Friðarloginn

Friðarloginn

Friðarloginn er skemmtileg hefð sem hefur skapast hér á landi síðustu ár og felst í að skátar og St. Georgsgildin varðveita aldagamlan loga frá fæðingarstað Krists í Betlehem og miðla loganum til almennings um jólin.

Eins og nafnið gefur til kynna er loginn tákn um frið en friðarboðskapur er mjög mikilvægur í skátastarfi um heim allan. Skátar vilja því hafa friðarlogann eins aðgengilegan og hægt er og auðvelda öllum heimilum landsins að ná í þennan merkilega loga og láta lifa á aðventunni.

Friðarloginn er sóttur í Fæðingarkirkju Krists í Betlehem en um aldir alda hefur logað ljós á olíuluktum við silfurstjörnuna sem markar fæðingarstað Jesú Krists.

Friðarloginn kemur til Íslands

Að frumkvæði íslenskra St. Georgsskáta kom Friðarloginn frá Betlehem til Íslands frá Danmörku, með Dettifossi, skipi Eimskipafélags Íslands, þann 19. desember 2001.

Friðarloginn logaði í St. Jósefskirkjunni í Hafnarfirði frá því hann kom til Íslands í desember 2001 þar til í desember 2009 að hann var fluttur til nunnanna í Karmel klaustrinu í Hafnarfirði, á aðventunni ár hvert sækja íslenskir skátar og St. Georgs gildin Friðarlogann sinn og útdeila til þeirra sem vilja þiggja vítt og breitt um landið.

Friðarloginn um heiminn

Útbreiðsla Friðarlogans hófst í Austurríki árið 1986. Það var ORF-útvarpsstöðin sem sendi ungan skáta til Betlehem til að sækja logann og koma honum til Vínarborgar undir kjörorðinu „Ljós í myrkrinu” (Licht ins Dunkel)

Í desember ár hvert er valið Friðarbarn til að fara til Betlehem og sækja Friðarlogann í Fæðingarkirkju krists og koma með hann til Vínarborgar þangað sem skátar frá nær 30 löndum Evrópu og Ameríku þiggja Friðarlogann að gjöf og fara með hann til síns heimalands.

Friðarloginn til almennings á Íslandi

Almenningur getur nálgast Friðalogann á aðventunni ár hvert víða í kirkjum landsins.

Hvar færðu Friðarlogann

Á aðventunni getur þú sótt þér þinn Friðarloga í Skátamiðstöðina Hraunbæ 123 í Reykjavík og í margar kirkjur og skátaheimili. Nánari upplýsingar fást í síma 550-9800 á skrifstofutíma.

Þú þarft að hafa með þér kerti og/eða lukt til að flytja Friðarlogann heim með þér.

Ef þú átt ekki lukt sem hentar, þá er auðvelt að útbúa örugga hlíf til að flytja logann heim. Það er gert með því að skera botninn úr tveggja lítra gosflösku og stinga kerti upp um stútinn, þannig er Friðarloginn þinn varinn fyrir vindi og ekki er hætta á að eldur læsist í fatnað eða annað þegar hann er fluttur heim.

Hvað er Friðarloginn

Friðarlogi íslenskra skáta er kær gjöf hverjum þeim sem þiggja vill, hann er ávallt tákn friðar, vináttu og hjálpsemi.

Friðarloginn er tendraður af hinum eilífa loga sem lifað hefur í Fæðingarkirkjunni í Betlehem um margar aldir og var fluttur með viðhöfn hingað til lands til þess að leyfa þér að njóta.

Í skútanum undir Fæðingarkirkju krists í Betlehem hefur um aldir alda logað ljós á olíuluktum við silfurstjörnuna sem markar fæðingarstað Jesú Krists. Luktirnar eru í dag 15 talsins og undanfarna áratugi hafa kristnar þjóðir heims skipst á að gefa olíu á luktir Friðarloganna í Betlehem.

Friðarloginn er ávallt gjöf – og í hvert eitt skipti sem loginn berst frá einu ljósfæri til annars, frá einu kerti til annars kertis, er endurnýjuð óskin og vonin um frið um allan heim.

Þiggjum Friðarlogann sem loga vináttu og friðar, – loga samkenndar og skilnings milli manna og þjóða, – loga frelsis og sjálfstæðis,- loga friðar í eigin brjósti, í eigin fjölskyldu og eigin landi, loga vonar og birtu þeirra sem þjást eða eru einmana, – ljós fyrir samstöðu og hjálpsemi í verki.

Við viljum með Friðarloganum sýna vináttu í verki, hjálpsemi og vilja til að vinna að friði á milli manna. – Við viljum frið á jörðu.

Hjá ýmsum félagasamtökum og á vinnustöðum fagna menn komu jólanna með margvíslegum hætti. Fólk gleðst, syngur jólasöngvana sína og gerir sér dagamun. Slíka dagskrá mætti byrja með því að koma með Friðarlogann færandi hendi og tendra með því loga á kerti eða kertum með friðarkveðju frá Betlehem og ósk um vináttu og frið um veröld alla.

Væri ekki notalegt, þegar við kveikjum á jólakertunum heima hjá okkur, að þau fengju ljós sitt af Friðarloganum frá Betlehem? Þau yrðu þannig lýsandi ósk um frið á jörðu á þessari mestu friðarhátíð heimsbyggðarinnar.

Friðarviljinn verður máttugur á þeirri stundu, þegar milljónir manna víðsvegar um heiminn, af mismunandi litarhætti, með ólíkar pólitískar skoðanir og með margvísleg trúarbrögð að leiðarljósi, kveikja friðarljósin sín með innilegri ósk og von um frið á jörðu.

Það er gæfa og gleði hverjum skáta að tendra Friðarloga hjá sjálfum sér og öðrum. Við skulum sem flest gerast ljósberar friðarins.

Saga Friðarlogans

Útbreiðsla Friðarlogans hófst árið 1986. Það var ORF-útvarpsstöðin í Austurríki sem sendi ungan skáta til Betlehem til að sækja Friðarlogann og koma honum til Vínarborgar undir kjörorðinu „Ljós í myrkrinu” (Licht ins Dunkel)

Hugmyndin um Friðarlogann frá Betlehem fékk fljótlega byr undir báða vængi. Með aðstoð eldri og yngri skáta hefur Friðarloginn borist til sífellt fleiri landa, fleiri byggðarlaga og fleiri einstaklinga.

Í desember ár hvert er valið Friðarbarn til að fara til Betlehem og sækja Friðarlogann í Fæðingarkirkju krists og koma með hann til Vínarborgar þangað sem skátar frá nærri 30 löndum Evrópu og Ameríku þiggja Friðarlogann að gjöf og fara með hann til síns heimalands.

Á þennan hátt hafa skátar í Evrópu og Ameríku verið ljósberar Friðarlogans til mörg þúsund borga og bæja og fært þeim sem þiggja vilja að gjöf Friðarloga aldanna frá Betlehem.

Friðarloginn frá Betlehem kom til Íslands frá Danmörku þann 19. desember 2001, með Dettifossi skipi Eimskipafélags Íslands.

St. Georgsskátar á Íslandi höfðu veg og vanda að undirbúningi komu Friðarlogans til Íslands.

Landsgildismeistari St. Georgsgildanna tók á móti Friðarloganum úr hendi forstjóra Eimskipafélagsins. Það var kveikt á kyndlum með Friðarloganum og gengið til Dómkirkjunnar í Reykjavík, fyrir göngunni gengu landsgildismeistari með lugtina sem kom sjóleiðis frá Danmörku, forseti Íslands, biskup Íslands, skátahöfðingi Íslands og formaður Landsbjargar, landsambands hinna íslensku björgunarsveita.

Í Dómkirkjunni fór fram stutt athöfn helguð Friðarloganum. Landsgildismeistari sagði frá tilvist Friðarlogans og boðskap um frið á jörðu. Forseti Íslands, biskup Íslands og skátahöfðingi fluttu stutt ávörp eftir að hafa þegið Friðarloga á kerti sín. Þeir tendruðu síðan Friðarloga á luktir allra fulltrúa íslenskra skátafélaga og St. Georgsgilda sem mættir voru í athöfnina.

Friðarloginn gekk frá manni til manns uns kirkjan ljómaði í skini Friðarloganna sem lýstu af kertum kirkjugesta. Skátar sungu hátíðlega skátasöngva og organistinn lék á kirkjuorgelið.

Fyrsta árið tóku björgunarsveitir Landsbjargar að sér að koma Friðarloganum frá Reykjavík til Ísafjarðar, Akureyrar og Egilsstaða. Þaðan barst Friðarloginn til skáta í Reykjavík, Akranesi, Ísafirði, Blönduósi, Akureyri, Dalvík, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði, Hveragerði, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Keflavík, Njarðvík og Sandgerði.

Fyrstu árin var útbreiðsla Friðarlogans á Íslandi með ýmsum hætti, en alls staðar var hann gefinn í kirkjur þar sem hann logaði um jólin.

Margir prestar hafa í jólahugvekjum sínum minnst á Friðarlogann frá Betlehem sem logar í kirkjunni þeirra til að minna á boðskapinn og óskina um frið á jörðu. Víða hefur verið farið með Friðarlogann í kirkjugarða á aðfangadag og fólki gefinn logi af honum með óskinni um frið á jörðu. Þannig hefur Friðarloginn lýst á leiðum vina og vandamanna á jólanóttina og um jólin.

Friðarloginn hefur einnig verið tendraður í skólum, elliheimilum og sjúkrahúsum víða um land með boðskap um vináttu, frið og hjálpsemi.

Friðarloginn lifir árið um kring á Íslandi

Friðarloginn logaði í St. Jósefskirkjunni í Hafnarfirði frá því hann kom til Íslands í desember 2001 þar til í desember 2009 að hann var fluttur til nunnanna í Karmel klaustrinu í Hafnarfirði og þar hefur hann logað alla daga síðan. Friðarloginn stendur til boða þeim sem þiggja vilja, með ósk um vináttu, frið og hjálpsemi.

 

Bandalag íslenskra skáta

Skátahreyfingin vill stuðla að friði meðal manna og þjóða og taka virkan þátt í að stuðla að friði.

Bandalag íslenskra skáta starfar eftir þeirri meginreglu að allir menn hafi jafnan rétt, óháð kyni, litarhætti eða trúarbrögðum. Þeir sem gerast félagar í skátahreyfingunni gera það af fúsum og frjálsum vilja. Skátahreyfingin leggur áherslu á að virða allar lífsskoðanir sem samrýmast skátalögunum. Í skátastarfi og við inngöngu nýrra félaga í skátahreyfinguna skal tekið fullt tillit til mismunandi trúarskoðana.

Markmið skátastarfsins

Skátahreyfingin hefur sett sér það að markmiði að stuðla að því að börn og unglingar verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar.

Skátahreyfingin leggur áherslu á að skátar verði sjálfstæðir einstaklingar sem venjist því að bera ábyrgð á því sem þeim er falið og læri að bera ábyrgð á eigin gerðum með markvissri þjálfun. Læri að meta, rökræða og taka afstöðu til mála. Venjist því að vinna með öðrum og virða skoðanir annarra. Virði jafnan rétt allra manna og skilji þjóðfélagslega samábyrgð allra þegna landsins.

Skátahreyfingin er stærsta æskulýðshreyfingin í heimi með um 38 milljónir félaga í nær öllum löndum heims. Bandalag íslenskra skáta er aðili að bæði alheimsbandalagi drengjaskáta og alheimsbandalagi kvenskáta.

Upplýsingar um skátafélög og skátastarf má finna á heimasíðu skátahreyfingarinnar www.skatar.is

St. Georgsgildin á Íslandi

St. Georgsgildin á Íslandi höfðu frumkvæði að komu Friðarlogans til Íslands í desember 2001

St. Georgsgildin á Íslandi er félagsskapur eldri skáta sem hafa það að markmiði að:

  • vera tengiliður, sem eflir samband við skátahreyfinguna og gamla skátafélaga
  • brýna fyrir gildisfélögum hjálpsemi og ábyrgðartilfinningu
  • útbreiða skátahugsjónina og stuðla að því að gildisfélagar sýni sannan skátaanda í verki

Gildisheitið

Ég lofa að leitast við að lifa lífi mínu í samræmi við hugsjónir skátahreyfingarinnar og markmið St. Georgsgilda

Kjörorð gildanna og hinn rauði þráður starfsins er „Eitt sinn skáti, ávallt skáti”

Í dag starfa níu St. Georgsgildi á Íslandi, þau eru á Akureyri, Sauðárkróki, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík og Hveragerði.

Undanfarin ár hafa Landsgildið, skátarnir og björgunarsveitir unnið saman að skipulagningu og annast útbreiðslu “Friðarlogans frá Betlehem” á Íslandi. Þetta einstæða samstarf skáta og gildisskáta sýnir á áhrifaríkan hátt hve vel skátar og gildin vinna saman þegar tilefni gefast. Það er staðföst stefna St. Georgsgildanna á Íslandi og skátahreyfingarinnar að gera þessi tengsl ennþá nánari og styrkari er fram líða stundir.

Starf gildanna er mjög fjölbreytt og mismunandi frá einu gildi til annars, helst má nefna: Skógrækt, mannrækt, þátttaka í starfi skátafélaga, gönguferðir, leikhús- og óperuferðir, ferðalög, fræðsla, kirkjugarðalýsing á jólum, Friðarloginn og erlent samstarf.

Allir gamlir skátar og velunnarar skátahreyfingarinnar yfir tvítugt eru boðnir velkomnir í St. Georgsgildin á Íslandi. Nánar á www.stgildi.is