Um helgina var haldið stærsta Ungmennaþing skáta á Íslandi fram til þessa þegar hátt í 40 skátar mættu á Úlfljótsvatn.

Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi setti þingið á föstudagskvöldið. Hún flutti ávarp þar sem hún talaði um mikilvægi þess að unga fólkið tæki virkan þátt í skátastarfi í dag og að þeirra skoðun skipti miklu máli.

„Unga fólkið er ekki framtíðin, það er nútíðin“.

Þessi orð frá Mörtu voru svo sannarlega lýsandi fyrir anda helgarinnar. Dagskrá föstudagsins endaði með spurningakeppninni „Ertu skarpari en fálkaskáti?“ en þau Benedikt Þorgilsson og Hulda María Valgeirsdóttir unnu keppnina.

Ungmennaþing 2018

Skátarnir að þinga!

Á laugardeginum fræddust þátttakendur um Skátaþing og hvernig á að komast í ráð og nefndir.  Einnig var fjallað um jafningjafræðslu og radíóskátun. Þátttakendur fengu kynningar á alþjóðlegum viðburðum framundan s.s. Agora, Jamboree 2019 og Landsmóti rekka- og róverskáta í sumar. Í Skátamasinu var rætt um hin ýmsu málefni eins og vefsíðu skátanna, fjölgun í skátastarfi, róverskátar 100 ára, sveitaforingjann o.fl. Ekki má gleyma leikjunum sem var farið í á milli dagskrárliða en það var Urður Björg Gísladóttir sem vann stólaleikinn mikla.

 

Þá var komið að þinginu sjálfu. Þar var mikið rætt og þá sérstaklega um aldur félagsforingja og að ungmenni hefðu aukin atkvæðarétt fyrir hönd skátafélaga á skátaþingi. Eftir þinghöld var komið að því sem allir biðu eftir. Fyrstu árshátíð rekka- og róverskáta á Íslandi. Allir fóru í sitt fínasta púss og komu saman í matsalnum þar sem boðið var upp á þriggja rétta máltíð. Síðan var haldið í Norðursal þar sem dansað var fram eftir kvöldi.

Þegar búið var að þrífa Úlfljótsvatn á sunnudeginum var ákveðið að kíkja á Fræðasetur skáta þar sem Gunnar Atlason fræddi okkur um sögu skátastarfs á Íslandi. Helginni lauk svo í sundlaugarpartýi á Selfossi og fóru þátttakendurnir fullir eldmóðs heim, sannfærðir um að unga fólkið muni breyta heiminum!

 

Á föstudaginn s.l. hélt ungmennaráð viðburðinn Róverskátaruglið. Þá fóru 30 róverskátar saman í trampolíngarðinn Skypark í Kópavogi. Það var mikið fjör í garðinum og skemmtu krakkarnir sér vel á trampolíninu. Þar var hoppað í heljarstökkum ofan í gryfjuna, farið í boðhlaup og keppt um hver næði að hoppa hæst og snerta loftið svo dæmi séu nefnd. Eftir að hafa verið í garðinum í rúman klukkutíma fóru krakkarnir svo í skátaheimili Segla þar sem pizzaveisla beið þeirra.

Það má svo sannarlega segja að viðburðurinn hafi heppnast vel og vonast ungmennaráð eftir því að geta haldið fleiri svipaða viðburði í framtíðinni!

 

 

Hér má sjá Birtu Mosverja leika listir sínar á trampolíninu!

Í gær var Rekka- og Róver Ruglið haldið í Landnemaheimilinu . Það voru um 15 skátar sem mættu og eyddu kvöldinu í að hlusta á 2-5 mínútna kynningar og lærðu eitthvað nýtt í leiðinni. Það var nefninlega þannig að hver sem vildi gat komið og verið með kynningu um hvað sem er. Meðal þessara kynninga voru leikir, jóðl kennsla, örfyrirlestur um hvernig á að hefja róverskátastarf og svo kennsla í að reima skó!

 

Það er aldrei of seint að læra að reima!

Hjálmar að kenna okkur hvernig á að hefja róverskátastarf.

 

Rekka- og róverskátar að skipuleggja sína eigin útilegur, viðburði og fundi?! Félagasokkar? Hobo-pie?
RUS dagurinn eða Rödd ungra skáta dagurinn var haldin af Ungmennaráði í skátaheimili Mosverja laugardaginn sl. Það voru um 24 rekka- og róverskátar sem mættu og fengu tækifæri til að skipuleggja sína eigin rekka- og róverdagskrá.

Hvað ætli hafi verið svona fyndið?

Undanfarna mánuði hefur rekka-og róverdagskrá mikið verið í umræðunni hjá skátahreyfingunni. Hvað vilja krakkarnir gera? Er of mikið eða of lítið af viðburðum í boði? Hvað er hægt að gera til að vera með skemmtilega dagskrá sem fær fólk til að mæta? Niðurstaðan er einföld. Krakkanir vilja fara að skipuleggja sína eigin dagskrá. Þau vilja halda meira af sjálfsprottnum viðburðum og vera með opna rekka- og róverfundi.

Hrafnkell að kynna hugmyndina sína um félagasokka

 

 

Á RUS-deginum fengu krakkarnir tækifæri á að skipuleggja einmitt það. Þeim var skipt í fjóra hópa. Fyrsti hópurinn sá um að skipuleggja útilegur/viðburði. Þau skipulögðu útilegu sem verður í júní á þessu ári þar sem krökkunum gefst tækifæri á vera úti, gista í tjaldi, ganga og takast á við skemmtilegar áskoranir. Annar hópurinn skipulagði opna fundi fyrir rekka- og róverskáta. Þar voru m.a. skipulagðir Disney- og íþróttafundir. Þriðji hópurinn var fyrir þá sem höfðu sínar eigin hugmyndir sem þau langaði að framkvæma. Þar kom upp sú hugmynd að hanna félagasokka – sokka fyrir hvert skátafélag í félagalitunum með logo skátafélagsins á hliðinni. Sú hugmynd er enn á hönnunarstigi en verður vonandi að veruleika bráðlega. Fjórði og síðasti hópurinn skipulagði svo dagskrá fyrir kvöldið og varð fyrir valinu að gera appelsínumöffins á kolum og horfa á Disney myndina Moana.

Þegar hóparnir voru búnir að skipuleggja verkefnin sín var farið í sund í Lágafellslaug. Eftir hressandi sundferð elduðu krakkarnir sér Hobo-pie í kvöldmat. Hvað er það eiginlega? Þá er blandað saman alls kyns grænmeti, kjöti, sósum og kryddi sem er eldað á kolum í álpappír og síðan borðað.

Að dagskrá lokinni fóru krakkarnir heim ánægðir með viðburðaríkan dag (no pun intended…). Fyrir þá sem komust ekki á RUS-daginn verða allir viðburðirnir auglýstir betur þegar nær dregur.

-Ungmennaráð

Það er laugardagurinn 11. febrúar. Ég vakna, lít á símann minn og sé að klukkan er 10. Ég kem mér fram úr rúminu, fæ mér morgunmat og geri mig klára í daginn. Ég rétt svo man að skella mér í skátaskyrtuna og setja á mig hátíðarklútinn áður en ég sest upp í bíl og keyri af stað. Stefnan er tekin á Hafnarfjörðin. Nánar tiltekið Hraunbyrgi (skátaheimili Hraunbúa). Það líður ekki langur tími þar til í ég sé stóra gráa húsið fram undan mér. Ég fer inn og sé að það eru um 10 manns nú þegar mættir. Eftir skamma stund stendur Berglind, formaður Ungmennaráðs upp og setur þingið.

Ég stend í miðjum hringnum með um 20 manns í kringum mig. Hvar er aftur Óli Björn? Ég reyni að slá hann með prikinu áður en hann segir næsta nafn. „Sæbjörg“ segir hann svo, rétt áður en ég næ honum. Mun ég einhvern tímann losna úr miðjunni? Við erum semsagt í nafnaleiknum Jónas og ég er hann… En áður en ég næ að koma næstu manneskju í miðjuna er tími komin að fara aftur inn og fá fræðslu um Skátaþing frá Baldri og Ylfu úr Segli. Það kom mér á óvart þegar kom í ljós að lang flestir í salnum höfðu áður farið á Skátaþing. „Áfram Unga fólkið!“Annars er ég núna orðin mun fróðari um Skátaþing og tilgang þess.

Hvað er stefnumótun BÍS? „Það eru markmið Bandalagsins fyrir árið 2020“ segir Berglind er hún segir okkur nánar frá þeim. Síðan er okkur skipt í þrjá hópa þar sem við ræðum spurningarnar „Hvað getur Bandalagið gert fyrir okkur?“ „Hvað geta félögin gert fyrir okkur?“ og að lokum „Hvað getum við sjálf gert?“. Eftir þessar umræður voru niðurstöður hvers hóps svo kynntar fyrir öllum hópnum. Ég get sagt ykkur að margar góðar hugmyndir komu fram en það tæki mig allan daginn að segja frá þeim öllum.

„Það eru komnar vöfflur“ heyrist úr eldhúsinu. Á næsta augnabliki koma Daði, Jón Egill og Ísak úr eldhúsinu með rjúkandi vöfflur, rjóma, sultu, súkkulaði, sykur og tilheyrandi. Það er komið kaffi! Aðeins seinna en áætlað var en óþarfi að fara nánar út í það… (það þarf annars 10L af vatni í vöffludeig er það ekki?)

Eftir kaffið fór ég svo fram á gang þar sem um helmingur krakkanna fór á trúnó með Ungmennaráði. Þar ræddum við um starf Ungmennaráðs og allt sem tengist rekka- og róverskátastarfi. Skemmtilegar umræður þar!

Klukkan er 16:40 og þingið er sett (Ef þið eruð orðin aðeins rugluð þá var núna verið að setja Ungmennaþingið. Hitt var bara dagskráin sem leiddi að Ungmennaþinginu). Þar sem ég nenni ekki að skrifa allt sem fór fram á þinginu get ég sagt ykkur að þingið studdi við tvær tillögur að lagabreytingu sem voru sendar inn á Skátaþing 2017. Síðan sagði Salka okkur hvað er helst á dagskrá fyrir rekka- og róverskáta á næstunni.

Klukkan 18:00 (slétt) var þinginu svo slitið. Þá var kominn tími til að fara heim á leið og borða kvöldmat með fjölskyldunni.

Ég vona samt að þið hafið haft gaman af því fylgjast með deginum mínum. Ég átti skemmtilegan dag á Ungmennaþingi og þakka fyrir mig!

 

Hérna má sjá Ungmennaráð BÍS sem stóð fyrir þinginu.

Ungir talsmenn, Rödd ungra skáta og Ungmennaþing eru allt viðburðir skipulagðir af Ungmenna- og Upplýsingaráði fyrir rekka- og róverskáta.

Hver er eiginlega munurinn á Ungum talsmönnum og Rödd ungra skáta, er þetta ekki nákvæmlega það sama? Hvers vegna þarf að vera svona mikið af þessum sömu viðburðum? Þetta eru algengar spurningar sem vakna meðal skáta þegar rætt er um þessa rekka- og róverskáta viðburði. Hver ætli sé ástæðan fyrir því? Líklegasta svarið er upplýsingaleysi og langar mig því sem starfsmaður Ungmennaráðs og Upplýsingaráðs (og skipuleggjandi þessara viðburða) að nota þessa grein til að skýra þetta betur.

Byrjum á Ungum Talsmönnum. Viðburði skipulögðum af Upplýsingaráði og Ungmennaráði fyrir rekka- og róverskáta.

Ungir Talsmenn er viðburður fyrir rekka- og róverskáta sem hafa gaman að eða langar verða betri í samfélagsmiðlanotkun, myndatöku, og framkomu í fjölmiðlum. Hefur þig alltaf langað að bæta sviðsframkomu þína? Veist þú ekki alveg hvernig sjónvarpsviðtöl virka? Langar þig að læra að verða betri snappari?  Þá er Ungir Talsmenn fyrir þig, þar sem þú getur lært allt þetta og margt fleira“.

Semsagt; Ungir talsmenn er helgarviðburður þar sem skátar geta fræðst um samfélagsmiðla, framkomu, ljósmyndun og margt fleira.
Í ár verður Ungir Talsmenn haldinn á Akureyri helgina 24.-26. febrúar: Nánar um það hér.

Ungmennaþing er viðburður skipulagður af Ungmennaráði fyrir rekka- og róverskáta.

Tilgangur Ungmennaþings er að skátar á rekka- og róveraldri (16-22 ára), fái tækifæri til að ræða um sitt skátastarf. Sömuleiðis er tilgangur þingsins að kynna Skátaþing og hvernig er hægt að hafa áhrif í gegnum það“

Ungmennaþing er því í raun eins dags þing þar sem skátarnir geta komið hugmyndum sínum á framfæri. Þau geta fengið að kynnast Skátaþingi og hvernig innri virkni Bandalagsins er. Auk þess er þetta gott tækifæri til þess að koma með hugmyndir að tillögum til lagabreytinga sem síðan er hægt að setja fram á Skátaþingi. Þetta er þá eins konar byrjunarskref fyrir þá sem t.d. eiga eftir að sitja Skátaþing og vita ekki alveg hvernig það gengur fyrir sig eða fyrir þá sem hafa áhuga á að bjóða sig fram í fastaráð BÍS en vita ekki hvernig þau starfa.
Í ár verður Ungmennaþing haldið í Hraunbyrgi 11. febrúar. Nánari upplýsingar er að finna hér.

 

Síðast en ekki síst er Rödd ungra skáta. Viðburður skipulagður af Ungmennaráði fyrir rekka- og róverskáta.

RUS er frábært tækifæri fyrir alla rekka- og róverskáta til að ræða málin og hafa gaman. Er eitthvað sem brennur þér á hjarta? Hefur þú skoðun á hvenær næsta landsmót verður haldið? Langar þig að hafa áhrif á störf Ungmennaráðs í vetur? Ef svo er þá er RUS viðburður fyrir þig! Við ætlum að kynna okkur hvað er að gerast í skátastarfi á Íslandi og erlendis.“

Rödd ungra skáta eða RUS eins og viðburðurinn er oft kallaður er helgarviðburður þar sem skátar geta komið saman og rætt mál líðandi stundar. Þau fá tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri. Ekki bara í fyrirframákveðnum málefnum heldur öllu því sem rekka- og róverskátarnir hafa áhuga á í sínu starfi. Þau fá tækifæri til að kynnast öðrum rekka- og róverskátum á Íslandi, kynnast Ungmennaráði og hafa áhrif á störf ráðsins.
RUS í ár verður haldið með aðeins óhefðbundnu sniði. Þar sem viðburðurinn féll niður í október í fyrra verður haldin RUS dagur, 25. mars til að bæta fyrir það. Hann verður með sama sniði og RUS helgin átti að vera, dagskráin verður bara styttri. Nánari upplýsingar um RUS daginn koma fljótlega, stay tuned!

 

Ég vona að þessi texti hafi skýrt málin fyrir ykkur og jafnvel vakið hjá ykkur áhuga fyrir því að mæta á einhvern þessara spennandi viðburða, ef ekki alla. Þessa viðburði má nefninlega hugsa sem einskonar „3 fyrir 1 pakka“. Tækifæri til að æfa sig í framkomu, á samfélagsmiðlum og annars staðar og nota síðan þá reynslu í að koma hugmyndum sínum á framfæri og jafnvel í framkvæmd.

 

En af hverju þessir viðburðir?… Við erum að halda þessa viðburði því við teljum þá vera áhugaverða, skemmtilega og fræðandi. Eru þeir það? Það er fyrir ykkur, rekka- og róverskáta að segja okkur. Viljið þið kannski sjá eitthvað allt annað…t.d. hörku vetrarútilegu upp á Hellisheiði?! Þá er um að gera að láta okkur vita…

Ef þið hafið einhverjar athugasemdir við þessa viðburði eða öðru tengt rekka- og róverskátastarfi getið þið haft samband við Ungmennaráð hér. Ef þið hafið síðan aðrar hugmyndir sem tengjast rekka- og róverskáta viðburðum/dagskrá er um að gera að láta okkur vita. Já, eða mæta á einhverja af þessum viðburðum, þar er kjörið tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri!

 

Salka Guðmundsdóttir, starfsmaður Ungmenna- og Upplýsingaráðs, róverskáti í Mosverjum.