„Framkvæmd World Scout Moot undir stjórn íslenskra skáta hefur sett ný viðmið varðandi alheimsmót róverskáta. Skipulagið, fagmennskan og sá ótrúlegi mannauður sem býr í íslenskum skátum hefur gert það að verkum að Íslendingar hafa hækkað ránna svo um munar varðandi mótshald af þessu tagi” sagði Christy McCann skátahöfðingi írskra skáta á mótsslitum World Scout Moot í dag.

 

Christy McCann, skátahöfðingi Írlands tekur við keflinu af Hrönn Pétursdóttur, mótsstjóra World Scout Moot 2017. Ljósmynd: David Byatt

„Við Írar höfum lært mjög mikið af ykkar vinnu og munum gera okkar besta til að standast þær væntingar sem mótsgestir okkar munu gera til Moot” sagði Christy en Írar munu verða gestgjafar næsta World Scout Moot árið 2021.

World Scout Moot 2017 er lokið

„Mótsslitin eru vissulega endir á því sem við höfum upplifað saman síðustu daga en einnig upphafið á nýju ævintýri. Ævintýri sem breytt getur heiminum. Farið nú til ykkar daglegu starfa en gleymið ekki að miðla ævintýrinu á Íslandi með fjölskyldum ykkar, vinnufélögum og nágrönnum og segið þeim frá því sem við höfum upplifað hér saman” sagði Hrönn Pétursdóttir, mótsstjóri World Scout Moot í ávarpi sínu við mótsslitin á Úlfljótsvatni í dag.

Moot hefur breytt lífi okkar allra

„Leyfið öllum í ykkar tengslaneti að njóta með ykkur, deilið Facebook-færslum, sýnið myndir, segið frá. Ég veit að mótið hefur breytt ykkur – nú farið þið heim til þeirra liðlega eitt hundrað þjóðlanda sem þið tilheyrið og gerið ykkar besta til að deila þessari mögnuðu lífsreynslu. Hún er jákvæð, hún er uppbyggjandi og hún mun svo sannarlega breyta til batnaðar. Munið að þið eruð ekki aðeins áhrifavaldar í eigin lífi heldur getið þið einnig haft ótrúlega jákvæð áhrif á ykkar samfélag”. bætir Hrönn við.

Þakklæti til sjálboðaliða

Í ávarpi sínu flutti Hrönn þakkir sínar til þeirra ríflega eitt þúsund sjálfboðaliða sem gefið hafa vinnu sína við undirbúning og framkvæmd mótsins. „Mörg ykkar hafa fórnað sparifé, sumarfríi og samvistum við fjölskyldu til að vinna við mótið. Saman höfum við sett mikinn tíma í verkefnið og mig langar að senda kveðju á vinnuveitendur, maka og fjölskyldur þeirra ríflega ellefuhundruð sjálfboðaliða sem hafa unnið að þessu frábæra verkefni – takk!“.

 

Ljósmynd: Diego Gonzalez

– Við erum búin að sjá mikið af landinu með þátttöku í mótinu, en við viljum skoða meira, segja þrír skátar á heimsmóti fyrir 18 – 25 ára sem nú er að ljúka á Úlfljótsvatni. Þau lágu yfir Íslandkorti og voru að plana hvert þau myndu fara að mótinu loknu á bílaleigubíl sem þau voru búin að bóka.

– Já, við erum búin að skoða SafeTravel og látum vita af okkur, sögðu þau og notuðu tækifærið til að pumpa Íslendinginn um hvernig aka ætti yfir ár, en höfðu reynslu af akstri á malarvegum og voru könnuðust við umferðarskiltið >einbreið brú< þó þau væru ekki búin að ná framburðinum.

Linda Björk Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri skráning og ferðaskrifstofu Moot,  hefur verið að bóka skáta og ferðir og leiðbeina þeim.  Hús segist finna segist finna mikinn áhuga meðal skáta á að upplifa Ísland. Þeir séu ferðaglaðir og vilja sjá sem mest.

Við skipulagningu mótsins var gert ráð fyrir að þátttakendur myndu dvelja á landinu að meðaltali í um 3 vikur og þá á eigin vegum stóran hluta dvalar sinnar. Excel-spádómsmenn hafa áætlað að mótið og ferðir skátanna á eigin vegum skili yfir tveimur milljörðum í gjaldeyristekjur og þar af fer aðeins fjórðungur í beinan kostnað vegna mótsins, þannig að ljóst er að þjóðarbúið í heild nýtur góðs af því að heimsmótið var haldið hér á landi.

Þetta er búið að vera algjörlega ótrúlega skemmtilegt og vel heppnað“, segja þeir Páll Viggósson og Eðvald Einar Stefánsson sem borið hafa ábyrgð á framkvæmd allra sameiginlegra viðburða World Scout Moot 2017.

Formleg mótssetning í Laugardalshöll, opnunarhátíð á Úlfljótsvatni og mótsslitin í dag eru á meðal þeirra verkefna sem þeir félagar hafa haft á sinni könnu.

Fjölbreytt viðfangsefni

„Okkar hlutverk var að skipuleggja og annast um framkvæmd þeirra viðburða þar sem allir þátttakendur mótsins koma saman“ segir Páll og bætir við að það hafi verið að ýmsu að hyggja enda umfangið mikið. „Þegar svona margir koma saman á einum stað þarf að huga að mörgu. Eitt er að skipuleggja áhugaverða dagskrá en annað er að sjá til þess að öll grunnþjónusta sé fyrir hendi á sama tíma og það má því með sanni segja að við höfum fengið að takast á við ansi fjölbreytt verkefni“ bætir Eðvald við.

Nokkrir risatónleikar í röð

„Þetta er ekki ósvipað því að skipuleggja nokkra risatónleika í röð. Við erum fyrst með formlega setningarathöfn í Laugardalshöll. Þegar allir þátttakendur komu svo saman á Úlfljótsvatni var sérstök opnunarhátíð þar og svo auðvitað mótsslitin sjálf á eftir“ segir Páll.

Að mörgu að huga

„Okkar hlutverk er að velja saman þau atriði sem gera hvern viðburð sérstakan, vinna með fjölda listafólks, tæknifólks á sviði hljóð- og myndtækni, uppfylla kröfur mótsins um nauðsynleg ávörp og slíkt svo það er að mörgu að huga“ segir Eðvald.

…og allt hitt

„Ofan á þetta hafa verið hér viðburðir um allt mótssvæðið sem þurfa hljóðkerfi, búnað og aðra aðstoð og við höfum gert okkar besta til að sinna öllum þessum málum og ég veit ekki betur en að allt hafi gengið vel upp. Við skátar eigum ótrúlegan fjársjóð í okkar mannauði og hann hefur svo sannarlega skilað sér“ segir Páll.

Tækniteymið til fyrirmyndar

Þeir félagar vilja koma því á framfæri að án öflugs tækniteymis hafi þeirra verkefni aldrei getað gengið upp. „Haukur Harðar, Gísli Guðna, Davíð og allt hans fólk og fleiri hafa svo sannarlega staðið sig í stykkinu og lagt okkur lið og okkar verkefnum – allt þetta fólk, sem og aðrir sjálfboðaliðar mótsins, eiga hrós skilið fyrir þeirra framlag“ segir Eðvald.

Gísli Guðnason og Haukur Harðarson hafa reynst viðburðarteyminu vel síðustu daga.

Lokastundin nálgast

„Okkar síðasta stóra verkefni eru mótsslitin á eftir. Þau eru vel undirbúin eins og annað hér á World Scout Moot en við verðum fegnir þegar þeim er lokið“ segja þeir félagar og kveðja með brosi á vör.

Það er óhætt að fullyrða að þýsku skátahjónin Sandra og Guido Ertel séu á meðal tryggustu sjálfboðaliðanna þegar kemur að mótshaldi skáta hérlendis en þau hafa verið í starfsliði allra landsmóta Bandalags íslenskra skáta frá árinu 1993. Þau eru einnig á meðal ríflega 600 erlendu sjálfboðaliða í starfsliði World Scout Moot 2017.

Alls eru sjálfboðaliðar í starfsliði World Scout Moot rúmlega eitt þúsund talsins, 450 íslenskir og ríflega 600 erlendir.

Vosbúð í vatnasafaríi

„Fyrsta mótið okkar er mjög eftirminnanlegt en það var haldið í Kjarnaskógi við Akureyri árið 1993” rifjar Guido upp. „Við vorum óheppin með veður. Það var kalt, hvasst og það rigndi mikið. Við vorum í starfsmannahópnum sem sá um vatnasafaríið en eins og gefur að skilja var ekki mikil aðsókn í þá dagskrá” segir Sandra hlægjandi.

Þessi fyrsta upplifun þeirra hjóna af skátamóti á Íslandi var því nokkuð sérstök en það aftraði þeim ekki frá að koma aftur og hafa þau verið í starfsliði allra landsmóta frá þeim tíma. Sandra missti reyndar eitt mót úr vegna veikinda.

Giftu sig á Íslandi

Sandra og Guido elska Ísland og hafa ferðast vítt og breytt um landið bæði að vetri og sumri en fyrir utan ferðir sínar til landsins vegna skátamótanna hafa þau komið þrisvar að vetri til.

Aðspurð um hvort það séu einhverjir staðir á landinu sem þau eftir að heimsækja segja þau það ekki vera. Hins vegar sé orðið tímabært að heimsækja aftur Vestmannaeyjar, Vestfirði og Austurland því nokkuð sé um liðið frá því þau fóru um þá staði.

Þau hafa sterkar tilfinningar til margra staða hér á landi og má þeirra á meðal nefna Þingvelli en þar fór brúðkaup þeirra fram fyrir nokkrum árum.

Þekkja betur til en margir heimamenn

Hlutverk þeirra hjóna hér á World Scout Moot er að starfa í upplýsingatjaldinu, leiðbeina þátttakendum og leysa úr fyrirspurnum eftir bestu getu. „Þetta er þriðja mótið sem við störfum í upplýsingatjaldinu hér á Úlfljótsvatni. Við þekkjum svæðið orðið mjög vel um allt umhverfi Úlfljótsvatns, kannski betur en sumir heimamenn” grínast Guido.

„Ég hélt að ég væri búin með bensínið eftir krefjandi en gefandi dagskrá á Akureyri og svo þessa frábæru daga hér á Úlfljótsvatni. Sá fram á að hvíla mig í kvöld en úr því varð ekki“ segir Kirstin Berthold frá Þýskalandi.

Síðasta sameiginlega kvöldstund þátttakenda á World Scout Moot var í gærkvöldi og af því tilefni var mikið um dýrðir.

Eftir glæsilega matarveislu hvers tjaldsvæðis héldu þátttakendur inn á kaffihúsasvæðið þar sem boðið var upp á lifandi tónlist, spjall, nudd og skapandi samveru.

Ofsafjör á skátadansiballi. Ljósmynd: André Jörg

Stuðlabandið lék fyrir dansi fram eftir kvöldi en eftir það var slegið upp varðeldum hér og þar um svæðið og sum kaffihús mótsins tengdu plötusnúðana sína við rafmagn og héldu uppi fjörinu langt fram í nóttina.

„Það er búið að ganga fáránlega vel” segir Jóhanna Aradóttir sem leiðir dagskránna í Arnarþorpinu (The Eagle Village). „Við erum með algjört snilldar starfsfólk sem sér um dagskrárpóstana. Meðal þeirra eru hollenskir sérfræðingar í frumbyggjastörfum sem deila hér þekkingu sinni með okkur” bætir Jóhanna við.

Þema dagskrárinnar á Úlfljótsvatni er Alþingi og er vísað til þess ævafornar siðar Íslendinga að koma saman til Alþingis eftir langt og strangt ferðalag.

The Eagle Village er eitt fjögurra dagskrárþorpa sem nefnd eru eftir landvættum Íslands. Hin eru The Bull, The Giant og The Dragon og hefur hvert svæði sín sérkenni þótt öll vinni þau með þema mótsins, Change, þar sem skoðað er hvað gerir okkur að því sem við erum, hvernig ytri breytingar hafa áhrif á okkur og hvernig við getum stuðlað að breytingum á umhverfi okkar.

Í Arnarþorpinu eru hlutirnir settir í sögulegt samhengi og þátttakendur skoða hvernig sagan hefur haft áhrif á okkur sem mannenskjur og hvað við getum gert til að hafa áhrif á framtíð okkar – sem einstaklingar, sem samfélag og sem skátahreyfing.

Degið undirbúið fyrir kleinubakstur og ástarpungagerð. Ljósmynd: André Jörg

Handverkið vinsælt

„Það er búið að vera mikið að gera í prjónaskapnum og ísgerðina hefðum við getað haft fimmfalt stærri því hún hefur verið svo vinsæl” segir Jóhanna.

Fleiri vinsæl verkefni hafa verið leðurvinna, útskurður, málmsteypa og bakstur á kleinum og ástarpungum.

„Hér er afar skemmtilegur hollenskur skátahópur í mínu starfsliði. Þau hafa sérhæft sig í margvíslegum frumbyggjastörfum og fara á milli móta með þá dagskrá. Af þeim erum við að læra handbragð og verklag sem er víða gleymt” segir Jóhanna.

Dæmi um þá dagskrárliði sem hollendingarnir bjóða uppá er útskurður og að kveikja eld með tinnu annars vegar og svokölluðum eldboga hins vegar.

Fræðasetur og fiskerí

„Við erum með tvo dagskrárliði utan svæðis. Annar er veiðipóstur þar sem skátarnir geta fengið hjá okkur veiðistangir og farið og rennt fyrir fisk. Hinn er heimsókn í Fræðasetur skáta við Ljósafossstöð sem við köllum „The Scout Museum” uppá ensku. Mikill áhugi hefur verið á Fræðasetrinu.

Stöðug röð í málmsteypuna

„Það er búin að vera stanslaus traffík og löng röð til okkar, allan daginn í gær og einnig í dag” segir Hans Ágústsson sem ásamt Claus Hermann Magnússyni stýra málmsteypupósti. „Hér geta þátttakendur steypt skartgrip í laginu eins og Ísland og þórshamar”.

Þess má geta að Hans er búsettur í Þýskalandi en gerði sér sérstaka ferð heim til Íslands til að geta lagt mótinu lið sem sjálfboðaliði.

Góð stemmning hefur ríkt í The Eagle Village og þátttakendur fengið að spreyta sig á spennandi verkefnum. Ljósmynd: André Jörg