Á föstudaginn s.l. hélt ungmennaráð viðburðinn Róverskátaruglið. Þá fóru 30 róverskátar saman í trampolíngarðinn Skypark í Kópavogi. Það var mikið fjör í garðinum og skemmtu krakkarnir sér vel á trampolíninu. Þar var hoppað í heljarstökkum ofan í gryfjuna, farið í boðhlaup og keppt um hver næði að hoppa hæst og snerta loftið svo dæmi séu nefnd. Eftir að hafa verið í garðinum í rúman klukkutíma fóru krakkarnir svo í skátaheimili Segla þar sem pizzaveisla beið þeirra.

Það má svo sannarlega segja að viðburðurinn hafi heppnast vel og vonast ungmennaráð eftir því að geta haldið fleiri svipaða viðburði í framtíðinni!

 

 

Hér má sjá Birtu Mosverja leika listir sínar á trampolíninu!

Í gær var Rekka- og Róver Ruglið haldið í Landnemaheimilinu . Það voru um 15 skátar sem mættu og eyddu kvöldinu í að hlusta á 2-5 mínútna kynningar og lærðu eitthvað nýtt í leiðinni. Það var nefninlega þannig að hver sem vildi gat komið og verið með kynningu um hvað sem er. Meðal þessara kynninga voru leikir, jóðl kennsla, örfyrirlestur um hvernig á að hefja róverskátastarf og svo kennsla í að reima skó!

 

Það er aldrei of seint að læra að reima!

Hjálmar að kenna okkur hvernig á að hefja róverskátastarf.

 

Rekka- og róverskátar að skipuleggja sína eigin útilegur, viðburði og fundi?! Félagasokkar? Hobo-pie?
RUS dagurinn eða Rödd ungra skáta dagurinn var haldin af Ungmennaráði í skátaheimili Mosverja laugardaginn sl. Það voru um 24 rekka- og róverskátar sem mættu og fengu tækifæri til að skipuleggja sína eigin rekka- og róverdagskrá.

Hvað ætli hafi verið svona fyndið?

Undanfarna mánuði hefur rekka-og róverdagskrá mikið verið í umræðunni hjá skátahreyfingunni. Hvað vilja krakkarnir gera? Er of mikið eða of lítið af viðburðum í boði? Hvað er hægt að gera til að vera með skemmtilega dagskrá sem fær fólk til að mæta? Niðurstaðan er einföld. Krakkanir vilja fara að skipuleggja sína eigin dagskrá. Þau vilja halda meira af sjálfsprottnum viðburðum og vera með opna rekka- og róverfundi.

Hrafnkell að kynna hugmyndina sína um félagasokka

 

 

Á RUS-deginum fengu krakkarnir tækifæri á að skipuleggja einmitt það. Þeim var skipt í fjóra hópa. Fyrsti hópurinn sá um að skipuleggja útilegur/viðburði. Þau skipulögðu útilegu sem verður í júní á þessu ári þar sem krökkunum gefst tækifæri á vera úti, gista í tjaldi, ganga og takast á við skemmtilegar áskoranir. Annar hópurinn skipulagði opna fundi fyrir rekka- og róverskáta. Þar voru m.a. skipulagðir Disney- og íþróttafundir. Þriðji hópurinn var fyrir þá sem höfðu sínar eigin hugmyndir sem þau langaði að framkvæma. Þar kom upp sú hugmynd að hanna félagasokka – sokka fyrir hvert skátafélag í félagalitunum með logo skátafélagsins á hliðinni. Sú hugmynd er enn á hönnunarstigi en verður vonandi að veruleika bráðlega. Fjórði og síðasti hópurinn skipulagði svo dagskrá fyrir kvöldið og varð fyrir valinu að gera appelsínumöffins á kolum og horfa á Disney myndina Moana.

Þegar hóparnir voru búnir að skipuleggja verkefnin sín var farið í sund í Lágafellslaug. Eftir hressandi sundferð elduðu krakkarnir sér Hobo-pie í kvöldmat. Hvað er það eiginlega? Þá er blandað saman alls kyns grænmeti, kjöti, sósum og kryddi sem er eldað á kolum í álpappír og síðan borðað.

Að dagskrá lokinni fóru krakkarnir heim ánægðir með viðburðaríkan dag (no pun intended…). Fyrir þá sem komust ekki á RUS-daginn verða allir viðburðirnir auglýstir betur þegar nær dregur.

-Ungmennaráð

Það var hópurinn #svópur sem varði titilinn frá því í fyrra og vann ljósmyndamaraþon rekka- og róverskáta annað árið í röð.

Þó að það hafi ekki verið um margt að velja var valið alls ekki auðvelt sagði dómnefnd keppninnar á Facebook þar sem úrslitin voru kynnt. Keppendurnir stóðu sig öll mjög vel og skemmtu dómnefndinni með frumlegum og skemmtilegum myndum.

Hér fyrir neðan má sjá brot af myndunum sem voru send inn í keppnina.

Restina af myndunum má svo finna á Instagram undir myllumerkinu #skatamynd2017

#HnattrænHlýnun #skatamynd2017 #skatarnir #HinMyndarlegu

Framtíðin liggur í að geta spilað við sjálfann sig #svópur #skatamynd2017 #skatarnir #alvegeins

Framtíðin liggur í hellaðri týsku og menningarflæði #svópur #skatamynd2017 #skatarnir #hártískaframtíðarinnar

Framtíðin liggur í frægu múlan karakterum #svópur #skatamynd2017 #skatarnir #frægðin

#Ferðamáti #skatamynd2017 #skatarnir #HinMyndarlegu #Geimskip

 

 

 

 

 

 

 

Þrátt fyrir óveðursviðvaranir um allt land héldu vaskir skátar á viðburðinn Ungir talsmenn á Akureyri síðastliðna helgi (24.-26. febrúar). Viðburðinn, sem haldinn var í nýja glæsilega skátaheimili Klakks, Hyrnu á Akureyri, sóttu 12 rekka- og róverskátar víðsvegar að af landinu.  Margir gætu velt því fyrir sér hvað Ungir talsmenn er, en það er helgarnámskeið á vegum Bandalags íslenskra skáta þar sem skátarnir fá tækifæri til að læra um notkun samfélagsmiðla í þágu skátastarfs, myndatöku og framkomu í fjölmiðlum.

Brugðið á leik við Hamra

Framtíðarsýn?

Helgin hófst á föstudegi með kynningu á viðfangsefnum viðburðarins í formi ýmissa hópverkefna og glærukynninga. Skátunum var skipt í fjóra flokka sem hver um sig tók að sér samfélagsmiðil eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir. Eftir staðgóðan morgunverð á laugardagsmorgninum, hófst dagskrá dagsins með fyrirlestrinum Að vera virkur borgari sem var hollari en hafragrautur. Þar lærðum við hvernig skátar um allan heim taka virkan þátt í samfélaginu og hvernig við getum verið betri samfélagsþegnar í okkar samfélagi. Síðar um daginn eftir Carbonara dásemd fórum við í ævintýralandið Hamra þar sem ljósmyndakennsla Halldórs Valberg fyrr um daginn nýttist vel. Þar fengum við að leika lausum hala með myndavélar að vopni. Þeir sem fylgja Skátarnir á Snapchat, Instagram eða Facebook hafa líklegast ekki misst af því. Ekki örvænta Tryggvi Marinósson, framkvæmdarstjóri Hamra…. þó að við höfum stolið smjörklípu af þér fyrir lummugerð þá færðu það margfalt til baka með flottum auglýsingum af Hömrum í formi ljósmynda.

 

 

 

Næsta ævintýri fór fram í sundlaug Akureyrar þar sem meirihluti hópsins tók sér sundsprett og yljaði sér í heita pottinum. Þegar heim var komið beið heljarinnar pizzuveisla svangra þátttakenda. Þegar allir höfðu borðað nægju sína tók við valdagskrá af ýmsum toga. Í boði var að taka upp útvarpsþátt, læra að vera fyrir framan og aftan myndavélina í viðtali og skrifa þessa grein. Deginum lauk svo á rólegu nótunum þar sem þáttakendurnir hjúfruðu sig saman á vindsængum og svifu inn í draumalandið.


Það var um 9 leytið á sunnudagsmorgninum, þegar fyrstu þátttakendurnir vöknuðu, sem við áttuðum okkur á því að okkur var vandi á höndum. Allir vegir frá Öxnadalsheiði að Reykjavík voru lokaðir. Eftir að hafa talað við Vegagerðina fengum við þær upplýsingar að ef við værum ekki komin út úr Akureyri fyrir klukkan tvö yrðum við föst á þar fram á þriðjudag. Hvað gera skátar þá? Ákveðið var að klára tiltekt eins fljótt og hægt var og keyra sem fyrst suður. Þó að ævintýrið hafi endað fyrr en áætlað var þá komust allir sáttir heim, ánægðir með skemmtilegan og fræðandi viðburð, þrátt fyrir veður.

Þessi grein er því góð áminning að láta ekki eitthvað eins og veður koma í veg gott skátastarf. Við erum nú einu sinni skátar – ávallt viðbúnir er það ekki?

 

Þessi grein var skrifuð af skipuleggjendum og þátttakendum Ungra talsmanna; Sölku, Vigdísi Fríðu, Sæbjörgu, Fanneyju, Magnúsi og Sunnu Líf.

Það er laugardagurinn 11. febrúar. Ég vakna, lít á símann minn og sé að klukkan er 10. Ég kem mér fram úr rúminu, fæ mér morgunmat og geri mig klára í daginn. Ég rétt svo man að skella mér í skátaskyrtuna og setja á mig hátíðarklútinn áður en ég sest upp í bíl og keyri af stað. Stefnan er tekin á Hafnarfjörðin. Nánar tiltekið Hraunbyrgi (skátaheimili Hraunbúa). Það líður ekki langur tími þar til í ég sé stóra gráa húsið fram undan mér. Ég fer inn og sé að það eru um 10 manns nú þegar mættir. Eftir skamma stund stendur Berglind, formaður Ungmennaráðs upp og setur þingið.

Ég stend í miðjum hringnum með um 20 manns í kringum mig. Hvar er aftur Óli Björn? Ég reyni að slá hann með prikinu áður en hann segir næsta nafn. „Sæbjörg“ segir hann svo, rétt áður en ég næ honum. Mun ég einhvern tímann losna úr miðjunni? Við erum semsagt í nafnaleiknum Jónas og ég er hann… En áður en ég næ að koma næstu manneskju í miðjuna er tími komin að fara aftur inn og fá fræðslu um Skátaþing frá Baldri og Ylfu úr Segli. Það kom mér á óvart þegar kom í ljós að lang flestir í salnum höfðu áður farið á Skátaþing. „Áfram Unga fólkið!“Annars er ég núna orðin mun fróðari um Skátaþing og tilgang þess.

Hvað er stefnumótun BÍS? „Það eru markmið Bandalagsins fyrir árið 2020“ segir Berglind er hún segir okkur nánar frá þeim. Síðan er okkur skipt í þrjá hópa þar sem við ræðum spurningarnar „Hvað getur Bandalagið gert fyrir okkur?“ „Hvað geta félögin gert fyrir okkur?“ og að lokum „Hvað getum við sjálf gert?“. Eftir þessar umræður voru niðurstöður hvers hóps svo kynntar fyrir öllum hópnum. Ég get sagt ykkur að margar góðar hugmyndir komu fram en það tæki mig allan daginn að segja frá þeim öllum.

„Það eru komnar vöfflur“ heyrist úr eldhúsinu. Á næsta augnabliki koma Daði, Jón Egill og Ísak úr eldhúsinu með rjúkandi vöfflur, rjóma, sultu, súkkulaði, sykur og tilheyrandi. Það er komið kaffi! Aðeins seinna en áætlað var en óþarfi að fara nánar út í það… (það þarf annars 10L af vatni í vöffludeig er það ekki?)

Eftir kaffið fór ég svo fram á gang þar sem um helmingur krakkanna fór á trúnó með Ungmennaráði. Þar ræddum við um starf Ungmennaráðs og allt sem tengist rekka- og róverskátastarfi. Skemmtilegar umræður þar!

Klukkan er 16:40 og þingið er sett (Ef þið eruð orðin aðeins rugluð þá var núna verið að setja Ungmennaþingið. Hitt var bara dagskráin sem leiddi að Ungmennaþinginu). Þar sem ég nenni ekki að skrifa allt sem fór fram á þinginu get ég sagt ykkur að þingið studdi við tvær tillögur að lagabreytingu sem voru sendar inn á Skátaþing 2017. Síðan sagði Salka okkur hvað er helst á dagskrá fyrir rekka- og róverskáta á næstunni.

Klukkan 18:00 (slétt) var þinginu svo slitið. Þá var kominn tími til að fara heim á leið og borða kvöldmat með fjölskyldunni.

Ég vona samt að þið hafið haft gaman af því fylgjast með deginum mínum. Ég átti skemmtilegan dag á Ungmennaþingi og þakka fyrir mig!

 

Hérna má sjá Ungmennaráð BÍS sem stóð fyrir þinginu.