Smella sér á Gilwell til Eyja til að gera gott betra

gilwell-logo-250pixStöllurnar Hjördís Þóra Elíasdóttir og Fanndís Eva Friðriksdóttir úr Vífli eru á meðal þátttakenda á Gilwell-námskeiði sem fram fer í Vestmannaeyjum dagana 17.-18. janúar næstkomandi.
Nokkur sæti ennþá laus

„Við ákváðum að grípa þetta einstaka tækifæri til að upplifa fyrstu skrefin í Gilwell-leiðtogaþjálfuninni úti í Eyjum„ segir Fanndís. „Við vitum að það er enn hægt að bætast í hópinn og það verður pottþétt laust plást í okkar bíl um borð í Herjólf ef einhverjir ofan að landi vilja koma með. Það er meira spennandi að mæta út í Eyjar heldur en að taka námskeið á höfuðborgarsvæðinu þar sem allir fara heim til sín að sofa á kvöldin“.

Aldrei séð Lunda

„Ég hef aldrei séð Lunda og ætla nota ferðina til að sjá hann” segir Hjördís og rifjar upp að hún hafi komið til Vestmannaeyja einu sinni áður, þá þriggja ára. Fanndís tekur í sama streng: „Ég hef bara einu sinni komið til Vestmannaeyja og mig hlakkar mikið til að koma þangað aftur”.

Langar í meira

Þær Hjördís og Fanndís fengu Forsetamerkið síðastliðið haust og þeim finnst báðum að Gilwell-leiðtogaþjálfunin sé rökrétt framhald. „Okkur langar í meira” segir Hjördís. „Við unnum vasklega að Forsetamerkinu síðustu misserin og við upplifðum að við vildum gera meira, læra meira og því lá beint við að takast á við þjálfunina hjá Gilwell-skólanum”.

Fanndís bætir við að félagar þeirra í Vífli hafi klárað skref 1 og 2 síðastliðið haust og með því að leggja hart að sér nái þær vinum sínum úr Vífli í 3. skrefi og geti verið samferða hópnum það sem eftir lifir Gilwell-þjálfunarinnar.

Skátaðferðin virkar!

Þær stöllur eru sveitarforingjar fálkaskáta í Vífli. Með þeim starfa tveir öflugir aðstoðarsveitarforingjar og í þeirra sveit eru 18 skátar. „Það er bara helmingurinn af fálkaskátunum í Vífli, hinn hópurinn er líka vel mannaður” segir Fanndís. „Við byggjum okkar starf alfarið á nýja starfsgrunninum, notum foringjabækurnar og stoðefnið frá BÍS en vitum að við þurfum að bæta okkur á ýmsum sviðum svo sem varðandi dagskrárhringinn og þess vegna fannst okkur Hjördísi upplagt að drífa okkur á Gilwell til að taka fyrstu skrefin og læra til hlýtar hvernig við getum gert gott betra með aðferðafræði nýju dagskrárinnar”.

„Nýja dagskráin er að svínvirka hér hjá okkur í Vífli” segir Hjördís. „Það verður samt gott fyrir okkur Fanndísi að fara í gegnum Gilwell-þjálfunina til að ná fullkomnum tökum á þessu.”

Fanndís og Hjördís

Fanndís og Hjördís

Spennandi að kynnast nýju fólki

„Það er mikilvægt fyrir okkur að eiga þess kost að kynnast nýju fólki á okkar reki samhliða foringjastarfinu” segir Hjördís. „Það er nauðsynlegt fyrir okkur að hitta aðra krakka, eignast nýja vini og vinna með nýju fólki – það er allavega eitthvað sem drífur mig áfram og gerir skátastarfið spennandi”. Fanndís tekur undir með Hjördísi: „Eins og foringjastarfið er nú gefandi þá er það lífsnauðsynlegt fyrir okkur að komast í snertingu við jafningja okkar úr öðrum skátafélögum, kynnast þeim, vinna með þeim og upplifa að skátastarfið er líka til fyrir okkur eldra liðið”.

Ætla að fullnýta ferðina

„Námskeiðið í Eyjum byrjar ekki fyrr en á laugardagsmorgni en við Fanndís ætlum að bruna í Herjólf á föstudagsmorgunn og njóta Vestmannaeyja allan þann dag og fá okkur svo eitthvað gott að borða um kvöldið„ segir Hjördís. „Svo skilst mér að Björgunarsveitin í Vestmannaeyjum og Eldheimar séu búnir að undirbúa óvæntar uppákomur fyrir okkur um helgina þannig að þetta verður örugglega rosalegt„ bætir Fanndís við.

Ekki vera hæna – það er nóg pláss!

Þær Hjördís og Fanndís voru ekki í neinum vandræðum með lokaorðin í þessu viðtali: „Ekki vera hæna – það er nóg pláss!

Fyrir þá sem enn eru að pæla þá er það hér með upplýst að enn er mögulegt að bætast í hópinn með þeim Hjördísi, Fanndísi og fleiri hressum skátum sem ætla að stíga sín fyrstu skref í Gilwell-leiðtogaþjálfuninni dagana 17.-19. Janúar.

:: Nánari upplýsingar og skráning
:: Myndir á Facebook

/gp

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar