„Stefnt er að því að Gilwell-skólinn verði í farabroddi innan skátahreyfingarinnar á Íslandi hvað varðar faglega umsýslu sjálfboðaliða með skilgreiningu verkefna, tímabundnum samningum og félagslegum stuðningi“, segir Ólafur Proppé skólastjóri Gilwell-skólans, en stjórn Bandalags íslenskra skáta samþykkti á síðasta fundi sínum nýja skipulagsskrá fyrir skólann.

Á fimmtudag var áfanganum fagnað af aðstandendum skólans og velunnurum á hátíðarfundi. Mikil vinna er að baki en skipulagsskráin hefur verið í þróun hjá fræðsluráði og stjórn BÍS undanfarin tvö ár. Sveit þeirra sem standa að baki skólans stækkar stöðugt og á hátíðarfundinum voru sautján nýir félagar teknir formlega inn í Gilwell teymið.

Fjölbreyttur hópur myndar Gilwell teymið, sem stendur að baki skólanum.
Fjölbreyttur hópur myndar Gilwell teymið, sem stendur að baki skólanum.

Reyndir sjálfboðaliðar í Gilwell-teyminu

Eins og annað skátastarf er Gilwell-skólinn fyrst og fremst borinn uppi af sjálfboðaliðum. Það á við um stjórnun skólans, skipulagsvinnu og störf leiðbeinenda. Að sjálfsögðu hefur starfsfólk Skátamiðstöðvarinnar hlutverk í tengslum við skólann en það er aðallega fólgið í utanumhaldi og upplýsingagjöf bæði til skátafélaganna víðs vegar um landið og til teymis sjálfboðaliða sem stendur á hverjum tíma undir meginverkefnum leiðtogaþjálfunarinnar.

Gilwell-teymið er stór hópur reyndra sjálfboðaliða í skátastarfi með fjölbreytilega sérþekkingu. Einstaklingar og minni hópar innan Gilwell-teymisins taka svo að sér afmörkuð verkefni til tiltekins tíma samkvæmt samkomulagi hverju sinni. Verkefnin geta tengst stjórnun og leiðbeinendastörfum, umsjón með verklegum þáttum og framkvæmd námskeiða, kynninga- og ráðgjafastörfum, umsjón og þróun fjarnáms á internetinu, raunfærnimati o.s.frv.

Margir samfögnuðu á þessum tímamótum
Margir samfögnuðu á þessum tímamótum

Stefnt að gæðavottun á starfi skólans

Stefnt er að því að koma á skipulegu gæðamati á starfi Gilwell-skólans og er markið sett á EQM vottun, sem stendur fyrir European Quality Mark eða Evrópska gæðamerkið og er Fræðslumiðstöð atvinnulífsins vottunaraðili á Íslandi. Með vottunarferlinu getur Gilwell-skólinn metið starfshætti sína út frá viðurkenndum gæðaviðmiðum.

EQM er hannað til að mæta síauknum kröfum um gagnsemi náms og sameiginleg gæðaviðmið fyrir fræðsluaðila utan hins formlega skólakerfis. EQM tekur mið af:

  • gæðum þjónustunnar sem fræðsluaðili veitir,
  • innri gæðastjórnun og verklagsreglum fræðsluaðila,
  • hvernig núverandi starfshættir samræmast viðurkenndum gæðaviðmiðum.

Fyrir fræðsluaðila á vettvangi framhaldsfræðslunnar á Íslandi getur EQM vottun verið liður í því að fá viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Óli og Væk voru ánægðir með tímamótin
Óli og Væk voru ánægðir með tímamótin

Hlúð að mannauði

„Að laða að gott fólk, halda í það og stuðla að þróun þess í starfi“, er kjarninn í því mannauðskerfi sem Gilwell-skólinn vill innleiða.  Aðferðafræðin byggir á að væntanlegir sjálfboðaliðar fái þegar í upphafi réttar upplýsingar og sameiginlegur skilningur sé um hlutverk og væntingar til sjálfboðaliðans í starfi.  Til að ná þessu marki fylgja með skipulagsskránni  fyrirmyndir að „starfssamningum sjálfboðaliða“.

„Tryggja þarf að sjálfboðaliðar njóti viðeigandi þjálfunar ásamt faglegum- og félagslegum stuðningi í starfi. Þannig vaxa þeir og þroskast sem „leiðtogar í eigin lífi“ í starfi fyrir skátahreyfinguna,“ segir í mannauðsgögnum sem fylgja nýju skipulagskránni.  Síðast en ekki síst þarf sjálfboðaliðinn að fá heiðarlegt og faglegt mat á frammistöðu sína og svigrúm til að meta framhald starfsins á forsendum matsins og eigin ákvarðana.

Vilja ná til fullorðinna

Í tengslum við uppbyggingu Gilwell-þjálfunarinnar  hefur verið markvisst verið horft til aukinnar þátttöku fullorðinna í skátastarfi.  Það er í samhljómi við stefnumörkun alþjóðahreyfingu skáta (WOSM) og með hinni nýju skipulagsskrá skólans fylgir þýðing á ritinu „Adults in Scouting: World Policy“ sem gefið var út árið 2011 af Alþjóðaskrifstofu skáta (World Scout Bureau).

Skátamál óska forsvarsmönnum Gilwell-skólans og öllum sem hafa komið að þessu starfi til hamingju með áfangann.

Skoða Skipulagsskrá Gilwell skólans