Félagsforingi í 20 ár

Þorvaldur J. Sigmarsson, félagsforingi Kópa til tveggja áratuga, var heiðraður á aðalfundi félagsins í gærkvöldi þegar hann lét af embætti í þessu elsta starfandi félagi í Kópavogi.

Bæjarstjórinn í Kópavogi hélt ávarp á þessum tímamótum og árnaði félaginu velfarnaðar. Bragi Björnsson skátahöfði sat aðalfundinn og heiðraði Þorvald.

Skátastarfið gefur mikið

„Það er ánægjulegt að hafa tekið þátt í uppbyggingunni og gaman að upplifa hvað margir krakkar hafa gaman af skátastarfinu. Það er gefandi út af fyrir sig,“ segir Þorvaldur. „En það hafa margir komið að þessu, þó ég hafi verið í hlutverki við borðendann“.

Í daglegu starfi sínu er Þorvaldur varðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hefur hann sinnt löggæslu í 33 ár. „Skátastarfið gefur mikið og ég hef fundið í því ró til mótvægis við eril og átök sem geta fylgt vinnunni,“ segir hann og bætir við að frá sjónarhóli hans sem lögreglumaður sé skátastarfið góð uppeldishreyfing. „Það er mikill munur á þeim krökkum sem ég þarf að hafa afskipti af í vinnunni og þeim sem ég hef kynnst í skátunum,“ segir hann og rifjar upp að aðeins einu sinni á lögregluferlinum hafi hann þurft að hafa bein afskipti af krakka í skátunum.

Skáti í 55 ár

Þorvaldur byrjaði í skátunum 9 ára sem yrðlingur í Kópunum árið 1959 og hann hefur fylgt félaginu síðan þá og síðustu 20 árin sem félagsforingi.

Öll fjölskylda Þorvaldar er á kafi í skátunum. Konu sinni, Elínu Richards, kynntist hann í dróttskátasveitinni Andrómedu og þau hafa bæði verið mjög virk í starfinu. „Þetta er okkar lífsstíll,“ segir Þorvaldur sem telur að sambönd haldist betur en gengur og gerist þegar lifsviðhorfin eru svipuð.

Byggt fyrir skátana

Þegar Þorvaldur fyrst sótti fundi í skátunum var skátafélagið með eitt hverbergi í kjallara Kársnesskóla og á næstu árum var félagið með húsnæði á nokkrum stöðum í vesturbæ Kópavogs þar til það fékk hlut í félagsheimilinu. Árið 1970 voru fest kaup á íbúðarhúsi við Borgarholtsbraut sem hýsti starfið fram á nýja öld. Árið 2005 fluttu Kópar í húsnæði sérsniðið fyrir starfsemina sína að Digranesvegi 79. Félagið byggði húsið frá grunni og var Þorvaldur virkur í byggingarnefndinni ásamt öflugum hópi bakhjarla félagsins.

Þorvaldur hefur tekið þátt í fleiri byggingarstörfum fyrir félagið. Hann var í þeim hópi sem byggði skátaskálann Þrist í Þverárdal í Esju. Skálinn var byggður á mörgum árum og rifjar Þorvaldur upp að 12 ára gamall hafi hann ásamt félögum verið í að grafa fyrir stólpunum að skálanum. „Það var grafið þar til við hættum að geta hent uppúr,“ segir hann. Síðar eftir að Þorvaldur var byrjaður í Ds. Andrómedu var hann í hópnum sem einangraði Þrist og klæddi að innan. Einnig tók hann virkan þátt í að Kópar eignuðust Bæli á Hellisheiði og endurgerðu þann skála frá grunni.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar