Nokkuð fjörugar umræður hafa verið á Skátaþingi um þau mál sem helst brenna á skátum. Fyrir utan hefðbundin mál eins og fræðslu foringja, dagskrá skátanna og alþjóðamál hefur verið rætt um tíðni Landsmóta skáta og skátabúninginn.

Stór hópur tók þátt í umræðum um búningamál á Skátaþingi. Helstu niðurstöður umræðnanna eru þær að miða eigi við að hátíðarbúningur sé í boði fyrir dróttskáta og eldri og margir vilja að frekar sé miðað við að bjóða vandaða skyrtu sem endist heldur en að horfa eingöngu á verð.

Allir voru þeirrar skoðunar að við eigum að eiga fallegan skátabúning sem við getum stolt borið við hátíðleg tækifæri, þó nokkuð skiptar skoðanir hafi verið um nákvæma útfærslu hans.

Það er greinilegt að allir hafa skoðun á skátabúningnum og líflegar umræður fara fram jafnt í umræðuhópum sem og í matar- og kaffitímum.

Skátaþingi lauk nú síðdegis með kynningum á þeim fjölmörgu verkefnum sem framundan eru og afgreiðslu mála.

Bragi Björnsson skátahöfðingi og Fríður Finna Sigurðardóttir slitu þingi. Skátafélaginu Mosverjum voru færðar sérstakar þakkir fyrir að hýsa Skátaþingi í ár.