Girðingapríl og göngubrýr í Mosfellsbæ

„Það er oft vitnað í þetta verkefni og það hefur fært okkur mikinn velvilja,“ segir Ævar Aðalsteinsson félagsforingi skátafélagsins Mosverja um gönguleiðir í Mosfellsbæ, en skátafélagið hefur gert þær aðgengilegri á nokkrum árum í samvinnu við bæjarfélagið.
Útivistarfólk glöggvar sig á kortunum áður en lagt er af stað.

Útivistarfólk glöggvar sig á kortunum áður en lagt er af stað.

Nú hafa nær 90 km gönguleiða verið stikaðar um fell og dali í bæjarlandinu og aðgengi með bílastæðum, girðingaprílum og göngubrúm orðið nokkuð gott. Stöðugt fleiri njóta útivistar á þessum leiðum, en 20 þúsund göngukort eru í umferð.

Ánægja meðal íbúa og stjórnenda bæjarins

„Þetta gönguverkefni hefur orðið skátafélaginu lyftistöng og einnig gott dæmi fyrir sveitarfélagið þar sem kraftur í frjálsum félagasamtökum virkjaður til góðs.  Hér er verkefni sem skiptir fólk máli,“ segir Ævar stoltur af framlagi skátafélagsins.  „Íbúar tengja vel við þetta verkefni og eru ánægðir með framtakið. Þeir tala um „gönguleiðirnar okkar“ og líta á það sem sitt. Það finnst mér vera góð meðmæli.“

Ævar segir að mikil aukning hafi orðið á umferð gangandi fólks á útivistarsvæðinu og greinilegt sé að stikuðu gönguleiðirnar hafi haft mjög jákvæð áhrif til aukinnar þátttöku almennings á því að nýta sér þetta frábæra útivistarsvæði sem Mosfellingar eiga við bæjardyrnar.

Stikun gönguleiða í Mosfellsbæ hefur verið hluti af starfi skátafélagsins Mosverja í nær tíu ár, en hugmyndavinna hófst árið 2006 þegar Mosverjar voru fengnir til að koma með tillögur að útivistarmöguleikum í tengslum við vinnu við skipulag og útivist á Hafravatnssvæðinu. Hugmyndir skátanna voru lagðar fyrir stjórnendur Mosfellsbæjar 2007 sem leist svo vel á að unnin var kostnaðarætlun og í framhaldi voru Mosverjar beðnir um að halda utan um verkefnið. Sá vilji var rammaður inn með verksamningi sem gerður var í lok árs 2008. Ævar segir að þar sé ágætis dæmi um samstarfssamning um rekstur milli bæjarfélags og skátafélags.  Hann er mjög ánægður með samskiptin við stjórnendur bæjarfélagis og hrósar tæknideild bæjarins fyrir gott samstarf.

Áning

Vegprestar, göngubrýr, girðingastigar og skátaskjól

Gengið upp bratta leið á Úlfarsfelli

Gengið upp bratta leið á Úlfarsfelli

„Vinnan við stígagerðina hefur verið unnin samkvæmt áætlun og því fjárframlagi sem Mosfellsbær hefur getað lagt í verkefnið á hverju ári,“ segir Ævar sem verið hefur verkefnastjóri frá byrjun. Fyrsta árið voru stikaðir 10 km, ásamt því að afla leyfa hjá landeigendum, hanna og skipuleggja göngukortið. Í framhaldi tók við hönnun skilta, vegpresta, girðingastiga og göngubrúa ásamt skipulagi bílastæða og fleira sem tengdust gönguleiðunum.

Ævar segir að nú sé verkið mjög langt komið miðað við upphaflegu áætlunina og grípur fram listann úr gögnunum. Helstu verkliðir voru:

  • Stikaðar gönguleiðir í Mosfellsbæ 87 km
  • Bílastæði 10
  • Girðingastigar 12
  • Göngubrýr 5
  • Plankabrýr 3
  • Upplýsingaskilti með vegprestum 12
  • Vegprestar 30
  • Skátaskjól 4
  • Fræðsluskilt 18
  • Göngukort

Búið er að prenta fjögur upplög af göngukortinu og heildarupplag þess er nú 20.000 eintök. Hægt er að nálgast kortið  í Varmárlaug og í Lágafellslaug, sem og á vefsíðu Mosfellsbæjar – mos.is og vefsíðu skátafélagsins – mosverjar.is.

Mikilvægt að nýta vel frábært útivistarsvæði

Unnið að uppsetningu fræðsluskilta

Unnið að uppsetningu fræðsluskilta

„Á næstu árum verður unnið að að því að klára síðustu verkliðina og þá er hægt að fara lengra með verkefnið ef mönnum sýnist svo,“ segir Ævar. „Alltaf er hægt að bæta við gönguleiðum og stækka svæðið ásamt því að nú er komin þörf að  endurnýja og halda við ákveðnum leiðum og mannvirkjum sem tengjast verkefninu. Við höfum orðið vör við aukningu fólks á svæðinu. Það kallar á meiri vinnu í viðhaldi. Við þurfum að leggja stíga á þeim svæðum sem álagið er mest, en er það ekki ánægjulegt að fleiri skuli nýta sér þessa þjónustu.“

Til viðbótar upphaflega verkefninu hefur verið ákveðið að setja upp fyrstu hringsjána  í Mosfellsbæ.  Henni hefur verið valinn staður á Reykjaborg og er undirbúningur hafinn.

Ævar segir að margvíslegir möguleikar tengist Hafravatnsvæðinu og segir skátafélagið hafa áhuga á að taka þátt í hugmyndavinnu um framtíðarnýtingu þess svæðis. Skátafélagið hafi mikið verið nýtt sér svæðið og hafi meðal annars afnot af skátaskálanum Hleiðru sem einnig er kallaður Skjöldungaskálinn. Mosverjar halda árlega vetrarskátamót undir heitinu Hrollur, þeir hafa verið með sumarnámskeið á Hafravatni og skátasveitirnar sæki með ýmsa viðburði sína á svæðið.

Áð á stikaðri gönguleið

Áð á stikaðri gönguleið

Skátarnir njóta velvilja

Göngueiðirnar eru notaðar allan ársins hring. Hér eru skíðamenn vestan í Reykjaborg

Göngueiðirnar eru notaðar allan ársins hring. Hér eru skíðamenn vestan í Reykjaborg

Stikuðu gönguleiðirnar hafa einnig eflt útivist og útilíf í starfi Mosverja.  „Við notum þetta heilmikið og verkefnið hefur einnig dregið upp þá mynd af skátastarfinu í Mosfellssveit að skátarnir sinni mikið útivist,“ segir Ævar. „Mosverjar vilja vera í fararbroddi skátafélaga og ásamt öðrum aðilum innan sveitarfélagsins auka og efla aðstöðu og aðgengi almennings til útivistar.  Oft er vitnað í framlag skátanna og við njótum mikils velvilja fyrir vikið.“

Í framhaldi af gönguleiðaverkefninu hefur vaxið meiri velvilji gagnvart byggingu skátaheimilis og segir Ævar það verkefni vera í undirbúningi.  Bæjarfélagið hefur sett fram þá hugmynd að skátaheimili verði við tjaldsvæðið og hefur verið rædd sú hugmynd að skátarnir hafi umsjón með því.  Tjaldsvæðið er í nálægð við ævintýragarðinn sem er meðfram Varmánni, á bökkum hennar.

Ævar segir að það sé langtímaverkefni að byggja tjaldsvæðið upp og koma upp trjám til skjóls. Hann tekur þó fram að endanlegur staður fyrir skátaheimili sé ekki kominn. Undirbúningsnefnd að byggingu skátaheimilis var mynduð fyrir ári síðan og þar sitja meðal annarra bæjarstjóri, formaður íþrótta- og tómstundanefndar, auk hans sem félagsforingja Mosverja.  Hann gerir ráð fyrir að línur skýrist betur í vetur.

Tengt efni:

Göngukortið er aðgengilegt á vef Mosverja

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar