Fréttir af starfi einstakra skátafélaga.

Landnemamót er skátamót sem haldið er í Viðey, ár hvert, fyrir alla fálkaskáta og eldri á landinu. Að þessu sinni voru það hátt í 100 skátar frá um 15 félögum sem tóku þátt í mótinu.

Dansað á bryggjuballinu…

Fótboltamótið, víkingaleikarnir, langeldurinn og kvöldvakan voru að sjálfsögðu á sínum stað en hápunktur helgarinnar var að dansa á bryggjuballinu við tóna frá Dj Mörtu Skátahöfðingja.

Þema mótsins í ár var heimsborgari og fengu þátttakendurnir að fara hringin í kringum jörðina á einna helgi. Þeir fengu að elda elda framandi mat, fara í jóga, ferðast til mismunandi landa í Ticket to Ride og taka þátt í heimsborgara pop-quizinu á Jonna bita svo eitthvað sé nefnt.

Hér má heyra mótslagið í ár.

Myndir: Halldór Valberg

Þann 22. maí 2017 eru liðin hundrað ár frá upphafi skátastarfs á Akureyri.   

Skátafélagið Klakkur bauð til afmælisveislu sunnudaginn 21. maí. Margt var um mannin í afmælisfagnaðinum og mættu margir ungir og „minna ungir“ skátar. Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi hélt tölu og heiðraði nokkra skáta fyrir vel unnin störf.

En, þrátt fyrir háan aldur eru skátar á Akureyri enn ung. Skátafélagið Klakkur, sem fagnar líka 30 ára afmæli á þessu ári, er nú í vexti og lítur björtum augum fram á veginn. Verkefnin eru mörg og skemmtileg. Þar má til dæmis nefna afmælisútilegu sem verður haldin að Hömrum þann 18. ágúst næstkomandi.

Þá býður Klakkur öllum í skáta-útilegu. Frekari upplýsingar um það þegar nær dregur.

 

Skátafélagið Kópar býður öllum skátum í fjölskylduferð

Fimmtudaginn 25. maí (uppstigningardag) verður farin fjölskylduferð í skátaskálann Þrist sem er í eigu Kópa.

Hist verður við Hrafnhóla klukkan 12:00, þaðan geta þeir sem vilja gengið að skálanum (ca. 30-40 mín), en líka er hægt að keyra nær, jafnvel upp að gili og rölta þaðan.

Í Þristi verður boðið upp á smá hressinu (kakó, kaffi og meðlæti) en mælt er með að taka með nesti. Farið verður í leiki og sungið saman áður en haldið verður heim á leið.

Munum að klæða okkur eftir veðri.

Hlökkum til að sjá sem flesta

Staðsetning:Þristur er í Þverárdal undir Móskarðshnúkum.

Akstur: Ekið er sem leið liggur inn Mosfellsdalinn, framhjá Gljúfrasteini og u.þ.b. 2 km til viðbótar. Þá er afleggjari til vinstri (í norður) og við hann stendur rafmagnsskúr sem er A-hús. Ekið er upp þann afleggjara þar til komið er að bænum Hrafnhólum. Þar er farið niður fyrir bæinn meðfram ánni og þegar komið er að vaði yfir ánna er EKKI farið lengra heldur farið í gegnum hlið sem er þar hægra megin. Þá er ekið eins og leið liggur eftir veginum þangað til komið er að stóru gili. Þar er best að leggja bílnum og ganga síðasta spölin sem er u.þ.b. 300 m./ 10 mín ganga.  Á sumrin er hægt að komast að planinu við gilið á fólksbíl/góðum jeppa en á veturna er það ekki ráðlagt.  Snjór er ruddur að Hrafnhólum og er um 30 mínútna gangur þaðan að skála

Skátar fagna sumarkomu og halda Sumardaginn fyrsta hátíðlegan á margvíslegan hátt. Skátar hafa sett svip sinn á hátíðarhöld um allt land frá upphafi skátastarfs á Íslandi.

Sumardagurinn fyrsti er dagur barnanna og af því tilefni gefa Skátarnir og Eimskip öllum börnum í öðrum bekk allra grunnskóla landsins íslenskan fána til að nota í tilefni dagsins.

Mikið er um að vera fyrir börnin á þessum skemmtilega degi. Skrúðgöngur, hoppukastalar, skátafjör og margt, margt fleira.

Skátarnir hvetja landsmenn til að fagna sumri með fánum og fjöri. Samverustundir fjölskyldunnar eru dýrmætar og því um að gera að njóta dagsins saman.

Hér að neðan má sjá brot af þeim viðburðum sem Skátar um land allt standa fyrir.  

Einnig má hlaða niður pdf skjal með viðburðum dagsins.

 

Gleðilegt sumar!

Hátíðarhöld skátafélaga um land allt

Í gær fór fram kaffishúsakvöld í Skálanum, Skátaheimili Mosverja. Kaffishúsakvöldið var fjáröflunarkvöld fyrir Skálann, skátaheimili sem Mosverjar keyptu sl. haust. Síðustu vikur hafa farið í  að standsetja salinn í skátaheimilinu til þess að hægt verði að leigja hann út og þar með auðvelda reksturinn á húsinu.

Auglýsingin fyrir kvöldið lofaði m.a Bræðrabandinu, töfrabrögðum, leynigest og flugeldasýningu. Þar sem notkun flugelda er aðeins leyfð samkvæmt lögreglusamþykkt dagana 28.-31. desember og 6. janúar fór bara fram sýning á flugeldum. Þeim verður svo skotið upp 28. desember n.k.

Einnig var boðið upp á dýrindis veitingar: heitt kakó, vöfflur, kaffi og súkkulaðitertu.

Mosverjar vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra er lögðu leið sína í Skálann í gær og einnig sérstakar þakkir til allra þeirra er tróðu upp og skemmtu. Rikk Tikk fyrir þeim.

Að lokum skora Mosverjar á önnur félög að standa fyrir skemmtikvöldum svo við skátarnir getum haft gaman saman.