Hvaðeina er tengist BÍS, stjórnsýslu, lög, reglugerðir og svo framvegis.

Síðastliðinn sunnudag hittust drekaskátar af höfuðborgarsvæðinu í Mosfellsbæ og tóku þátt í fjörugum póstaleik!
Dagskráin var úti og skátarnir gengu stóran hring með foringjum sínum í kringum Álafosskvosina og stoppuðu á nokkrum stöðum til að leysa skemmtilegar þrautir.

Dagurinn einkenndist af gleði, söng, þrautseigju og snilli. Þema dagsins var byggt á  Dýrheimasögm (e. Jungle book) og þrautirnar voru margvíslegar. Til dæmis reyndi á traust hópsins þegar skátarnir fóru í traustaleik, þau æfðu sig í samvinnu og lærðu umgengni við náttúruna.

Uppáhalds verkefnið okkar var samfélagsverkefni dagsins, að týna rusl í poka. Hver hópur fékk 1 poka til að fylla af rusli, en skátarnir voru svo duglegir að margir hópar voru komnir með nokkra auka poka og týndu ótrúlegt magn af rusli! Skáti er sko náttúruvinur og drekaskátarnir eru með það á hreinu!

Drekaskátadagurinn tókst mjög vel upp og voru þátttakendur mjög heppnir með veður, það var sól, lítill vindur og engin rigning eða snjókoma! Reyndar var svolítið kalt en þá var bara um að gera að klæða sig vel og hreyfa sig!

Dagskrá lauk svo með kakó og kexi við skátaheimili Mosverja.

Takk fyrir daginn allir og sjáumst á Drekaskátamóti í sumar!

Hér má sjá fleiri myndir frá Drekaskátadeginum.

Skátar fagna sumarkomu og halda Sumardaginn fyrsta hátíðlegan á margvíslegan hátt. Skátar hafa sett svip sinn á hátíðarhöld um allt land frá upphafi skátastarfs á Íslandi.

Sumardagurinn fyrsti er dagur barnanna og af því tilefni gefa Skátarnir og Eimskip öllum börnum í öðrum bekk allra grunnskóla landsins íslenskan fána til að nota í tilefni dagsins.

Mikið er um að vera fyrir börnin á þessum skemmtilega degi. Skrúðgöngur, hoppukastalar, skátafjör og margt, margt fleira.

Skátarnir hvetja landsmenn til að fagna sumri með fánum og fjöri. Samverustundir fjölskyldunnar eru dýrmætar og því um að gera að njóta dagsins saman.

Hér að neðan má sjá brot af þeim viðburðum sem Skátar um land allt standa fyrir.  

Einnig má hlaða niður pdf skjal með viðburðum dagsins.

 

Gleðilegt sumar!

Hátíðarhöld skátafélaga um land allt

Aukaskátaþing BÍS var haldið 4. febrúar sl. í Fólkvangi á Kjalarnesi. Þingið var vel sótt en um 140 manns frá 23 skátafélögum sátu þingið. Umræður voru málefnalegar og nokkrar ályktanir og áskoranir lagðar fyrir þingið.

 

Niðurstaða þingsins var sú að vantrauststillaga gegn aðstoðarskátahöfðingja var felld með yfirgnæfandi meirihluta og situr því Fríður Finna Sigurðardóttir áfram í stjórn BÍS. Þar sem skátahöfðingi hefur stigið til hliðar er Fríður núna starfandi skátahöfðingi fram að næstkomandi skátaþingi þann 10. -11. mars þegar nýr skátahöfðingi verður kosinn. Á þinginu tilkynnti hún að hún muni ekki gefa áfram kost á sér í stjórn á næstkomandi skátaþingi þegar kjörtímabili hennar lýkur.

 

Eftirfarandi ályktun var lögð fyrir þingið og samþykkt:

Aukaskátaþing BÍS 2017 er minnugt þess að hreyfingin starfar með opinberum stuðningi og frjálsum framlögum fyrirtækja og einkaaðila. Þingheimur skilur mikilvægi afkomu dótturfélaga BÍS fyrir starfsemi hreyfingarinnar og mikilvægi velvildar í þeirra garð. Því þarf meðferð fjármuna Bandalagsins, jafnt sem almennra skátafélaga og stofnana innan hreyfingarinnar, að vera yfir alla gagnrýni hafin og að öllu leyti í samræmi við lög og reglur. Þingið samþykkir að úttekt á fjárreiðum BÍS verði kláruð af óháðum endurskoðanda og skal sú úttekt kláruð svo fljótt er verða má.

Meirihluti þingfulltrúa samþykkti að lýsa yfir vanþóknun á starfsháttum og vinnubrögðum Braga Björnssonar fyrrv. skátahöfðingja við uppsögn Hermanns Sigurðssonar fv. framkvæmdastjóra BÍS.

Þá var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða áskorun til stjórnar BÍS um að draga uppsögn Hermanns Sigurðssonar fv. framkvæmdastjóra til baka.

Fyrir þingið var lögð fram ályktun um að beina því til stjórnar BÍS að hún skerpi áherslur, verkferla og viðbrögð hreyfingarinnar gegn einelti og öðru ofbeldi.

Sérstaklega skuli horft til þessara þátta:

Siðferðisleg gildi skuli höfð að leiðarljósi í allri meðferð allra slíkra mála

Verkferlar mála séu unnir á faglegan, upplýstan og gegnsæjan hátt

Meintir þolendur skuli njóti vafans

Ályktunin var samþykkt með lófaklappi.

 

Á næstkomandi skátaþingi var áætlað að kjósa um sæti aðstoðarskátahöfðingja, formanns ungmennaráðs og formanns upplýsingaráðs. Eftir að skátahöfðingi steig til hliðar í janúar sl. bættist það sæti við kjörlistann. Borist hafa tilkynningar frá formanni alþjóðaráðs, Jóni Þór Gunnarssyni, gjaldkera, Sonju Kjartansdóttur og formanni fræðsluráðs, Ólafi Proppé um að þau gefi kost á sér á ný og sækist eftir endurnýjuðu umboði á komandi skátaþingi en þau hafa ekki lokið kjörtímabilum sínum. Formaður dagsskrárráðs, Una Guðlaug Sveinsdóttir, sem á eitt ár eftir af sínu kjörtímabili, tilkynnti á þinginu að hún ætli að hætta í stjórn í mars og sjái sér ekki fært að klára tímabilið.  Ljóst er að miklar mannabreytingar verða í stjórn og nefndum BÍS því á skátaþinginu verður kosið um 17 embætti. Öll sæti í sjö ráðum Bandalagsins eru í kjöri á hverju ári svo þar bætast 28 sæti við. Áhugasömum er bent á að hafa samband við uppstillingarnefnd, sjá nánar tilkynningu nefndarinnar.

Nú eru félög um land allt að halda aðalfundi og skila inn gögnum til BÍS því næsta skátaþing verður eftir mánuð á Akureyri, nánari upplýsingar um þingið verða birtar á skátamál.is fljótlega. Sjá nánar reglur um Skátaþing í greinum nr. 16-20 hér.

 

Skátamiðstöðin í jólafrí
Vegna leyfa starfsfólks verður starfsemi Skátamiðstöðvarinnar í lágmarki dagana
27. desember -2. janúar. Við munum þó svara tölvupóstum og ef erindið er brýnt er bent á skatar@skatar.is