Fjölmenni á leið til Íslands á Heimsmót skáta næsta sumar

Skátarnir vinna nú að einu stærsta og mest spennandi einstaka verkefni sem skátahreyfingin á Íslandi hefur ráðist í. Heimsmót eldri skáta, World Scout Moot, verður haldið á Íslandi sumarið 2017.  Um viðburð á vegum heimshreyfingar skáta (WOSM) er að ræða sem hún hefur treyst íslenskum skátum fyrir. Verkefnið er leitt af Hrönn Pétursdóttur, mótsstjóra og Jóni Ingvari Bragasyni, framkvæmdastjóra Moot. Þau hafa, ásamt mótsstjórn, leitt hundrað íslenskra sjálfboðaliða sem unnið hafa að undirbúningi mótsins, sumir í allt að sjö ár.

Langur aðdragandi

Árið 2010 ákvað stjórn Bandalags íslenskra skáta að sækjast eftir því að halda Moot í ljósi góðrar reynslu af að halda evrópska skátamótið Roverway árið 2009.  Undirbúningurinn fyrir Moot hefur síðan aukist en undanfarin þrjú ár hafa um 100 sjálfboðaliðar unnið mikið starf við að undirbúa mótið.

Hrönn og Jón Ingvar ásamt Guðfinnu og Dagmar úr Mootstjórn á Jamboree í Japan

Hrönn og Jón Ingvar ásamt Guðfinnu og Dagmar úr Mootstjórn á Jamboree í Japan

Verkefnið er stærsta einstaka verkefni sem skátahreyfingin á Íslandi hefur tekist á við. Svo stórum viðburði fylgir ýmis áhætta, m.a. fjárhagsleg, fyrir skátahreyfinguna og því var ákveðið að lágmarka hana m.a. með því að reka mótið undir sér félagi, Skátamóti ehf, sem er dótturfélag BÍS.  Stjórn bandalagsins og mótsstjórn gerðu jafnframt með sér samkomulag um sjálfstæði mótsstjórnar til ákvörðunar um allt sem tengist mótinu, og að stjórn bandalagsins myndi einungis stíga inn ef upp kæmu verulega vandamál við Moot sem fyrirsjáanlega myndu hafa alvarlegar afleiðingar á skátastarf á Íslandi. Stjórn bandalagsins taldi ennfremur ekki ásættanlegt að þeir starfsmenn skátamiðstöðvarinnar sem vinna við kjarnastarfsemi BÍS, t.d. stuðning við skátafélögin, fræðslu og þjálfun myndu nýta sinn tíma í undirbúning Moots. Því var ráðinn sérstakur framkvæmdastjóri fyrir Moot strax árið 2013. Haustið 2016 var starfsmönnum Moot fjölgað, meðal annars vegna góðs árangurs í styrkveitingum til mótsins. Í því samhengi má sem dæmi geta styrks frá franska menntamálaráðuneytinu sem, fyrir tilstuðlan frönsku skátanna, styrkir mótið um tvo frönskumælandi sjálfboðaliða á skrifstofuna í eitt ár. Styrkir frá menntamálaráðuneytinu hafa einnig reynst lykilþáttur í undirbúningi mótsins. Með því að ráða sérstakan framkvæmdastjóra og aðskilja mótið frá almennum rekstri BÍS fékk mótið aukið sjálfstæði auk þess sem framkvæmdastjóra BÍS og öðrum starfsmönnum bandalagsins gefst svigrúm til að sinna kjarnastarfsemi BÍS.

Áhersla mótsstjórnar var frá upphafi sú að virkja sjálfboðaliða sem ekki væru burðarásinn í starfi bandalagsins eða skátafélaganna og vernda þannig reglubundið skátastarf í landinu. Talsverður árangur hefur náðst hvað þetta varðar og margir þeirra sem sinnt hafa undirbúningi frá árinu 2014 eru sjálfboðaliðar sem ekki hafa verið virkir í skátafélögunum undanfarin ár. Nú er hins vegar að verða breyting á þessu, en í upphafi árs 2017 verður m.a. leitað til þeirra fjölmörgu góðu skáta sem starfa í skátafélögum landsins um að leggja verkefninu lið. Þegar hafa 11 skátafélög og skátahópar tekið að sér rekstur 11 tjaldsvæða þar sem 200-800 þátttakendur mótsins munu dvelja fyrri hluta þess.  Alls er áætlað að 1.000 sjálfboðaliða þurfi á mótinu sjálfu, en þar er átt við skáta á aldrinum 26 ára og eldri sem sækja mótið til að hjálpa við undirbúning og framkvæmd.  Af þessum 1.000 munu vonandi um eða yfir 500 koma erlendis frá.

Ný tækifæri og áskoranir
Heimsviðburður eins og World Scout Moot er að mörgum mælikvörðum svipaður og Vetrarólympíuleikarnir, til að stærðargráðan á verkefninu sé skýr. Mótið býður upp á ýmis tækifæri fyrir íslenskt skátastarf og eru sum þeirra þegar orðin að veruleika. Talsverð innviðauppbygging hefur orðið við undralandið á Úlfljótsvatni í krafti fjármuna sem Mootið aflar, er þar er m.a. mikilvægur stuðningur íslenska ríkisins við verkefnið sem skátahreyfingin eru afar þakklát fyrir. Við ákvörðun um nýtingu fjármunanna á Úlfljótsvatni hefur eins og hægt er verið reynt að láta uppbygginguna nýtast skátastarfi til framtíðar.

Aldrei fyrr hafa íslenskir skátar á aldrinum 18-25 átt jafn góðan möguleika á að sækja alþjóðlegt skátamót fyrir sinn aldur. Bæði aðgengi og kostnaður fyrir þátttöku íslenskra skáta er í lágmarki og einungis brot af því sem almennt kostar að sækja slík mót erlendis.

Róverskátastarf á Íslandi (18-22 ára) hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár eða áratugi. Brottfall úr skátastarfi er mikið á þessum aldri og algengt hefur verið að þeir sem starfa áfram hafa starfað sem foringjar og ekki stundað annað skátastarf. Bandalag íslenskra skáta hefur undanfarin ár unnið faglegan nýjan starfsgrunn fyrir aldursbilið og fylgt úr hlaði með því að bjóða upp á þjálfun og dagskrármöguleika. Það má segja að World Scout Moot sé rúsínan í pylsuendanum á endurmótun starfsgrunns þessa aldursbils og áherslu landshreyfingarinnar á eflingu þess.

Mótið hefur þegar orðið kveikja að endurnýjaðri þátttöku margra eldri skáta sem hafa verið virkir í undirbúningi mótsins að undanförnu og þannig lagt hreyfingunni lið á nýjan leik.  Afar ánægjulegt er að sjá alla þá faglegu sjálfboðaliða vinna að undirbúningi mótsins með jafn glæsilegum hætti og raun ber vitni. Framundan er síðan að fjölga verulega á næstu mánuðum í hópi íslenskra sjálfboðaliða við mótið, en nýlega hefur meðal annars verið kallað eftir svokölluðum Tribe Advisors – lesa má frekar um það tækifæri hér.

Að lokum er skemmtilegt og þroskandi verkefni að fá tækifæri til að taka á móti skátum frá öllum heimshornum, en gert er ráð fyrir að alls 6000 manns frá um 100 löndum muni sækja mótið – og verður mótið fyrirsjáanlega fjölmennasta Moot sem hefur verið haldið. Það er ljóst að það verða mikil viðbrigði frá til að mynda Roverway sem íslenskir skátar þekkja. Ólíkur menningarmunur og bakgrunnur þátttakanda mun leiða til krefjandi en spennandi verkefna til að leysa.

Hvaða verkefni hentar þér?
Undanfarið hefur mannauðsteymi Moot leitað eftir skátum til að leggja mótinu lið. Ert þú efni í Tribe Advisor? Ert þú úrvalskokkur? Ertu gera og græja skáti? Ertu tækninörd? Viltu nota tungumálaþekkinguna þína?  Finnst þér gaman að sýna erlendum skátum Ísland og allt sem hægt er að gera? Verkefnin eru óteljandi og þörf á mjög fjölbreyttri þekkingu og færni til að sinna öllum þeim verkefnum sem nauðsynleg eru fyrir svona stóran viðburð. Það er því um að gera að hafa samband sem fyrst við mannauðsteymi Moot og fá hlutverk í þessum einstaka viðburði í sögu skátastarfs á Íslandi.

Í því samhengi má benda á að nauðsynlegt er að vera þátttakandi eða sjálfboðaliði á World Scout Moot til að upplifa viðburðinn.  Fjölskyldubúðir eins og þekkjast í kringum Landsmót verða ekki í boði og einungis takmarkaður fjöldi gesta verður leyfður inn á mótssvæðið og þá einungis á tilteknum degi og að undankeyptum aðgöngumiða.

Eitt er víst, að í júlí næstkomandi mundu skátar frá öllum heimshornum sækja okkur heim. Þátttakendur munu vera mjög sýnilegir og leggja mark sitt á borg og sveitarfélög út um allt land. Skátaklútar verða á hverju götuhorni  og stærsti skátavarðeldur í sögu Úlfljótsvatns verður laugardaginn 29. júlí.

Merktu við daginn og komdu og vertu með. Ævintýrið byrjar 25. júlí 2017!

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar