Drekaskátar leggja undir sig Kópavogsdalinn

Drekaskátar af öllu höfuðborgarsvæðinu ætla að koma saman í Kópavoginum til að taka þátt í árlegum drekaskátadegi á morgun, laugardaginn 1. mars.

Ratleikur, tertuskreytingar, hópskíðaganga og aðrar skemmtilegar skátaþrautir munu kalla fram hlátur og bros hjá tæplega 100 börnum á aldrinum 7-9 ára.

„Tilhlökkunin er mikil hjá drekunum okkar“, segir Magnea Tómasdóttir skátaforingi í skátafélaginu Kópum, en að þessu sinni eru það Kópar sem skipuleggja drekaskátadaginn.

Drekaskátar eru á aldrinum 7-9 ára og í augum þeirra er skátastarfið sannkallað ævintýri. Ævintýrið, leikirnir og verkefninn gegna þess vegna mikilvægu hlutverki í skátastarfi hjá þessum aldurshóp. Við vitum að í huga hvers barns er fólginn sá kraftur sem þarf til þess að breyta heiminum.

Dagskráin fer fram í nágrenni við skátaheimili Kópa að Digranesvegi 79 frá 13-16 á morgun, laugardag.

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar