Draumar og verkefni á Gilwell

Nú um helgina stendur yfir á Úlfljótsvatni námskeið hjá hópi sem er að ljúka Gilwell-leiðtogaþjálfun skáta. Hjá þessum fimmtán manna hópi eru að baki nokkrir áhugaverðir og öflugir námskeiðsdagar og margvísleg verkefnavinna. Það er því forvitnilegt að heyra hvað þátttakendur hafa að segja um leiðtogaþjálfunina og hvaða verkefni voru áhugaverðust.

Selskapur fyrir fullorðna

Björk Norðdahl úr Kópum er ánægð með að hafa drifið sig á Gilwell og segir að það hjálpi til við að setja sig inn á skátastarfið á nýjan leik. Hún veit reyndar hvernig hjartað slær í skátunum því hún á nokkur börn sem öll eru í skátastarfi og hefur stutt þau og hvatt áfram.  Eitt af verkefnum Bjarkar á Gilwell var að skoða hvernig best væri að standa að skátastarfi fyrir fullorðna og kallar hún verkefnið Draumasveitin Selirnir, en Selirnir eru skátasveit foreldra, eldri Kópa og annarra sem vilja fá tækifæri til taka þátt í skátastarfi. Selskapurinn starfar í tengslum við skátafélagið Kópa.

Björk segir að markmiðin með starfi Selanna séu nokkur, einkum þó stuðningur við skátastarfið og að skapa foreldrum og eldri skátum tækifæri til að kynnast og rækta áhugamál sín. Selirnir eru:

 • vettvangur fyrir foreldra sem vilja kynnast starfi barna sinna og hverjir öðrum;
 • vettvangur eldri skáta til að vera í tengslum við aðra eldri skáta og foreldra í sínu félagi;
 • boðleið fyrir samskipti foreldra og eldri skáta;
 • vettvangur fyrir stuðning við skátastarfið, hvort heldur við starfið innan skátafélagsins Kópa eða við starfið í skátasveitunum og flokkunum;
 • vettvangur fyrir áhugamál félaga, margvíslegt grasrótarstarf og almennt skátastarf, sjálfsprottið og breytilegt.
 • gamansamur félagsskapur

Draumasveitin Selirnir er ekki bara ímyndað verkefni, heldur er starfið veruleiki og hafa Selirnir nú þegar komið að margvíslegum þáttum í starfi Kópa. Þeir hafa tekið þátt í skátamótum, útilegum og stórum viðburðum eins sumardeginum fyrsta. Fyrr í vetur buðu Selirnir félagsráði og stjórn Kópa að koma meira inn í viðburði á vegum félagsins og/eða skátasveita. Það yrði unnið í samvinnu foringja og Sela. Í boði er að Selir miðli þekkingu sinni til foringja félagsins og jafnvel leggi þeim lið við skátastarfið.  Rætt hefur verið um ýmiss konar námskeið, til dæmis í  ljósmyndun, rötun, ullarvinnslu, video, hjólaviðgerðum, heimasíðugerð eða hverju því sem fólki dettur í hug. Sumir þessara viðburða verða á dagskrá í febrúar og mars.

Leiðtogi í fimm skrefum

Næsti hópur Gilwell-leiðtogaþjálfunarinnar fer af stað í þessum mánuði, en fyrst námskeiðið verður laugardaginn 18. janúar næstkomandi. Þjálfuninni er áfangaskipt í fimm skref:

 • Fyrri hluti (skref 1 og 2) eru tvö dagslöng námskeið um starfsgrunn skáta, markmið og leiðir í skátastarfi.
 • Seinni hluti (skref 3-5) samanstendur af tveimur dagslöngum námskeiðum um verkefni í skátastarfi, áætlanagerð, skipulagningu skátastarfs eða viðburðastjórnun og einu helgarnámskeiði um leiðtogafræði þar sem þátttakendur fá m.a. tækifæri til sjálfsmats sem gagnast við leiðtogastörf bæði í skátastarfi og á öðrum sviðum lífsins.

Þátttakendur eru hvattir til að ljúka fyrri hlutanum helst innan sex mánaða og öllum fimm skrefunum innan 12-18 mánaða. Reynslan sýnir að þjálfunin tekur yfirleitt um eitt ár.

Skátarnir bjóða öllum fullorðnum sjálfboðaliðum í skátastarfi að taka þátt í Gilwell-leiðtogaþjálfuninni.Þeir sem hafa áhuga á  eru beðnir um að hafa samband við Dagbjörtu í Skátamiðstöðinni í síma 550-9800 eða á skatar@skatar.is

Öflugur hópur þátttakenda

Þátttakendur sem ljúka leiðtogaþjálfuninni núna um helgina eru:

 • Kolbrún Reinholdsdóttir, Mosverjum
 • Valborg Sigrún Jónsdóttir, Árbúum
 • Björk Norðdahl, Kópum
 • Eiríkur Pétur E. Hjartar, Mosverjum
 • Sölvi Þór Hannesson, Hraunbúum
 • Bergný Dögg Sophusdóttir, Skátafélagi Akraness
 • Hjördís Jóna Gísladóttir, Svönum
 • Kristín Rós Björnsdóttir, Svönum
 • Bergþóra Sveinsdóttir, Segli
 • Valdimar Már Pétursson, Kópum
 • Þórgnýr Thoroddsen, Vífli
 • Guðrún Inga Úlfsdóttir, Fossbúum
 • Steinunn Alda Guðmundsd, Fossbúum
 • Birna Dís Benjamínsdóttir, Árbúum
 • Jón Halldór Jónasson, Kópum

 

Tenglar:  Gilwell – leiðtogaþjálfunin  http://skatamal.is/sjalfbodalidar/gilwell-leidtogathjalfun

1 UMSÖGN

Skilja eftir svar