Dansleikir og barnakvöldvökur

Búast má við fjölsóttum fjölskyldubúðum á Landsmóti skáta sem fer fram dagana 20. – 27. júlí að Hömrum við Akureyri. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir skáta á öllum aldri og mikið verður lagt upp úr að fjölskyldufólk geti einnig notið þess að vera á landsmótinu.
Harpa og Guðrún stjórna fjölskyldubúðum á Landmóti. Ljósmynd: Guðni Gísla.

Harpa og Guðrún stjórna fjölskyldubúðum á Landmóti. Ljósmynd: Guðni Gísla.

Sérstakar fjölskyldubúðir hafa verið á landsmóti um langt skeið og verða þær sífellt fjölmennari og eftirsóttari.

Fjölskyldubúðirnar opna sama dag og mótið verður sett, sunnudaginn 20. júlí. Boðið er upp á sérstaka dagskrá fyrir þá sem dvelja í fjölskyldubúðum frá mánudegi til laugardags og því fá allir tækifæri til að spreyta sig við margvísleg viðfangsefni. Meðal þess sem í boði verður má nefna útieldun, súrringar, gönguferðir, dansleiki og barnakvöldvökur auk þess sem þátttakendur fara að hluta til í dagskrárþorpin.

Allir velkomnir og ókeypis fyrir yngri en 10 ára

Allir eru velkomnir í fjölskyldubúðir, hvort sem þeir eru gamlir skátar, foreldrar skáta, vinir skáta eða annað fjölskyldufólk. Unglingar verða að vera í fylgd með fullorðnum til að geta tjaldað. Hver og einn getur dvalið eins lengi og hann vill í fjölskyldubúðum og er þátttökugjaldið 3.200 kr fyrir 10 ára og eldri og gistigjaldið 1.100 kr fyrir hverja nótt. Yngri en 10 ára greiða ekkert gjald.

Þeir sem mæta á mótið fram að fimmtudegi geta pantað pláss á tjaldsvæðinu ef vinahópar eða skátafélög vilja vera saman. Góð aðstaða er á Hömrum og býður umhverfið upp á fjölbreytta möguleika. Gestir í fjölskyldubúðum sjá sjálfir um mat fyrir sig og er verslun staðsett á mótssvæðinu auk þess sem stutt er í verslanir á Akureyri.

Guðrún Stefánsdóttir og Harpa Hrönn Grétarsdóttir stjórnendur fjölskyldubúðanna hvetja alla til að taka þátt í skátaævintýrinu í fjölskyldubúðum á landsmóti og skapa góðar minningar í fallegu umhverfi og frábærum félagsskap.

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar