Gilwell leiðtogaþjálfun: Tvöfalt öflugri sýn á skátastarfið!

Í dag lauk ævintýralegu sumarnámskeiði Gilwellskólans þar sem áherslan var lögð á upplifun og útivist í bland við fræðslu um starfsgrunn skáta og markmið og leiðir í skátastarfi. Námskeiðið fór fram á Úlfljótsvatni og skartaði staðurinn sínum besta hátíðarbúningi af þessu tilefni. Boðið var upp á sól og regn til skiptis en vindurinn lét á sér standa að þessu sinni.

Sex skátafélög sendu fulltrúa sína á námskeiðið sem tókst í alla staði frábærlega vel og var það samdóma álit þeirra sem tóku þátt að þarna hefði farið saman hárrétt blanda gagns og gamans og til þess var leikurinn gerður.

Þessi fallegi hópur skemmti sér konunglega á Úlfljótsvatni um helgina!

Þessi fallegi hópur skemmti sér konunglega á Úlfljótsvatni um helgina!

Á námskeiðinu tóku þátttakendur fyrstu tvö skrefin í Gilwellleiðtogaþjálfuninni: „Skátaaðferðin – starfsgrunnur skáta“ og „Markmið og leiðir í skátastarfi“. Kennslan fór fram með fyrirlestrum, umræðuhópum og verkefnavinnu þar sem þátttakendur spreyttu sig á ýmsum viðfangsefnum, reistu sér tjaldbúð sem þeir bjuggu í og störfuðu með sínum flokkum og glímdu við ögrandi verkefni sem miðuðu að því að efla hópinn og auka færni í útivist og tjaldbúðalífi.

Bjarni Dagur, sveitarforingi í Hraunbúum

Bjarni Dagur, sveitarforingi í Hraunbúum

Námskeiðið dýpkaði skilning á starfsgrunninum

Bjarni Dagur Þórðarson, sveitarforingi fálkaskáta í Hraunbúum, var á meðal þátttakenda: „Ég sótti innleiðingarnámskeið varðandi nýjan starfsgrunn fyrir nokkru og hef verið að setja mig inn í þau mál en hér um helgina má segja að þau púsl sem mig vantaði til að ná heildarmyndinni hafi komið“.

Bjarni Dagur er bjartsýnn á komandi starfsár telur að þetta námskeið verði sér dýrmætt veganesti: „Ég var óöruggur með nokkur atriði er varða starfsgrunninn, svo sem notkunina á Fálkaskátabókinni sem ætluð er skátunum sjálfum og þá sér í lagi markmiðasetningu hvers og eins sem þar er gert ráð fyrir en eftir þessa helgi er 100% skilningur á hugmyndinni og sjálfstraustið í toppi þannig við Hraunbúar munum vaða af stað með látum og starfa að fullu í anda starfsgrunnsins, nota bækurnar og allan pakkann“.

Lúinn en alsæll sveitarforingi

Bennó var sveitarforingi Gilwellsveitarinnar um helgina.

Bennó var sveitarforingi Gilwellsveitarinnar um helgina.

Námskeiðið um helgina var sett upp með þeim hætti að mynduð var skátasveit þar sem þátttakendur mynduðu flokka, leiðbeineindur eins konar sveitarráð og það kom í hlut Benjamíns Axels Árnasonar, Bennó, að axla sveitarforingjahlutverkið þessa helgina.

„Þetta var æðislega frábær helgi“, segir Bennó. „Ég starfaði nú alltaf í besta skátafélagi í heimi, Árbúum, en ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei haft jafn gott foringjalið með mér og nú um þessa helgi.„ segir hann með brosi á vör.

„Hér um helgina var valin maður í hverju rúmi og meira til, bæði hvað snéri að kennslu fræðilegs efnis sem og frábærri útfærslu á annarri dagskrá sem snéri til dæmis að tjaldbúð, markferð og verklegum þáttum námskeiðsins. Ég er sannfærður um að þessi útfærsla af Gilwell-þjálfuninni mun áfram koma sterk inn í þjálfunina, samhliða þeim dagsnámskeiðum sem við höfum verið að halda enda er það metnaðarmál skólans að mæta tilvonandi nemendum þar sem þeim hentar best hverju sinni“ segir Bennó.

Með syninum á Gilwell

Nína starfar nú sem "mentor".

Nína starfar nú sem „mentor“.

„Eftir að ég lauk minni Gilwell-leiðtogaþjálfun fannst mér rökrétt að halda áfram að taka þátt í starfi skólans og kem núna inn sem svokallaður „mentor“ og tek að mér ásamt fleirum að leiðbeina nemendum skólans í gegnum þau skref sem eftir eru“ segir segir Nína (Jónína Sigurjónsdóttir) úr Skátafélaginu Strók úr Hveragerði.

„Sonur minn, Vilhjálmur Snær, er nú að taka sín fyrstu skref í Gilwell-leiðtogaþjálfuninni og það er auðvitað dýrmætt fyrir okkur mæðginin að deila þessu áhugamáli, þessu frábæra ævintýri sem skátastarfið er“.

Öflugur vöxtur í starfi Gilwellskólans

Dr. Ólafur Proppé, skólastjóri Gilwell skólans

Dr. Ólafur Proppé, skólastjóri Gilwell skólans

Dr. Ólafur Proppé er skólastjóri Gilwell-skólans og er reynslubolti þegar kemur að uppeldis- og fræðslumálum. Óli, eins og hann er kallaður, er ekki blautur á bak við eyrun þegar kemur að foringjaþjálfun því hann hefur verið viðloðandi námskeiðahald og starf Gilwellskólans um áratugaskeið.

Blaðamaður Skátamála hitti Óla í tjaldbúðinni í þann mund sem flokkarnir voru að hefja matseld á laugardagskvöld. Flokkarnir tjölduðu í fallegu skógarrjóðri sunnan við KSÚ sem veitti skjól fyrir veðri og vindum og skapaði rómantíska stemmningu í tjaldbúðinni.

„Vegferð Gilwellskólans síðustu misseri hefur verið hreint ævintýri“ segir Óli og heldur áfram: „Við stefnum á það með stálvilja að útskrifa amk. 100 leiðtoga á ári úr þessu námi og ég er bjartsýnn á að við náum því innan tíðar. Þeir nemendur sem hafa verið hjá okkur að undanförnu hafa svo sannarlega sýnt að þeir eru þess megnugir að efla skátastarfið svo um munar, ýmist sem skátaforingjar eða stjórnendur“.

Blaðamaður Skátamála rifjar upp að þegar hann var yngri var tæpast stingandi strá á á þeim slóðum sem Gilwell-flokkarnir dvelja nú í, umvafðir skógi:

„Staðreyndin er sú að það var ekki fyrr en árið 1986 sem hér var fyrst plantað og svæðinu lokað fyrir sauðfé. Okkur þótti viðeigandi að tileinka Helga Tómassyni, fyrrverandi skátahöfðingja, þessa fyrstu skógrækt enda hafði hann frumkvæði að landnámi skáta hér á Úlfljótsvatni. En hér erum við núna, í glæsilegri tjaldbúð sem er umvafin skógi,  njótum samvistar hvers annars og skjóli þessara trjáa mögnum við upp skátagaldurinn af kyngi og krafti og brýnum okkur til góðra verka.

„Þessi skógur hefur risið upp á 30 árum, það sýnir okkur að góðir hlutir gerast stundum hægt en vöxtur Gilwell-skólans er knúinn með öðrum hætti og vex mun hraðar“ segir Óli með brosi á vör.

/gp

Myndir frá námskeiðinu á Facebook:

:: Föstudagur og laugardagur

:: Sunnudagur

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar