forsidukassi_gilwellÞað urðu tímamót í sögu Gilwell-skólans um helgina 8.-9. nóvember þegar 16 skátar af Norður- og Austurlandi sóttu fyrri hluta Gilwell-leiðtogaþjálfunarinnar (skref 1 og 2) sem haldið var í Hvammi, skátaheimili Akueyrarskáta. Námskeiðin sóttu fjórir skátar frá Héraðsbúum og tólf frá Klakki – þar af fjórir sem eru félagar í Skátagildinu Kvisti á Akureyri.

Tveir voru gamlir Gilwell-skátar sem sóttu námskeiðið sem sí- og endurmenntun. Þetta var breiður hópur hvað aldur og skátareynslu varðar (meðalaldur 35 ár) – en afar áhugasamur og í honum sköpuðust mjög skemmtilegar og uppbyggjandi umræður. Endurmat þátttakenda var afar jákvætt og var augljóst að þeir kunnu að meta námskeiðin.

Þó að Gilwell-námskeið hafi áður verið haldin utan höfuðborgarsvæðisins eða Úlfljótsvatns var þetta í fyrsta sinn sem markvisst átak var gert í samvinnu við viðkomandi skátafélög til að fjölga fullorðnum sjálfboðaliðum og bjóða þeim fyrri hluta Gilwell-leiðtogaþjálfunar heima í héraði. Ætlunin er að fara í sambærilegt átak í samvinnu við tiltekin skátafélög á fleiri stöðum á næstu misserum.

Markmið helgarinnar voru:

 • Öðlast dýpri skilning á markmiðum og grunngildum skátahreyfingarinnar sem alþjóðahreyfingar og kjarna skátastarfs sem byggt er á þessum grunngildum.

  ak-stulka
  Kátt á hjalla!
 • Þekkja og skilja Skátaaðferðina sem kjarnaaðferð í skátastarfi barna og ungmenna.
 • Þekkja og skilja flokkakerfið, táknræna umgjörð, tengslin á milli markmiða skátahreyfingarinnar, ólíkra þroskasviða og þroskaferils skátanna.
 • Gera sér grein fyrir hlutverki leiðtoga í skátastarfi.

Benjamín Axel Árnason, Dagbjört Brynjarsdóttir og Ólafur Proppé fóru norður og héldu námskeiðin fyrir hönd Gilwell-skólans í góðri samvinnu við Ólöfu Jónasdóttur félagsforingja Klakks.

Gilwell-leiðtogaþjálfun – fimm skref í tveimur áföngum

Gilwell-þjálfunin er leiðtogaþjálfun fyrir fullorðna sjálfboðaliða í skátastarfi byggð á alþjóðlegum grunni WOSM (World Organization of the Scout Movement). Þeir sem ljúka Gilwell-leiðtogaþjálfun fá alþjóðleg einkenni og verða hluti af alþjóðlegri sveit Gilwell-skáta. Þjálfuninni er skipt í tvo hluta:

 • Fyrri hluti
 • Skátaaðferðin – starfsgrunnur skáta (fyrsta skref)
 • Markmið og leiðir í skátastarfi (annað skref)
 • Seinni hluti
 • Verkefni í skátastarfi – (um viðfangsefni skátanna) (þriðja skref)
 • Viðburðastjórnun og skipulagning skátastarfs – (um viðfangsefni leiðtoga í skátastarfi) (fjórða skref)
 • Leiðtogi í eigin lífi – (um hlutverk leiðtoga og eflingu þeirra í skátastarfi og í eigin lÍfi) (fimmta skref)

Einnig námskeið um „réttindi barna“ og „skyndihjálp“.

Ugluflokkurinn brýtur málin til mergjar.
Ugluflokkurinn brýtur málin til mergjar.

Fyrir hverja er Gilwell-leiðtogaþjálfun?

 • Alla fullorðna sjálfboðaliða í hverju skátafélagi
 • Skáta 18 ára og eldri sem eru virkir í skátastarfi
 • Skáta 18 ára og eldri sem ekki eru virkir í skátastarfi
 • Foreldra skáta
 • Aðra markhópa sem við viljum fá í sjálfboðastörf fyrir skátahreyfinguna
 • Alla fullorðna sem vilja bæta heiminn með skátastarfi
 • Alla fullorðna sem vilja þjálfa leiðtogafærni sína í skátastarfi

Markmiðið er að sem allra flestir fullorðnir sjálfboðaliðar sem vinna að framgangi skátastarfs – bæði í einstökum skátafélögum og á öðrum vettvangi – ljúki Gilwell-leiðtogaþjálfun.

Ljósmyndir: Árni Már Árnason / Texti: ÓP
:: Nánari upplýsingar um Gilwell-leiðtogaþjálfun.