Einbeitir sér að heimsmótinu

Jón Ingvar Bragason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri World Scout Moot 2017, en það heimsmót verður eins og margir vita haldið á Íslandi. Búast má við að nær 5000 skátar taki þátt í mótinu og hátt í þúsund sjálfboðaliðar komi að mótshaldinu með einum eða öðrum hætti. Þetta er stærsta verkefni sem íslenskir skátar hafa tekið að sér.

„Þetta er mest spennandi verkefni sem íslenskir skátar hafa tekið að sér,“ segir Jón Ingvar. „Það verður krefjandi að halda utan um starf hátt í þúsund sjálfboðaliða, samræma aðgerðir og skipulag þannig að allt gangi vel fyrir sig.“  Hann segir það einnig áskorun að ná til ungs fólks allstaðar að úr heiminum og vekja áhuga þess á að koma til Íslands, en þar hefur þó mikið áunnist. „Við höfum nú þegar náð þeim markverða árangri að skátabandalög um allan heim hafa forskráð um 5.000 þátttakendur á mótið. Að auki eru komnir um 60 sjálfboðaliðar í undirbúning fyrir mótið og hópurinn stækkar á hverjum degi,“ segir Jón Ingvar.

Umfang heimsmótsins er mikið, gjaldeyristekjur verða töluverðar og veltutölur eru háar eins og við er að búast þegar fjöldi þátttakenda er slíkur, en gert er ráð fyrir hátt í hálfs milljars veltu, eins og sögðum í frétt nýlega > skoða frétt.

Moot er viðburður á vegum World Organization of the Scout Movement (WOSM),  sem er stærsta ungmennahreyfing í heiminum með um 40 milljónir félaga.

Áskorun að ná til ungs fólks, sem er hér í hópi reyndra unglinga.

Áskorun að ná til ungs fólks, sem er hér í hópi reyndra unglinga.

Gaman að sjá gott skipulag verða að veruleika

Jón Ingvar býr að góðri reynslu af viðburðahaldi og hann hefur verið viðburðastjóri Bandalags íslenskra skáta síðastliðið ár. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám við Vrije Universiteit Amsterdam í Hollandi. Hann starfaði áður sem Rekstarstjóri hjá Stórkaup og hjá Bandalagi íslenskra skáta.

Meðal verkefna sem Jón Ingvar hefur sinnt er undirbúningur fyrir RoverWay, sem var heimsmót haldið á Íslandi árið 2009. Velgengni við það mót var grundvöllur þess að Íslenskum skátum var treyst til að halda heimsmótið Moot árið 2017.  Til samanburðar má rifja um að árið 2009 voru þátttakendur um 3.000 og það verður því töluverð aukning átta árum síðar.

  • Hvað er Jóni Ingvari minnisstætt frá Rowerway og hann myndi jafnvel vilja endurtaka?

„Það er gríðarlega minnistætt að sjá skipulag verða að veruleika þegar við tókum á móti 3000 manns á Garðatorgi og skiptum þeim í 52 mismunandi hópa. Sendum þá svo með rútum á setninguna við Háskóla Íslands. Rútubílstjórarnir höfðu aldrei orðið vitni að öðru eins skipulagi og hvað þá að það skyldi allt ganga svona vel upp,“ rifjar Jón Ingvar upp

  • En hvað um það sem hann vill alls ekki sjá endurtaka sig?

„Við misreiknuðum okkur algjörlega í mismunandi matarvenjum. Meðal-Íslendingur fær sér eina ostsneið eða álegg á brauð en t.d. þjóðverji fengi sér 4 mismunandi álegg á brauðið. Þetta þýddi það að matur sem áætlað var að entist í 4 daga var búinn á öðrum degi og þurfti að senda mann með auka birgðir af mat um allt land. Þetta ætlum við að koma í veg fyrir að gerist aftur“.

 

Tengdar fréttir:

 

Ljósmynd í prentupplausn:

.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar