Framkvæmdastjóri BÍS lætur af störfum

Stjórn BÍS og Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri, hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum hjá BÍS. Hann hefur verið framkvæmdastjóri BÍS frá 1. nóvember 2009. Hermann mun ljúka fyrirliggjandi verkefnum og síðasti starfsdagur hans mun ráðast af því hvenær þau klárast. Í kjölfarið mun staða framkvæmdastjóra verða auglýst.

Stjórn BÍS þakkar Hermanni öflugt og árangursríkt starf fyrir skátahreyfinguna. Mörg flókin og krefjandi verkefni hafa verið til lykta leidd á starfstíma hans. Nú bíða BÍS nýjar áskoranir og telur stjórn BÍS rétt að takast á við þær með nýjum framkvæmdastjóra. Er Hermanni óskað velfarnaðar í framtíðinni.

Sameiginleg yfirlýsing stjórnar BÍS og Hermanns Sigurðssonar framkvæmdastjóra BÍS.

Við hörmum að fréttatilkynning stjórnar BÍS um starfslok Hermanns sem framkvæmdastjóra BÍS hafi valdið því að óupplýst og villandi umræða hefur farið fram á samfélagsmiðlum um ástæður þess að stjórn BÍS og Hermann ákváðu að semja um starfslok hans. Að sama skapi þykir okkur leitt að ekki hafi fundist önnur lausn á þeim trúnaðarbresti er varð á milli aðila.

 Okkur er öllum umhugað að málalok þessi verði ekki til að skaða bræðralag skáta á Íslandi og munum öll, nú sem fyrr starfa að heilindum fyrir skátahreyfinguna.

 Þá viljum við hvetja til málefnalegrar og uppbyggilegrar umræðu um skátastarf þar sem heildarhagsmunir skáta eru hafðir að leiðarljósi.

 Stjórn BÍS ítrekar þakkir sínar til Hermanns sem framkvæmdastjóra fyrir öflugt starf í þágu hreyfingarinnar á liðnum árum og óskar honum alls góðs á nýjum vettvangi.

Með skátakveðju,

Stjórn Bandalags íslenskra skáta og Hermann Sigurðsson.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar