GILWELL-LEIÐTOGAÞJÁLFUN: Verkfræðingurinn lætur drauminn rætast

„Fyrir mig að sækja Gilwell-leiðtogaþjálfun snýst um tvennt: að láta gamlan draum rætast og að sækja mér menntun sem eflir mig í þeim verkefnum sem framundan eru fyrir hreyfinguna”, segir Davíð S. Snorrason, skáti og byggingar- og brunaöryggisverkfræðingur.

„Ég er sannfærður um að Gilwell-leiðtogaþjálfunin muni víkka minn sjóndeildarhring sem verkefnastjóri og leiðtogi”

Davíð ætlar að stíga sitt fyrsta skref á laugardaginn kemur og taka þátt í námskeiðinu „Skátaaðferðin-starfsgrunnur skáta” en það námskeið er fyrra skrefið af tveimur í fyrri hluta Gilwell-leiðtogaþjálfunarinnar en sá hluti felst í tveimur dagslöngum námskeiðum um starfsgrunn skáta, markmið og leiðir í skátastarfi. Blaðamaður Skátamála var forvitinn um að vita meira um manninn og ástæður þess að hann hefði ákveðið að smella sér á námskeið.

Hugbúnaðaruppfærsla

„Það er nauðsynlegt fyrir mig að fá einskonar „hugbúnaðaruppfærslu”, ég hef ekki verið starfandi skátaforingi eftir að skátadagskráin var uppfærð og ég tel að námskeiðið um helgina muni skerpa sýn mína á markmiðum skátastarfsins og þeim nýju aðferðum sem teknar hafa verið upp á síðustu árum”, segir Davíð. Hann bætir því við að honum hafi staðið til boða að sækja Gilwell-þjálfun þegar hann hafi verið sveitarforingi á Akureyri en úr því hafi ekki orðið þá sökum mikilla anna í störfum fyrir hjálparsveitina.

david_photoTæknistjóri WorldScoutMoot 2017 nýtir sér Gilwell-leiðtogaþjálfun

Davíð byrjaði í skátunum á Akureyri laust fyrir fermingu og starfaði þar af krafti um árabil. Eftir að hafa leitt skátasveit sem sveitarforingi flutti hann til Reykjavíkur og eftir stutt „skátafrí” gerðist hann sveitarforingi í Vífli í Garðabæ og gegndi þeirri ábyrgðastöðu þar til hann flutti erlendis í framhaldsnám árið 2007. „Ég svo beðinn um að taka þátt í landsmótsstjórn síðastliðið sumar. Ég var meðstjórnandi og sá jafnframt um Akureyrardag og öryggismál á mótinu”.

Þó að landsmóti sé lokið er ekkert logn í kortunum hans Davíðs: „Ég sit í mótsstjórn WorldScoutMoot 2017 og við ætlum okkur stóra hluti – þetta er risaverkefni og ég tel að stjórnunar- og mannauðshluti Gilwell-leiðtogaþjálfunarinnar muni nýtast mér vel í þeim verkefnum sem framundan eru á þeim vettvangi og mig hlakkar verulega til að takast á við þann þátt þjálfunarinnar“.

Hvaða erindi á verkfræðingur í Gilwell-leiðtogaþjálfunina?

Davíð er ekki seinn á sér að svara þessari spurningu: „Það að efla leiðtogahæfileika sína hlýtur að teljast jákvætt fyrir alla. Í mínum daglegu störfum er ég að hluta til stjórnandi og að hluta til hönnuður, aukin leiðtogahæfni nýtist mér því beint í mínum daglegum störfum. Ég hef farið á mörg verkefnisstjórnunarnámskeið og alltaf lærir maður eitthvað nýtt eða fær ný sjónarhorn á viðfangsefnin”.

Gagnlegt og skemmtilegt

Það að efla leiðtogahæfileika sína hlýtur að teljast jákvætt fyrir alla

„Ég er sannfærður um að Gilwell-leiðtogaþjálfunin muni víkka minn sjóndeildarhring sem verkefnastjóri og leiðtogi og færa mér nýjar hugmyndir að úrlausnum viðfangsefna, bæði í mínu starfi sem fagmaður á sviði verkfræðinnar og að sjálfsögðu í skátastarfinu – þar bíða okkar verkefni til úrlausna sem alla verkfræðinga dreymir um að fást við”.

Lokaorð?

„Já, ég er bara mjög spenntur og hlakka til helgarinnar, hvað sem öðru líður þá eru skátanámskeið bara alltaf hrikalega skemmtileg og félagsskapurinn, upplifunin og stemmningin er auðvitað stór hluti af því að maður smellir sér af stað og tekur þátt…aftur og aftur“. /gp

Langar þig að vera með? Kynntu þér Gilwell-leiðtogaþjálfun – frábær leið til persónulegrar uppbyggingar í leik og starfi. Við tökum vel á móti þér!

Viltu vita meira? Sendu okkur línu á netfangið skatar@skatar.is eða sláðu á þráðinn til okkar í Skátamiðstöðina: 550 9800