Reykjavíkurborg hefur gert samkomulag við Bandalag íslenskra skáta (BÍS) varðandi World Scout Moot sem haldið verður á Íslandi nú í sumar. Er það langstærsti viðburður sem íslenska skátahreyfingin hefur tekið að sér.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hrönn Pétursdóttir, mótsstjóri World Scout Moot undirrituðu samkomulagið. Reykjavíkurborg mun styrkja mótið með endurgjaldslausum afnotum af húsnæði Íþrótta- og sýningarhallarinnar og vegna sundlauga og fleira samkvæmt nánara samkomulagi og kostnaðaráætlun á milli BÍS og íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar (ÍTR). ÍTR mun hafa umsjón með þeim hluta samningsins fyrir hönd borgarinnar.

Bandalag íslenskra skáta mun einnig fá afnot af skólahúsnæði í Reykjavík fyrir gistingu þátttakenda samkvæmt nánara samkomulagi við skóla- og frístundasvið.

Skátarnir munu leggja fram vinnu við samfélags- og umhverfisþjónustu á tímabilintu 25. – 29. júlí, allt að ígildi 2.000 vinnustunda.
Skátarnir munu beita sér fyrir því að kynna Reykjavíkurborg sem best í sambandi við mótið og er m.a. gert ráð fyrir sérstakri kynningu á borginni á erlendri grund vegna þátttöku annarra þjóða á mótinu.

Bandalag íslenskra skáta mun tryggja  að merki borgarinnar verði notað á viðeigandi hátt í tengslum við mótið.

Risamót á vegum heimssamtaka skáta

Þetta er í fimmtánda sinn sem World Scout Moot er haldið og eru íslenskir skátar gestgjafar að þessu sinni. Mótið er haldið á vegum heimssamtaka skáta, World Organization of the Scout Movement (WOSM) og er heimsmót eldri skáta. Þátttakendur er ungt fólk á aldrinum 18 – 25 ára auk sjálfboðaliða 26 ára og eldri. Um er að ræða eitt stærsta einstaka verkefni skátahreyfingarinnar í 100 ára sögu hennar á Íslandi. Jafnframt stefnir í stærsta heimsmót eldri skáta sem haldið hefur verið frá því að fyrsta mótið var haldið 1931. Mótið er að öllu jöfnu haldið á fjögurra ára fresti, á mismunandi stöðum í heiminum.

Yfir fimm þúsund skátar frá yfir 100 löndum sækja mótið hérlendis. Um 450 Ástralir, 360 Svisslendingar og 300 Brasilíumenn mæta til leiks, 85 frá Hong Kong og 15 frá Suður Afríku.  Lang stærsti hópurinn kemur frá Bretlandi eða um 650 manns. Um 100 íslenskir skátar taka þátt.

Reyna að gera upplifun gestanna ógleymanlega

Yfir 300 íslenskir skátar hafa sinnt undirbúningi og skipulagningu mótsins frá árinu 2013 og vinna að því að gera upplifun þátttakenda ógleymanlega.
Þema mótsins er Change – Inspired by Iceland og að sögn skátanna er hægt að nýta það á margvíslegan hátt en það passar vel við það markmið skátahreyfingarinnar að gera heiminn að betri stað.

Mótið stendur yfir í níu daga frá 25. júlí – 2. ágúst 2017, en um 650 manns koma erlendis frá til að aðstoða við framkvæmd þess. Mótið verður sett í Laugardalnum. Í framhaldinu dreifast þátttakendur á ellefu miðstöðvar víðsvegar um landið. Miðstöðvarnar eru í Reykjavík, Akureyri, Hafnarfirði, Þingvöllum, Skaftafelli, Heimalandi, Vestmannaeyjum, Selfossi, Akranesi, Hveragerði og í Hólaskjóli. Þar munu þátttakendur taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Þeir munu einnig leggja samfélaginu lið með 20.000 vinnustundum í sjálfboðavinnu fyrir nærsamfélög einstakra miðstöðva, slík verkefni eru t.d. göngustígagerð og hreinsun stranda svo fátt eitt sé nefnt.

Sameinast á Úlfljótsvatni

Síðari  hluta mótsins sameinast þátttakendur á Úlfljótsvatni, þar sem skátarnir hafa byggt upp starfsemi frá árinu 1941. Mikil uppbygging hefur verið á Úlfljótsvatni í tengslum við mótið en farið hefur verið í framkvæmdir fyrir um 50 millónir króna.  Á Úlfljótsvatni verður fjölbreytt dagskrá fyrir þátttakendur. Mótinu verður slitið á Úlfljótsvatni 2. ágúst. Margir þátttakendur ferðast um Ísland fyrir eða eftir mótið. Að meðaltali eru þátttakendur á landinu í um þrjár vikur. Áætlaðar gjaldeyristekjur af mótinu eru yfir tveir milljarðar króna  en af því eru yfir 500 milljónir í beinan kostnað vegna mótsins.
Frekari upplýsingar um mótið er hægt að finna á heimasíðu þess.

Það er mikið fjör þessa dagana á Moot skrifstofunni í Skátamiðstöðinni. Gríðarlegur fjöldi fyrirspurna berst á hverum degi eftir því sem nær dregur stóru stundinni að 15th World Scout Moot byrji þann 25. júlí nk. Að mörgu er að hyggja varðandi undirbúning og stuðning við komu 5000 skáta til landsins í júlí.

Skátamál leitaði viðbragða hjá Jóni Ingvari Bragasyni framkvæmdastjóra World Scout Moot við nýjustu uppákomunni þegar starfsmenn brugðu sér í björgunarvesti í tilefni dagsins “já við sáum hreinlega enga aðra leið þegar okkur beið ókleift fjall tölvupósta eftir helgina og úti voru viðvaranir um skæða tölvuárásir. Við skelltum okkur bara í vestin og sigldum á móti straumnum og erum farin að sjá til lands”.

Hlutverk moot skrifstofunnar er að tryggja stuðning við þá 200 sjálfboðaliða sem vinna nú baki brotnu að undirbúningi mótsins. Verið er að tryggja aðföng mótsins allt frá tjöldum, til merkinga til sérstakra standa fyrir svokölluð “squat toilets”.

Dagarnir eru oft langir hjá okkur og óvæntir hlutir sem koma upp, yfirleitt fæ ég skilaboð öllum tímum sólarhringsins þar sem fararstjórar þeirra 100 landa sem koma eru að biðja um upplýsingar. Segir Jón Ingvar og bætir við að eitt það besta var sl. föstudagskvöld þegar fararstjóri heimtaði að fá að borga fyrir 29 skáta og það helst strax en gleymdi sjálfur að ganga frá formlegri skráningu.

 

:: Heimasíða Moot

Þótt Landsmóti skáta 2016 sé lokið er ekki þar með sagt að skátastarf liggi niðri.

Nokkrir hópar hafa farið, eru núna eða eru á leiðinni utan til að taka þátt skátamótum og viðburðum erlendis:

19. júlí fóru 27 dróttskátar úr Kópum á Blair Athol flokkamót í Skotlandi.

Sama dag og Landsmóti skáta lauk – þann 24. júlí voru 17 skátar mættir í Leifsstöð á hádegi til að taka þátt í Euro Mini Jam 2016 í Mónakó. Euro Mini Jam eru smáþjóðaleikar skáta í Evrópu. Það voru skátar úr Mosverjum og Stíganda sem tóku þátt í þetta sinn. Myndir úr þeirri ferð má finna hér.

Roverway 2016 fer svo fram í Frakklandi þessa dagana og þar taka 47 íslenskir skátar þátt. Hér má sjá myndir og frásagnir frá þeim. Þó skal haft í huga að þátttakendur eru á minni dagskrársvæðum fram til 10. ágúst og þá hafa þau ekki tækifæri til að deila myndum. Það verður eflaust mikið að gera á síðunni eftir það.

Vegna frágangs eftir vel heppnað Landsmót skáta 2016 verður Skátamiðstöðin lokuð fram yfir verslunarmannahelgi.

Á Úlfljótsvatni verður öllu til tjaldað á hinni árlegu fjölskylduhátíð um verslunarmannahelgina. Þar verður fjölbreytt dagskrá fyrir unga fólkið alla daga, sjá nánar hér.

Neyðarsímar Skátamiðstöðvarinnar: Hermann 693-3836, Sigríður 862-5513

Í dag er opinn dagur hjá okkur og bjóðum við gestum og gangadi að kíkja við hjá okkur og mæta í opna dagskrá, opin dagskrá þýðir að þið getið komið og prófað brot af því besta í dagskránni sem að skátarnir tókust á í liðinni viku til dæmis klifra í klifurturninum, elda brauð við opinn eld, sigla bátum og margt fleira. Dagskráin fer fram á svæði sem heitir í daglegu máli Hvítasunnuflötin en núna meðan mótið stendur heitir svæðið Evrópa (sjá kort merkt B). Opna dagskráin er í boði frá kl. 14-18 í dag.

Vegna slæms ástands á veginum á Nesjavallarleiðinni, mælum við með að fólk keyri Hellisheiðina frekar til að koma til okkar á Úlfljótsvatn. Bílastæðin eru einnig merkt á kortinu og biðjum við fólk að leggja bílum þar en ekki upp á vegi þar það getur skapað hættu og minnum við á að keyra varlega á svæðinu þar sem börn geta verið á ferð. Þar sem var sem veðráttan á Íslandi er breytileg mælum við með að fólk klæði sig eftir veðri.