Gay gang gúllí gúllí gleðiganga

Hópur skáta ætlar að taka þátt í Gleðigöngu Hinsegin daga á laugardag. Með því vill hópurinn sýna að skátar standa með mannréttindum og hinsegin fólki í réttindabaráttu þess.

Allir skátar eru hvattir til að taka þátt í framtakinu „Allir mega vera með þó þeir hafi ekki verið í undirbúningnum. Þemað er „Á ferðalagi saman“ og því má mæta með áttavita, sjónauka, gönguskó og fleira sem er ferðalagalegt,“ segir Hjördís Björnsdóttir á spjallþræði skáta á Facebook.

Skátar tóku í fyrra þátt í Gleðigöngunni í fyrsta sinn til að sýna mannréttindum virðingu sína og einnig öðrum þræði til að mótmæla afstöðu bandarísku skátahreyfingarinnar til samkynhneigðra en hún útilokaði þá frá foringjastörfum. Bann  skátahreyfingarinnar í Bandaríkjunum við því að samkynhneigðir geti verið skátaforingjar var afnumið fyrr á árinu.

Vagninn fyrir Gleðigönguna verður skreyttur annað kvöld –  föstudagskvöld og þeir sem vilja taka þátt í því eru hvattir til að mæta á Malarhöfða eftir kl. 17:30.

Gleðigangan sjálf, sem er hápunktur Hinsegin daga, hefst kl. 14.00 á laugardag og verður gengið frá Vatnsmýrarvegi að Arnarhóli.

 

Tengar fréttir – frá síðasta ári:

Hýr og rjóð í Gleðigöngu

Skátar í Gleðigöngu

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar