Gilwell sveitarfundur verður á Landsmótinu

Eins og jafnan á stærri skátamótum eins og Landsmóti skáta, hittast Gilwell-skátar á sérstakri samkomu sem kallast Gilwell-reunion eða Gilwell-endurfundir og er það alþjóðleg samkoma.
Gilwell endurfundirnir verða nú á Landsmótinu að Hömrum, föstudaginn 25. júlí kl. 23:00

Það er Gilwellhringurinn sem stendur fyrir viðburðinum og segir Haukur Haraldsson formaður Hringsins, að til endurfundanna séu boðnir allir þeir skátar, innlendir sem erlendir, sem lokið hafa Gilwell þjálfun. „Þeir munu hittast, gleðjast, syngja saman alþjóðlega Gilwell- og skátasöngva, deila minningum, efla félagsskap og njóta samvista. Allt eftir tilteknum alþjóðlegum hefðum, en allir Gilwellskátar, hvar sem er í heiminum skipa sömu skátasveitina, „1st Gilwell Scout Group“.  Þetta er því sveitarfundur,“ segir Haukur.

Góð mæting var á Gilwell-Reunion sem haldið var að Úlfljótsvatni árið 2007 og enn betri var hún á síðasta landsmóti.

Góð mæting var á Gilwell-Reunion sem haldið var að Úlfljótsvatni árið 2007 og enn betri var hún á síðasta landsmóti.

Gilwellhringurinn á Íslandi var stofnaður 30. október 1962 af skátunum sem luku Gilwellþjálfun eftir fyrsta íslenska Gilwellnámskeiðið 1959 og síðar. Tilgangur Hringsins er „að vinna hverju því málefni lið, sem meðlimir hans álíta að geti orðið skátahreyfingunni til góðs“ eins og segir í stofnskrá Gilwellhringsins frá árinu 1962. Haukur segir að starf Hringsins hafi verið með ýmsum hætti í gegn um tíðina. Hann starfaði af krafti um nokkurt skeið á upphafsárunum, stóð fyrir foringjanámskeiðum víða um land fyrir hönd Bandalagsins, stofnaði tímaritið Foringjann sem gefið var út af myndarskap í mörg ár.

Á síðustu árum hafa félagar í Hringnum m.a. staðið fyrir miklu átaki í gagngerum endurbótum á Gilwell skálanum á Úlfljótsvatni í nafni Hringsins og staðið vaktina til að taka á móti gestum sem vilja hittast í skálanum og ekki síst staðið fyrir endurfundum eins og þessum sem framundan eru á Landsmótinu. „Ég veit ekki til þess að hliðstæð félög, eins og Gilwellhringurinn á Íslandi séu starfandi meðal skáta annarsstaðar í heiminum“, segir Haukur að lokum. Hann hefur lofað Skátamálum að greina síðar betur síðar frá Gilwellskálanum og endurbótunum þar.

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar