Fengu óveðrið sem þau vonuðust eftir!

Vetraráskorun Crean lauk í gær og tókst ótrúlega vel til!

Á Crean takast dróttskátar á við hin ýmsu verkefni og upplifa magnaðar áskoranir og krefjandi útivist.

Dagskráin á Crean er full af skemmtilegri og spennandi reynslu! Þátttekendur spreyta sig í rötun, útivist og skyndihjálp. Þau læra og æfa sig í samvinnu, leiðtoga hæfileikum, eignast nýja vini og lenda í ótrúlegum ævintýrum í baráttu sinni við íslenska veðráttu!

Hópur af írskum skátum komu til Íslands og tóku þátt í þessum skemmtilega viðburði með íslensku skátunum en Crean hefur verið samstarfsverkefni milli íslenska og írska bandalagsins til nokkura ára.

Eins og Íslendingar hafa tekið eftir hefur veðrið ekki verið að leika við landsmenn þessa dagana en skátarnir á Crean létu það ekki stoppa sig!

 

 

Í fyrsta skipti í sögu Crean þurfti að aflýsa gönguferðinni frá Úlfljótsvatni upp á Hellisheiði, sem er fastur liður í dagskránni, vegna veðurs. Þau hafa

 frestað göngunni áður vegna veðurs en í ár þurftu þau að finna aðra lausn á málinu. Þau breyttu dagskránni nokkrum sinnum, en alltaf var veðrið að stríða þeim. Þau gátu ekki gengið í Hveragerði og enduðu svo á að vera hreinlega veðurteppt á Úlfljótsvatni megnið af tímanum. Seinasta daginn fóru þau í um 16 km göngu í kringum Mosfellsbæ og upp á Úlfarsfell. Jafnvel þó þau hefðu verið veðurteppt fóru þau samt í margar gönguferðir og léku sér í snjónum ásamt því að læra ýmsa hluti um vetrarskátun og útivist. Þau fengu meðal annars að upplifa útivist í allt að -20°c frosti og 150 cm djúpum snjó! Þátttakendur voru mjög ánægðir með viðburðinn og þau fengu vonda veðrið sem þau höfðu verið að vonast eftir fyrir helgi, til að skapa kjör aðstæður fyrir krefjandi reynslu vetrarskátunar. Þeim tókst með afbragði vel að framkvæma alla dagskrá þrátt fyrir ofsaveður og mikil snjóþyngsli, og fengu frábært tækifæri til að upplifa áskoranir vetrarins!