Allar tilkynningar og annað sem skrifað er.

Ágæti skáti
Okkur langar með þessum pósti til að kynna þér félagsskap sem kallast Friends of Scouting in Europe (FOSE). Tilgangur félagsins var í upphafi að styðja við uppbyggingu skátastarfs í mið- og austur Evrópu, þar sem skátastarf var bannað til langs tíma, en nú hefur þessu verið breytt þannig að skátahópar um alla Evrópu geta sótt um styrki til félagsins og sjóðsins sem byggður hefur verið upp og kallast European Scout Foundation.

Stofnandi og formaður félagsins, Jörgen Guldborg Rasmussen, sem er Dani og fyrrverandi framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu WOSM, er væntanlegur hingað til lands miðvikudaginn 30. apríl næstkomandi og því langar okkur til þess að bjóða þér að koma til móttöku sem haldin verður í Skátamiðstöðinni Hraunbæ 123 miðvikudaginn 30. apríl kl. 20:30. Í þessari móttöku verða nýir félagar sérstaklega boðnir velkomnir.

Meðfylgjandi er upplýsingabréf um starfsemi félagsins, en einnig má finna upplýsingar um hana á www.europeanscoutfoundation.org/fose/  Takist okkur að stækka íslenska hópinn er hugmyndin að halda einn til tvo félagsfundi á ári, en engin skuldbinding fylgir þátttöku önnur en sú að greiða félagsgjaldið.

Vonandi sérð þú þér fært að koma í hóp Friends of Scouting in Europe og hér fyrir neðan eru tvær leiðir sem færar eru til þess að greiða félagsgjaldið. Unnt er að vera „Friend“ og greiða árlega EUR 150,- eða „Life Member“ og greiða einu sinni EUR 2.000,-.

Nánari upplýsingar veita undirrituð

Við vonumst til þess að sem flestir sjái sér fært að vera með í þessu og styðja þannig við uppbyggingu skátastarfs í Evrópu. Við hlökkum til að sjá þig í Skátamiðstöðinni Hraunbæ 123, miðvikudaginn 30. apríl kl. 20:30!

Með skátakveðju,

Hulda Sólrún Guðmundsdóttir hulda@hulda.is

Þorsteinn Fr. Sigurðsson thorsteinnfr@simnet.is

Júlíus Aðalsteinsson julius@skatar.is

 

Hér með er auglýst eftir áhugasömum skátum sem vilja starfa með aðstoðarskátahöfðingja í vinnuhópnum Félagsráð Bandalags íslenskra skáta.  Hlutverk hópsins er að vera aðstoðarskátahöfðingja til ráðgjafar og aðstoðar, líkt og gildir um fastaráð BÍS.

Leitað er að 4 einstaklingum til þess að starfa í vinnuhópnum í eitt ár.  Aðstoðarskátahöfðingi í samráði við stjórn BÍS mun skipa vinnuhópinn, en leitast verður við að hafa sem breiðastan hóp með bakgrunn í daglegum rekstri skátafélaga. Vinnuhópnum Félagsráð BÍS er heimilt að leita til fleiri einstaklinga eftir aðstoð og stuðningi.

Skv. núgildandi lögum BÍS er hlutverk aðstoðarskátahöfðingja meðal annars að sjá um tengslin við skátafélögin í landinu. Eitt af verkefnum hans er stuðningur við skátafélögin og verður það megin áhersla í starfi vinnuhópsins Félagsráð BÍS næsta árið.

Umsóknum skal skilað til félagsmálastjóra BÍS, Júlíusar Aðalsteinssonar, á netfangið julius@skatar.is í seinasta lagi mánudaginn 28. apríl. Vinsamlegast merkið erindið ”félagsráð”. Fram skulu koma upplýsingar um fyrri reynslu úr skátastarfi sem og annarri reynslu sem gæti nýtst í þessu starfi.

Með skátakveðju

Fríður Finna Sigurðardóttir, aðstoðarskátahöfðingi.

Á mánudaginn ætlum við að hita súpupotinn í síðasta sinn fyrir sumarfrí.

Húsið opnar kl. 11:30 og borðhaldið hefst kl. 12:00 eins og alltaf.

Júlíus ætlar að fræða okkum um niðurstöður og ályktanir frá Skátaþingi 2014 sem fram fór um síðustu helgi

Hlökkum til að sjá ykkur.

Undirbúningshópurinn