Frosnir gönguskór og svalir skátar

Seinni undirbúningsútilegan í Vetraráskorun Crean á Íslandi var haldin um síðustu helgi og segir Guðmundur Finnbogason stjórnandi hennar að skátarnir hafi staðið sig vel þrátt fyrir mikinn kulda. „Gönguskór frusu en skátarnir voru svalir,“ segir hann.
crean2016-æfingahelgi09

Í náttstað

Vetraráskorun Crean er samstarfsverkefni íslenskra skáta, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og írskra skáta. Þátttakendur sem eru á aldrinum 14 og 15 ára koma frá Íslandi og Írlandi. Vetraráskorunin er tileinkuð Tom Crean írskum landkönnuði og tekur dagskráin mið af því. Gerð eru snjóhús eða skýli, sofið í tjöldum og æfð er fjallabjörgun svo fátt eitt sé nefnt.  Þátttakendur undirbúa sig fyrst hver hópur í sínu heimalandi en um miðjan febrúar er sameiginleg vikudvöl á Hellisheiði og á Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni.

Aðeins takmarkaður fjöldi getur tekið þátt í Vetraráskorun Crean hverju sinni og í ár eru 12  þátttakendur frá Íslandi og eru þau fædd 2000 og 2001. Frá Írlandi koma svo um 20 þátttakendur. Guðmundur segir að íslensku þátttakendurnir hefðu getað verið fleiri en forföll hefðu sett strik í reikninginn. Hann býst hann við fleirum á næsta ári og stundum hafi þurft að velja úr umsækjendum.

Hjálparsveitin skultaði hópnum áleiðis

Hjálparsveitin skultaði hópnum áleiðis

Eldhúsverkin

Eldhúsverkin

Úr Jötunheimum út í kuldann

Vetraráskorunin um síðustu helgi byrjaði í Jötunheimum, skátaheimili Vífils í Garðabænum. Skyndihjálp, umræða um búnað og skipulagningu ferða var á dagskránni á föstudagskvöldið og á laugardagsmorgni.  Tékkað var sérstaklega á búnaði skátanna, því seinni nóttina var gist í tjöldum.

Eftir hádegi var lagt af stað og þar sem veðurspáin fyrir Hellisheiði var nístingsköld var ákveðið að gefa smá slaka og hjálparsveitin skutlaði mannskapnum langleiðina upp á Heiði, nokkuð fyrir ofan Lækjarbotna. Þaðan fékk hópurinn það verkefni að ganga yfir í Heiðmörk og þá reyndi á áttavitakunnáttu og kortalestur sem þjálfað var fyrri undirbúningshelgina. Í áningastað var slegið upp tjöldum og eldaður matur, en fyrir helgina höfðu hóparnir skilað inn matseðli fyrir hópinn.

crean2016-æfingahelgi01

Guðmundur segir að skátarnir hafi þrátt fyrir ungan aldur staðið sig vel í þessum aðstæðum. „Einfaldir hlutir eins og koma sér fyrir í tjaldi reynast mörgum erfiðari í svona kulda,“ segir hann. Enginn hætti við og líklega hafi nú þeir sem uxu þessar aðstæður mest í augum fyrirfram unnið stærsta sigurinn og allir náðu að sofa út á sunnudagsmorgninum. „Ef hægt er að kalla það að sofa út að vakna klukkan níu,“ segir hann með tvíræðum svip.

Skátarnir fengu þessa helgi smjörþefinn af því hvað bíður þeirra í Vetraráskoruninni sjálfri um miðjan febrúar, en þá verður einnig sofið í tjöldum og einnig snjóhúsum ef aðstæður leyfa. Guðmundur segir nauðsynlegt að taka styttri æfingar eins og þessar til að allir séu með á nótunum hvað varðar búnað. „Við þurfum að tékka á betri svefnpokum fyrir líklega tvo þátttakendur. Það voru líklega einum og svalar tær á sunnudagsmorgni,“ segir umhyggjusami skátaforinginn. Síðdegis á sunnudag var svo gengið til baka í Jötunheima.

crean2016-æfingahelgi03Hrúgur sannleikans:  Nauðsynlegt vs. ónauðsynlegt

Skátarnir fengu það verkefni að við heimkomu tækju þau allt úr bakpokanum og settu í þrjár hrúgur sem lýstu sér í eftirfarandi flokkum:

  • Hvað var ég með, notaði og mun nota aftur.
  • Hvað var ég með, notaði ekki en vil hafa með næst (t.d.sjúkrataska).
  • Hvað var ég með, notaði ekki og mun ekki þurfa næst (t.d.100 parið af sokkum eða þriðju flíspeysuna).

Svo á að bæta við fjórðu hrúgunni

  • Hvað vantaði mig (t.d. dagbók, auka vettlingar).

Á mánudagskvöld hafði rúmur helmingur svara borist og Finnbogi Jónasson sem er í bakvarðasveit Crean hópsins hvatti hina áfram: „7 verkefni komin, ég vona að hinir 5 séu samt búnir að taka allt blautt upp úr bakpokunum og líka afganginn af nestinu…,“ sagði hann í skilaboðum og talar þar líklega út frá eigin reynslu.

 

Þeir sem vilja fylgjast með Vetraráskorun Crean ættu að smella á Facebook síðu leiðangursins

 

 

 

 

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar