Gilwell-leiðtogaþjálfun á Akureyri

Ágæti skáti! Ætlunin er að gera átak til að efla skátastarf á Norðurlandi með því að halda fyrri hluta Gilwell-leiðtogaþjálfunar fyrir fullorðna á Akureyri helgina 1.-2. nóvember n.k. Seinni hluti þjálfunarinnar verður skipulagður og tímasettur í samráði við þátttakendur.

Lestu eftirfarandi og hugsaðu málið. Væri ekki gaman að taka upp þráðinn á nýjan leik?

Kynningarfundur verður verður í Hvammi 18. okt. kl. 13.00-14.00.

Öflug leiðtogaþjálfun fyrir fullorðna sjálfboðaliða

Skátahreyfingin er uppeldishreyfing sem hefur það markmið að veita ungu fólki tækifæri til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir samfélagsþegnar. Fullorðnir skátar eru kjölfestan í góðu skátastarfi. Þeir eru ábyrgir fyrir uppeldishlutverki hreyfingarinnar.

Gilwell-leiðtogaþjálfuninni er ætlað að byggja ofan á reynslu þátttakenda og gera þeim kleift að marka sér stefnu og setja sér markmið til enn frekari þroska, átaka og sigra í skátastarfi og í lífinu yfirleitt. Gilwell-leiðtogaþjálfun er opinn fyrir alla 19 ára og eldri hvort sem þeir hafa verið skátar á yngri árum eða ekki. Áhugi á uppeldishlutverki skátahreyfingarinnar og starfi með ungu fólki að skemmtilegum viðfangsefnum nægir.

Í Gilwell-leiðtogaþjálfuninni fá þeir innsýn í hlutverk fullorðinna sjálfboðaliða í skátastarfi og öðlast þekkingu og færni til að leiða starfið og þar með leggja sitt af mörkum til betra samfélags. Þjálfunin hjálpar þeim við að takast á við þau störf sem þeir hafa kosið sér. Hún veitir þátttakendum líka tækifæri til að efla leiðtogahæfni sína almennt, en það veitir einstaklingum aukið sjálfstraust og nýtist bæði beint og óbeint í einka- og fjölskyldulífi og á vettvangi atvinnulífsins. Gilwell-leiðtogaþjálfunin er persónuleg vegferð hins fullorðna skáta til að halda áfram að þroskast og eflast í lífi og starfi.

Í hópum fullorðinna skáta er líka að finna fólk sem gaman er að deila geði við, vaxa með og þroskast af skemmtilegri glímu við margs konar viðfangsefni sem svo augljóslega gagnast ungu fólki á þroskaleið þeirra til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir samfélagsþegnar.

Það er sameiginlegt viðfangsefni allra sem leggja af stað í þessa vegferð að vaxa og þroskast sem manneskjur í samvinnu við aðra sem eru á sömu leið. Góður leiðtogi er ekki sá sem stjórnar eða leiðir aðra með skipunum. Góður leiðtogi getur unnið í teymi með öðrum og laðað fram það besta bæði hjá einstaklingum og hópum – og góður leiðtogi er einnig „leiðtogi í eigin lífi“.

Stefnt er að því að sem allra flestir fullorðnir sjálfboðaliðar í skátastarfi ljúki fyrri hluta Gilwell-leiðtogaþjálfunar og helst bæði fyrri og seinni hluta. Þeir sem ljúka Gilwell-leiðtogaþjálfun fá viðurkenningarskjal og alþjóðleg einkenni (wood badge) því til staðfestingar.

Gilwell-leiðtogaþjálfunin er byggð á sömu grundvallaforsendum og samsvarandi þjálfun um allan heim þar sem skátahreyfingin starfar. Hún á rætur aftur til 1919 þegar fyrsta Gilwell-námskeiðið var haldið fyrir skátaforingja í Gilwell Park í London. Nafn leiðtogaþjálfunar skátahreyfingarinnar, Gilwell-leiðtogaþjálfun eða „Wood badge“, tengist alþjóðlegum uppruna og er í samræmi við samskonar þjálfun um allan heim.

Gilwell-leiðtogaþjálfun

Þó að allir sem ljúka Gilwell-leiðtogaþjálfun fái sömu grunnsýn í hugmynda- og aðferðafræði skátahreyfingarinnar býðst hverjum og einum að velja um tvær námsleiðir, aðra fyrir þá sem vilja starfa sem sveitarforingjar eða aðstoðarsveitarforingjar með skátum á aldrinum 7 til 22 ára og hina fyrir þá sem hafa áhuga á að vinna skátahreyfingunni gagn með því að vinna ýmis stjórnunarstörf innan skátafélags eða á sameiginlegum vettvangi skátastarfs, t.d. á vegum Bandalags íslenskra skáta. Þessar tvær námsbrautir eru kallaðar sveitarforingjaleið og stjórnunarleið. Þau sem velja sveitarforingjaleiðina geta að sjálfsögðu valið sér tiltekið aldursstig til að vinna með, t.d. dreka-, fálka¬, drótt¬, rekka¬ eða róverskáta. Báðar leiðirnar eru jafngildar sem Gilwell-leiðtogþjálfun og þeir sem ljúka þeim á fullnægjandi hátt fá Gilwell-einkennin.

Gilwell-grunnþjálfunin samanstendur af tveimur hlutum og fimm „skrefum“:

  • Fyrri hluti (skref 1 og 2) er fólginn í tveimur dagslöngum námskeiðum um starfsgrunn skáta, markmið og leiðir í skátastarfi. Þátttakendur fá Gilwell-hnútinn að loknum fyrri hluta.
  • Seinni hluti (skref 3-5) samanstendur af tveimur dagslöngum námskeiðum um verkefni í skátastarfi, áætlanagerð, skipulagningu skátastarfs eða viðburðastjórnun og fimmta skrefinu sem er helgarnámskeið og fjallarum leiðtogafræði, sjálfsmynd, sjálfsmat og sjálfseflingu leiðtogans. Brautskráning er við lok 5. skrefs með afhendingu Gilwell-einkenna.

Gert er ráð fyrir að þeir sem ljúka Gilwell-leiðtogaþjálfun og bera Gilwell-einkennin hafi lokið námskeiði í „fyrstu hjálp“ frá viðurkenndum aðila auk námskeiðs um „einelti, ofbeldi og barnavernd“. Því er beint til þátttakenda að ljúka fyrri hlutanum helst innan sex mánaða og öllum fimm skrefum innan 12-18 mánaða.

Er ekki tímabært að næla sér í þriðju perluna?

Ert þú gamall Gilwell-skáti?

Ef þú ert gamall Gilwell-skáti ert þú samt velkominn á námskeiðið 1.-2. nóvember. Þá verður námskeiðið símenntun fyrir þig og þú færð að kynnast „nýja“ starfsgrunninum fyrir skátastarf sem byggður er á endurskoðunarstarfi WOSM undanfarna tvo áratugi.

Verið er að byggja upp svo kallað Gilwell-teymi til að sjá um Gilwell-leiðtogaþjálfun fyrir fullorðna skáta. Þeir sem hafa áhuga á að vera með í teyminu og taka að sér afmörkuð verkefni geta fengið þriðju skógarperluna á Gilwell-einkennin sín. Forsenda þess er að taka þátt í amk. tveimur tveggja daga framhaldsnámskeiðum í Gilwell-skólanum. Ef þú verður með á námskeiðinu 1.-2. nóvember telst það sem eitt slíkt framhaldsnámskeið.

Komdu og vertu með

Kynningarfundur verður verður í Hvammi 18. okt. kl. 13.00-14.00. Vertu með í að efla skátastarf á Norðurlandi fyrir unga fólkið svo að það megi njóta þess sama og þú gerðir á þeirra aldri.

Með skátakveðju,

Ólafur Proppé, skólastjóri Gilwell-skólans á Íslandi

Ólöf Jónasdóttir, félagsforingi skátafélagsins Klakks á Akureyri

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar