Hvaðeina er tengist BÍS, stjórnsýslu, lög, reglugerðir og svo framvegis.

Skátar fagna sumarkomu og halda Sumardaginn fyrsta hátíðlegan á margvíslegan hátt. Skátar hafa sett svip sinn á hátíðarhöld um allt land frá upphafi skátastarfs á Íslandi.

Sumardagurinn fyrsti er dagur barnanna og af því tilefni gefa Skátarnir og Eimskip öllum börnum í öðrum bekk allra grunnskóla landsins íslenskan fána til að nota í tilefni dagsins.

Mikið er um að vera fyrir börnin á þessum skemmtilega degi. Skrúðgöngur, hoppukastalar, skátafjör og margt, margt fleira.

Skátarnir hvetja landsmenn til að fagna sumri með fánum og fjöri. Samverustundir fjölskyldunnar eru dýrmætar og því um að gera að njóta dagsins saman.

Hér að neðan má sjá brot af þeim viðburðum sem Skátar um land allt standa fyrir.  

Einnig má hlaða niður pdf skjal með viðburðum dagsins.

 

Gleðilegt sumar!

Hátíðarhöld skátafélaga um land allt

Aukaskátaþing BÍS var haldið 4. febrúar sl. í Fólkvangi á Kjalarnesi. Þingið var vel sótt en um 140 manns frá 23 skátafélögum sátu þingið. Umræður voru málefnalegar og nokkrar ályktanir og áskoranir lagðar fyrir þingið.

 

Niðurstaða þingsins var sú að vantrauststillaga gegn aðstoðarskátahöfðingja var felld með yfirgnæfandi meirihluta og situr því Fríður Finna Sigurðardóttir áfram í stjórn BÍS. Þar sem skátahöfðingi hefur stigið til hliðar er Fríður núna starfandi skátahöfðingi fram að næstkomandi skátaþingi þann 10. -11. mars þegar nýr skátahöfðingi verður kosinn. Á þinginu tilkynnti hún að hún muni ekki gefa áfram kost á sér í stjórn á næstkomandi skátaþingi þegar kjörtímabili hennar lýkur.

 

Eftirfarandi ályktun var lögð fyrir þingið og samþykkt:

Aukaskátaþing BÍS 2017 er minnugt þess að hreyfingin starfar með opinberum stuðningi og frjálsum framlögum fyrirtækja og einkaaðila. Þingheimur skilur mikilvægi afkomu dótturfélaga BÍS fyrir starfsemi hreyfingarinnar og mikilvægi velvildar í þeirra garð. Því þarf meðferð fjármuna Bandalagsins, jafnt sem almennra skátafélaga og stofnana innan hreyfingarinnar, að vera yfir alla gagnrýni hafin og að öllu leyti í samræmi við lög og reglur. Þingið samþykkir að úttekt á fjárreiðum BÍS verði kláruð af óháðum endurskoðanda og skal sú úttekt kláruð svo fljótt er verða má.

Meirihluti þingfulltrúa samþykkti að lýsa yfir vanþóknun á starfsháttum og vinnubrögðum Braga Björnssonar fyrrv. skátahöfðingja við uppsögn Hermanns Sigurðssonar fv. framkvæmdastjóra BÍS.

Þá var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða áskorun til stjórnar BÍS um að draga uppsögn Hermanns Sigurðssonar fv. framkvæmdastjóra til baka.

Fyrir þingið var lögð fram ályktun um að beina því til stjórnar BÍS að hún skerpi áherslur, verkferla og viðbrögð hreyfingarinnar gegn einelti og öðru ofbeldi.

Sérstaklega skuli horft til þessara þátta:

Siðferðisleg gildi skuli höfð að leiðarljósi í allri meðferð allra slíkra mála

Verkferlar mála séu unnir á faglegan, upplýstan og gegnsæjan hátt

Meintir þolendur skuli njóti vafans

Ályktunin var samþykkt með lófaklappi.

 

Á næstkomandi skátaþingi var áætlað að kjósa um sæti aðstoðarskátahöfðingja, formanns ungmennaráðs og formanns upplýsingaráðs. Eftir að skátahöfðingi steig til hliðar í janúar sl. bættist það sæti við kjörlistann. Borist hafa tilkynningar frá formanni alþjóðaráðs, Jóni Þór Gunnarssyni, gjaldkera, Sonju Kjartansdóttur og formanni fræðsluráðs, Ólafi Proppé um að þau gefi kost á sér á ný og sækist eftir endurnýjuðu umboði á komandi skátaþingi en þau hafa ekki lokið kjörtímabilum sínum. Formaður dagsskrárráðs, Una Guðlaug Sveinsdóttir, sem á eitt ár eftir af sínu kjörtímabili, tilkynnti á þinginu að hún ætli að hætta í stjórn í mars og sjái sér ekki fært að klára tímabilið.  Ljóst er að miklar mannabreytingar verða í stjórn og nefndum BÍS því á skátaþinginu verður kosið um 17 embætti. Öll sæti í sjö ráðum Bandalagsins eru í kjöri á hverju ári svo þar bætast 28 sæti við. Áhugasömum er bent á að hafa samband við uppstillingarnefnd, sjá nánar tilkynningu nefndarinnar.

Nú eru félög um land allt að halda aðalfundi og skila inn gögnum til BÍS því næsta skátaþing verður eftir mánuð á Akureyri, nánari upplýsingar um þingið verða birtar á skátamál.is fljótlega. Sjá nánar reglur um Skátaþing í greinum nr. 16-20 hér.

 

Skátamiðstöðin í jólafrí
Vegna leyfa starfsfólks verður starfsemi Skátamiðstöðvarinnar í lágmarki dagana
27. desember -2. janúar. Við munum þó svara tölvupóstum og ef erindið er brýnt er bent á skatar@skatar.is

Ef þér finnst þessi staðhæfing rétt þarftu ekki að lesa áfram

Nokkur skátafélög á landinu hafa virkjað krafta fullorðinna sjálfboðaliða og eru með starfandi skátasveitir fyrir fullorðna. Þar sækja fullorðnir sér fræðslu, hafa gaman saman og fá að tilheyra, gefa af sér og njóta samveru með börnum sínum og ungmennum. Þessi sömu skátafélög geta státað af öflugu starfi og fjölgun iðkenda sl. ár.

Það er nefnilega þannig að öflugt skátastarf er ekki mögulegt nema með aðkomu fullorðinna og við sem vinnum sem fullorðnir sjálfboðaliðar vitum hversu gefandi þetta starf er – en einnig hversu nauðsynlegt það er til að halda uppi ábyrgu og flottu skátastarfi.

Á skátaþingi 2015 var samþykkt stefnumótun fyrir skátastarf og framtíðarsýn til ársins 2020. Þar segir m.a.:

Árið 2020 verður skátahreyfingin á Íslandi orðin þekkt af stjórnvöldum og almenningi í landinu sem ein fremsta uppeldishreyfing á Íslandi með um 5000 starfandi skátum í öllum helstu þéttbýliskjörnum landsins, sem deila sameiginlegum gildum og hafa áhrif til góðs í samfélagi sínu og í heiminum öllum.

Til þess að fjölga skátum og efla gæði skátastarfs þarf að fjölga verulega fullorðnum sjálfboðaliðum í skátastarfi.

Og hvernig gerum við það?

Fræðsluráð ætlar á næstu misserum að aðstoða skátafélög við að fjölga fullorðnum sjálfboðaliðum til að efla skátastarfið í skátafélögunum og þannig á landinu öllu.

Unnin hefur verið áætlun og samþykkt af stjórn BÍS, um hvernig komið verði á fót öflugu „mannauðskerfi skáta“:

 • Október 2016: Útgáfa á íslenskri þýðingu kynningarbæklings frá WOSM um sjálfboðaliða. Bæklinginn má finna í vefútgáfu hér.  sjalfbodalidar-forsida
 • Október – desember 2016: Viðræður við félagsforingja allra skátafélaga þar sem verkefnið er kynnt. Fulltrúar fræðsluráðs eru að hitta félagsforingja þessa dagana.
 • Desember 2016: Útgáfa á handbók fyrir fyrirliða sjálfboðastarfs.
 • Janúar 2017: Búið að skipa fyrirliða sjálfboðastarfs í skátafélögum.
 • Febrúar – mars 2017: Námskeið fyrir fyrirliða sjálfboðastarfs.
 • Maí 2017: „Mannauðskerfi skáta“ fullmótað og þarfagreiningar fyrir sjálfboðaliða tilbúnar.

Og hvað á hann svo að gera þessi „fyrirliði sjálfboðastarfs“?

Meðal þeirra verkefna sem gætu verið á höndum fyrirliða sjálfboðastarfs eru:

 • Hafa yfirumsjón með mannauðskerfi skátafélagsins og halda utan um framkvæmd þess í félaginu.
 • Halda utan um lista yfir þarfir skátafélagsins fyrir sjálfboðaliða (í hvaða hlutverk/verkefni vantar sjálfboðaliða?).
 • Halda utan um nafnalista skátafélagsins (lifandi listi þar sem safnað er saman allt árið um kring nöfnum einstaklinga sem mögulega koma til greina fyrir ýmis verkefni).
 • Taka þátt í því að velja hæfa sjálfboðaliða (af nafnalistanum) í tiltekin hlutverk og gera við þá samkomulag um afmörkuð verkefni.
 • Stýra kynningarfundum fyrir fullorðna, til að kveikja áhuga þeirra á að taka þátt í skátastarfi eða aðstoða við ákveðin verkefni.
 • Taka þátt í samstarfi með fyrirliðum sjálfboðaliða í öðrum skátafélögum, fræðsluráði BÍS, stjórn Gilwell-skólans og starfsfólki Skátamiðstöðvarinnar.

Þarf hann að vera ofurskáti þessi „fyrirliði sjálfboðastarfs“?

Nei, því fyrirliðinn getur verið eldri félagi, einhver úr hópi foreldra eða einhver sem nú þegar situr í stjórn félagsins sem tekur verkefnið að sér.

Hvernig væri að heyra í honum Kalla sem langar að vera með en hefur ekki alveg tíma fyrir vikulega fundi? Eða Stínu sem er snillingur í að tala við fólk og virkja það til góðra verka?

Viltu vita meira?

Verkefnið er á ábyrgð Fræðsluráðs BÍS og munu sjálfboðaliðar úr ráðinu og stjórn Gilwell-skólans, ásamt Dagbjörtu Brynjarsdóttur verkefnastjóra fræðslu- og dagskrármála í Skátamiðstöðinni, vinna með félagsforingjum að verkefninu, vera þeim til stuðnings í upphafi og starfa með og styðja við bakið á fyrirliðunum eftir að þeir hafa verið skipaðir.

Ef þig langar að vita meira eða leggja okkur lið þá hafðu endilega samband við okkur og við upplýsum þig og/eða virkjum krafta þína.

Hér má sjá greinar sem birst hafa á vefmiðlum skátanna um fullorðna í skátastarfi síðustu mánuði.

:: Fornmenn fóru að iðrum jarðar 

:: 5000 skátar fyrir 2020, en hvernig?

 

 

Kveðja frá Bandalagi íslenskra skáta

Gunnar var virkur í skátastarfinu í Keflavík í æsku og kom svo aftur til starfa á fullorðinsaldri þegar til hans var leitað og hann beðinn að taka að sér formennsku í stjórn Bandalags íslenskra skáta, en hann var skátahöfðingi á árunum 1988-1995.

Gunnar var drífandi og átti auðvelt með að hrífa fólk með sér og sáust þess merki í starfi hans í stjórn BÍS.

Bandalag íslenskra skáta vill þakka Gunnari óeigingjarnt starf í þágu skátahreyfingarinnar og sendir fjölskyldunni samúðarkveðjur.

 

Bragi Björnsson

skátahöfðingi