Á Selfossi starfar skátasveit fyrir fullorðna skáta, þ.e. 23 ára og eldri. Í síðustu viku stigu þau verulega út fyrir þægindarammann og héldu niður á við þegar þau skelltu sér í hellaferð í hellinn Arnarker í Ölfusi.

"Stairway to heaven"
„Stairway to heaven“

Skátasveitin Fornmenn er fyrir fólk sem vill læra, leika sér og láta gott af sér leiða. Þau hittast tvisvar í mánuði og það er misjafnt hversu margir mæta hverju sinni, allt frá tveimur upp í 10-15 manns eftir því hversu upptekið fólk er. Sumir fundir fara bara í að spjalla en oftast eru þau að kenna hvert öðru eitthvað nýtt og spennandi, allt frá fluguhnýtingum til skyndihjálpar. Stundum koma sveitarforingjar yngri sveitanna inn sem gestaleiðbeinendur og stjórna fundum fyrir fullorðinssveitina.

Fornmenn er líka bakvarðasveit fyrir félagið og eru til taks þegar á þarf að halda, t.d. í tengslum við félagsútilegur, skátamót og aðra stærri viðburði. Skátaskálinn Fossbúð var tekinn í fóstur fyrir nokkrum árum og hefur farið töluverð vinna í að gera hann fínan.

Fornmenn er ekki gamall vinahópur heldur er sveitin opin fyrir alla. Þetta er fólk sem hefur verið að kynnast í gegnum skátastarfið á síðustu árum, flestir foreldrar barna í starfinu. Þá hafa langt frá því allir í sveitinni verið skátar frá unga aldri.

Norðurljósin tóku á móti hópnum þegar upp var komið.
Norðurljósin tóku á móti hópnum þegar upp var komið.

Áhugasömum er velkomið að senda fyrirspurn á Auði Lilju Arnþórsdóttur, sveitarforingja Fornmanna á neetfangið audurlilja(hjá)gmail.com

Fleiri skátafélög á landinu eru með starfandi fullorðinssveitir eða baklandshópa til að styðja við skátastarfið og hafa gaman af í leiðinni. Þar má nefna Mosverja, Vífil, Kópa og fleiri. Ef þitt félag vantar aðstoð við að koma á fót fullorðins/baklandssveit hafið þá endilega samband við Döggu í Skátamiðstöðinni og hún getur aðstoðað ykkur.