Gilwell-leiðtogaþjálfun

Leiðtogaþjálfun fyrir fullorðna sjálfboðaliða

Fullorðnir skátar eru kjölfestan í góðu skátastarfi. Þeir eru ábyrgir fyrir uppeldishlutverki hreyfingarinnar. Gilwell-leiðtogaþjálfunin er persónuleg vegferð hinna fullorðnu til að halda áfram að þroskast og eflast í lífi og starfi. Í Gilwell-leiðtogaþjálfun BÍS fá þeir innsýn í hlutverk fullorðinna í skátastarfi og öðlast þekkingu og færni til að leiða starfið og þar með leggja sitt af mörkum til betra samfélags. Leiðtogaþjálfunin hjálpar þeim við að takast á við sjálfboðastarfið. Hún gefur þátttakendum líka tækifæri til að efla leiðtogahæfni sína almennt, en það veitir einstaklingum aukið sjálfstraust og nýtist bæði beint og óbeint í einka¬ og fjölskyldulífi og á vettvangi atvinnulífsins. Í hópum fullorðinna í skátastarfi er líka að finna fólk sem gaman er að deila geði við, vaxa með og þroskast af skemmtilegri glímu við margs konar viðfangsefni sem svo augljóslega gagnast ungu fólki á þroskaleið þeirra til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir samfélagsþegnar.

Gilwell-leiðtogaþjálfunin er byggð á sömu grundvallarforsendum og samsvarandi þjálfun um allan heim þar sem skátahreyfingin starfar. Hún á rætur aftur til 1919 þegar fyrsta Gilwell-námskeiðið var haldið fyrir skátaforingja í Gilwell Park í London. Nafn leiðtogaþjálfunar skátahreyfingarinnar, Gilwell-leiðtogaþjálfun eða „Wood badge“ tengist alþjóðlegum uppruna og er í samræmi við samsvarandi þjálfun um allan heim.

Þó að allir sem ljúka Gilwell-leiðtogaþjálfun fái sömu sýn á hugmynda- og aðferðafræði skátahreyfingarinnar, býðst hverjum og einum að velja um tvær námsleiðir, aðra fyrir þá sem vilja starfa sem sveitarforingjar eða aðstoðarsveitarforingjar með skátum á aldrinum 7-22 ára og hina fyrir þá sem hafa áhuga á að vinna skátahreyfingunni gagn með því að vinna ýmis stjórnunarstörf innan skátafélags eða á sameiginlegum vettvangi skátastarfs, t.d. á vegum skátasambands eða BÍS. Þessar tvær námsbrautir eru kallaðar sveitarforingjaleið og stjórnunarleið. Þeir sem velja sveitarforingjaleiðina geta valið sér tiltekið aldursstig til að vinna með, t.d. dreka-, fálka-, drótt-, rekka- eða róverskáta.

Það er sameiginlegt viðfangsefni allra sem leggja af stað í þá vegferð sem Gilwell-leiðtogaþjálfunin er, að vaxa og þroskast sem manneskjur í samvinnu við aðra sem eru á sömu leið. Góður leiðtogi er ekki sá sem stjórnar eða leiðir aðra með skipunum. Góður leiðtogi getur unnið í teymi með öðrum og laðað fram það besta bæði hjá einstaklingum og hópum – og góður leiðtogi er líka „leiðtogi í eigin lífi“.

Skipulagsskrá Gilwell-skólans (samþykkt 28. maí 2014).

 

Gilwell-leiðtogaþjálfunin samanstendur af fimm „skrefum“

  • Fyrri hluta (skref 1 og 2) sem felst í tveimur dagslöngum námskeiðum um starfsgrunn skáta, markmið og leiðir í skátastarfi.
  • Seinni hluta (skref 3-5) sem samanstendur af vettvangsnámi, einu dagslöngu námskeiði um verkefni í skátastarfi, áætlanagerð, skipulagningu skátastarfs eða viðburðastjórnun og einu helgarnámskeiði um leiðtogafræði þar sem þátttakendur fá m.a. tækifæri til sjálfsmats sem gagnast við leiðtogastörf bæði í skátastarfi og á öðrum sviðum lífsins.

Því er beint til þátttakenda að ljúka fyrri hlutanum helst innan sex mánaða og öllum fimm skrefunum innan 12-18 mánaða. Unnið er að því, m.a. í samvinnu við Bandalag ástralskra skáta, að unnt verði að ljúka hluta þjálfunarinnar í fjarnámi með netnámi (e-learning). Stefnt er að því að sem allra flestir fullorðnir sjálfboðaliðar í skátastarfi ljúki Gilwell-leiðtogaþjálfun.

Einnig er boðin framhaldsþjálfun á ýmsum sviðum sem að gagni geta komið við ýmiss konar leiðtogastörf innan skátahreyfingarinnar og utan.