Galdur áttavitans

„Strákarnir eru gríðarlega áhugasamir, eldfjörugir og mæta mjög vel,“ segir Guðni Gíslason sem tók við nýrri drekaskátasveit sem stofnuð var í Hraunbúum í haust til að mæta áhuga ungra Hafnfirðinga á skátastarfi.  Nýja sveitin fékk nafnið Rauðúlfar og í henni eru nú 20 strákar, flestir fæddir 2007 og því á sínu fyrsta ári í skátastarfi.
Heimsókn í Hellisgerði

Heimsókn í Hellisgerði

„Áttavitinn hefur vakið áhuga þeirra og áttavitarósin í Hraunbúamerkinu sem skorið er út í gólfdúk í skátaheimilinu hjálpar þeim við að læra áttirnar,“ segir Guðni. Drekaskátarnir bjuggu einnig til risastóra áttavitarós í snjóinn á Viðistaðatúni og skiptust á að hlaupa í réttar áttir.

 Sælgæti á trjám og Karlsvagninn á himni

Meðal þess sem skátasveitin tók sér fyrir hendur nýlega var gönguferð í Hellisgerði þar sem drekaskátarnir upplifðu töfra garðsins, fundu sælgæti hangandi á trjám og sleikibrjóstsykur sem stóð upp úr grasinu þegar þeir leituðu að „feitasta“ trénu. Ekki minnkaði gleðin þegar uppi á milli trjánna mátti sjá Karlsvagninn í allri sinni dýrð og þá var gaman að geta fundið Pólstjörnuna sem vísar manni í norður. Gátu þeir sett sig í spor víkinganna sem höfðu fátt annað en stjörnurnar til að sigla eftir.

Frá drekaskátafundi Rauðúlfa

Frá drekaskátafundi Rauðúlfa

 Heilsað með suður-hendinni

Ungir strákar eru ekkert allt of vissir með það hvað er hægri og vinstri og því var úr vöndu að ráða þegar hópur Rauðúlfa voru vígðir skátar. Ekki var hægt að skemma fallega athöfn með því að þeir heilsuðu með rangri hendi. En vitandi hverjar áttirnar voru í skátaheimilinu heilsuðu allir með hægri hendi þegar þeim var sagt að heilsa með suður-hendinni. Það má því með sönnu segja að það hafi verið ratvísir strákar sem fengu skátaklútinn til merkis um að þeir væru orðnir fullgildir skátar.

Næstum því sá yngsti

Þegar Guðni Gíslason var fenginn til að stýra sveitinni voru um 35 ár síðan hann síðast stjórnaði skátasveit og þá voru það ylfingar.  En þrátt fyrir að Guðni eigi 50 ára skátaafmæli í um þessar mundir varð hann ekki elsti drekaskátaforinginn í Hraunbúum og reyndar munaði aðeins mánuði að hann yrði sá yngsti. Allir þrír drekaskátaforingjarnir eru félagar í St. Georgsgildinu í Hafnarfirði þar sem Guðni er gildismeistari og stjórnar hann því í dag skátum frá 7 ára til 91 árs. Með Guðna í drekaskátastarfinu starfar aðstoðarsveitarforinginn Svanur Logi Guðmundsson.

Búningakistan er spennandi

Búningakistan er spennandi

Mikil orka að halda athygli

Guðni segir mikinn mun vera á drekaskátum og ylfingum, en þar vegur að hans mati þungt breytt aldursskipting í starfinu.  Ylfingastarfið áður fyrr var með 9-10 ára strákum, en aldurinn fyrir drekaskáta er 7-9 ára og hjá Guðna eru flestir 7 ára.  „Þó ég sé þaulreyndur strákauppalandi, eigandi sex stráka, þá er miklu erfiðara að halda uppi aga með þessum strákum í dag. Hvort það sé aldurinn eða tíðarandinn skal ég ekki segja. Þú heldur ekki athygli þeirra nema í örstutta stund í einu. En þeir eru jafn yndislega skemmtilegir og áður,“ segir hann.

Rauðúlfar-fundur-03_resize Guðni segir að þó allir hafi sín einkenni sé hreyfiþörfin mikil hjá öllum, sama þörfin er á að skoða, fikta og forvitnast og allir hafi þörf fyrir stuðning og væntumþykju.  „Þegar ég var ylfingaforingi var ekkert til sem hét ofvirkni eða athyglisbrestur. Menn voru bara fjörugir eða bara villingar. Foreldrar voru ekki mikið að skipta sér af starfinu og foreldrafundir voru vinalegir kaffifundir en þeir höfðu ekki áhyggjur af ungum foringjum í þá daga. Þetta er breytt. Nú fá foreldrar að fylgjast með,“ segir hann.

„Ég hef ekki mótað mér skoðun á þessari breyttu aldursskiptingu en ég set spurningarmerki við að hafa svona unga krakka í sveit sem starfa á í 3 ár. Það gerir starfið flóknara enda töluverður þroskamunur á 7 og 9 ára strákum. Ég veit að sum félög taka inn fyrst við 8 ára aldurinn en þörfin er greinileg fyrir skátastarf fyrir unga krakka. Ég þarf hins vegar að fara á gott námskeið ef ég að skilja dagskrárgrunn fyrir drekaskáta og það veldur mér áhyggjum að engin drekaskátasveit notar Drekaskátabókina,“ segir Guðni.

 Aðstoðarsveitarforingi óskast til að taka við þökkum

„Starfið í dag kallar á fleiri foringja og ég leita einmitt af öðrum aðstoðarsveitarforingja svo við verðum þrír foringjar með sveitina,“ segir Guðni, en þegar hann tók við sveitinni í október á nýliðnu ári voru um 12 strákar í henni og flestir þeirra nýbyrjaðir í skátunum. Nú eru þeir orðnir 20.

Guðni mælir með þessu starfi enda sé starf með þessum aldurshópi bæði krefjandi og skemmtilegt. „Það er ekki amalegt að vera þakkað fyrir hvern fund með handabandi hvers einasta skáta í sveitinni,“ segir hann og hvetur áhugasama til að hafa samband við félagsforingja Hraunbúa eða senda póst á hraunbuar@haunbuar.is

 

Tengt efni:  Drekaskátar – 7 – 9 ára

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar