Skátastarf á Íslandi er 105 ára í dag og það er hægt að líta björtum augum til framtíðar. Skátastarf á erindi til ungmenna í dag alveg eins og það gerði fyrir hundrað árum. Það er verkefni okkar sem að skátastarfi stöndum að tryggja það að skátastarf sé traustur og öruggur vettvangur fyrir ungmenni til að eiga margar af bestu stundum lífs síns, öðlast aukið sjálfstraust, meiri víðsýni, meiri gleði og vaxa á alla vegu. Það tryggjum við með því að gera hlutina vel og hlúa að kjarnanum. Ef kjarninn er í lagi stækkar hann af sjálfu sér.

Til hamingju með afmælið!

Marta Magnúsdóttir,
skátahöfðingi

Ungmennastarf Rauða krossins ætla að setja upp leikinn „Á Flótta“ þann 4. nóvember nk. Þau vilja fá með sér skáta á rekka- og róverskátaaldri, þ.e. frá 15 ára, sem þátttakendur í leiknum.

Leikurinn fer fram í Klébergsskóla á Kjalarnesi þann 4. nóvember næstkomandi. Þátttakendur eru settir í spor flóttafólks í þann tíma sem leikurinn tekur, og ganga í gegn um raunir á borð við erfið ferðalög og óvissu um örlg sín. Markmiðin eru að efla samkennd ungs fólks á Íslandi með flóttafólki, og kveikja áhuga og eldmóð á þeim málaflokki. Leikinn teljum við minnisstæða upplifun sem sé betur fallinn til þess heldur en fræðsla af öðru og rólegra tagi.

Leikurinn verður haldinn eins og áður er ritað, í Klébergsskóla á Kjalarnesi og hefst laugardaginn 4. nóvember kl 19:00 og tekur um 12 klst. í spilun. Boðið verður upp á rútu frá Reykjavíkursvæðinu fyrir þátttakendur.

Pláss er fyrir 35 þátttakendur í leiknum, fyrstur kemur fyrstur fær.

:: SKRÁNING FER FRAM HÉR HJÁ RAUÐA KROSSINUM

Leikurinn veðrur kynntur fyrir forráðamönnum þátttakenda sem eru yngri en 18 ára vikur fyrir liek, og þurfa þeir sem eru undir 18 ára aldri að skila leyfi foreldra fyrir þátttöku.

Skráningargjald er kr. 1.000,-

Frekari upplýsingar hjá thorsteinn@redkross.is

 

Kæru skátasystkini,

Gengið hefur verið frá ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra skáta. Staða framkvæmdastjóra var auglýst og eftir ráðningaferli var ákveðið að ráða Kristinn Ólafsson viðskiptafræðing og starfandi framkvæmdastjóra Grænna skáta.

Kristinn hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, framkvæmdastjóri hjá augnlæknastöðinni Sjónlagi og sem verkefnastjóri hjá Capacent Gallup.

Kristinn starfaði sem skáti með Ægisbúum hér á árum áður og hefur verið virkur í Hjálparsveit skáta í Reykjavík í 37 ár. Á árunum 2014-2016 var Kristinn gjaldkeri í stjórn BÍS.

Stjórn BÍS þakkar Hermanni Sigurðssyni fráfarandi framkvæmdastjóra BÍS fyrir hans góðu störf. Hann hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og óskum við honum velfarnaðar í starfi.


Kristinn mun hefja störf sem framkvæmdastjóri BÍS 1. nóvember. Við bjóðum hann innilega velkominn til aukinna starfa fyrir skátana á Íslandi og hlökkum til að vinna öll saman að því að efla skátastarf á Íslandi.

Forvarnardagur 2017 verður haldinn miðvikudaginn 4. október næstkomandi. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.

Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis.

  • Rannsóknir hafa leitt í ljós að unglingar foreldra sem vita gjarnan hvar þeir eru á kvöldin og með hverjum, eru ólíklegri til að neyta áfengis og vímuefna en þeir unglingar sem eru undir minna eftirliti.
  • Því meiri tíma sem foreldrar verja með unglingum því ólíklegra er að þeir leiðist út í áfengis- og vímuefnaneyslu.
  • Þeir unglingar sem telja sig auðveldlega geta fengið stuðning frá foreldrum sínum eru ólíklegri en aðrir til að leiðast inn á braut áfengis- og vímuefnaneyslu.
  • Foreldrar sem þekkja aðra foreldra í hverfinu og vini barna sinna draga úr líkum á því að unglingarnir ánetjist áfengi og vímuefnum. Það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn.
  • Samstarf foreldra, þar með talið þátttaka í skólastarfi, æskulýðs- og íþróttastarfi og foreldrarölt, er mjög af hinu góðu. Þekktu foreldra skólafélaga og vina unglinga þinna og vertu hluti af samfélagi og neti foreldra. Láttu þig varða hag unglinga almennt.
  • Unglingar sem stunda skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf undir leiðsögn ábyrgra aðila eru ólíklegri til að leiðast út í áfengis- eða vímuefnaneyslu eða aðra óæskilega hegðun.
  • Því lengur sem unglingar sniðganga áfengi því ólíklegra er að þeir ánetjist áfengi eða vímuefnum. Hvert ár skiptir máli.
  • Öflugt forvarnarstarf þarf að beinast að því að bæta umhverfi unglinga. Miklu skiptir að allir vinni saman; foreldrar, kennarar og þeir sem skipuleggja íþrótta- og æskulýðsstarf. Allir þessir aðilar verða að leggjast á eitt eigi góður árangur að nást. Forvarnarstarf er grasrótarstarf.

Frekari upplýsingar um Forvarnardaginn má finna á vefsíðu átaksins. 

Þar má einnig finna skemmtilegan netratleik með flottum vinningum fyrir ungt fólk fætt 2000-2003. 

 

25. september sendi Stjórn Æskulýðsvettvangsins frá sér áskorun til yfirvalda sem hljómar svona:

 

Vegna ítrekaðara frétta af kynferðisafbrotamönnum og barnaníðingum sem hafa fengið uppreist æru og öðlast starfsréttindi sín á ný og þar með átt auðvelt með að snúa til fyrri starfa vill Æskulýðsvettvangurinn koma eftirfarandi áskorun til yfirvalda á framfæri.

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 segir í 3. – 4. mgr. 10. gr.: „Óheimilt er að ráða til starfa hjá aðilum, sem 2.gr. tekur til og sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í æskulýðsstarfi, einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegnar brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940“ sem fjallar um kynferðisbrot.

Öll aðildarfélög Æskulýðsvettvangsins gera þá kröfu til sinna sjálfboðaliða og starfsmanna sem vinna með börnum og ungmennum að þeir skili inn samþykkt fyrir því að þeirra aðildarfélag hafi heimild til að sækja upplýsingar úr sakaskrá um hvort þeir hafi hlotið slíkan refsidóm.

Æskulýðsvettvangurinn hefur um árabil barist fyrir því að ferlið til uppflettingar úr sakaskrá ríkisins verði einfaldara og skilvirkara m.a. á þann veg að aðildarfélög geti gert það rafrænt. Sú vinna hefur ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir og eru það mikil vonbrigði þar sem um er að ræða eitt stærsta barnaverndarmál íslensks samfélags.

Af fréttaflutningi síðustu daga er ljóst að enn fleiri galla má finna á kerfinu sem á að sinna eftirliti og forvörnum þegar kemur að því að tryggja hagsmuni barna og ungmenna. Í ljósi þess skorar stjórn Æskulýðsvettvangsins á íslensk yfirvöld að bregðast strax við og koma þeim forvörnum og því eftirliti sem þeim ber að sinna í lag. Stjórnin skorar á yfirvöld að ljúka ferlinu um rafræna uppflettingu í sakaskrá og grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að þeir sem hafa gerst sekir um kynferðisbrot komist ekki í starf með börnum og ungmennum. Slíkt á aldrei að vera möguleiki, börnin eiga alltaf að njóta vafans.

Eins og áður er Æskulýðsvettvangurinn tilbúinn til samvinnu við yfirvöld við að ljúka þessum málum.

 

F.h. Æskulýðsvettvangsins,

___________________________
Auður Inga Þorsteinsdóttir,
Formaður Æskulýðsvettvangsins

 

Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagins Landsbjargar. Hlutverk Æskulýðsvettvangsins er að standa vörð um hagsmuni barna og ungmenna og stuðla að heilbrigðum, uppbyggjandi og vönduðum aðstæðum í æskulýðsstarfi. Tilgangur og markmið félagsins er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna m.a. á sviði fræðslu- og forvarnarmála er snúa að hagsmunum barna og ungmenna í æskulýðsstarfi.

 

:: Smellið hér fyrir heimasíðu Æskulýðsvettvangsins

:: Smellið hér fyrir „ábyrgt æskulýðsstarf“( lög og reglugerðir BÍS) er varðar vinnu með börnum og ungmennum