirbúning og framkvæmd tveggja skemmtana en eftir að Álftanes og Garðabær sameinuðust hafa Víflar komið að framkvæmd hátíðarhaldanna á Álftanesi ásamt skátafélaginu Svönum.

,,Við erum mjög ánægð með daginn en það er alltaf gott þegar þetta er búið” bætir Guðrún Þórey við hlæjandi.

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar