Tímabundið eða fyrir allt…?

Helgina 28.-30. mars sl. var Hrollur – ævintýraleg útivistaráskorun dróttskáta. Hvað er Hrollur? – Það er útivistarkeppni sem er haldin við Hleiðru á Hafravatni og svæðinu þar í kring. Markmiðið er að þátttakendurnir safni stigum yfir helgina með því að keppa í hinum ýmsu þrautum og að keppni lokinni er sigurliðunum verðlaunað með glæsilegum vinningum.
Hrollur 2017

Verið að undirbúa göngu laugardagsins…

Að þessu sinni voru það 25 hressir þátttakendur sem mættu í roki og rigningu við Hafravatnsafleggjarann á föstudeginum til að labba upp í Hleiðru þar sem þau gistu í tjöldum yfir helgina. Þegar tjöldin voru komin upp fór kvöldið í að skipuleggja gönguleið laugardagsins. Þá þurftu krakkarnir að rifja upp áttavitakunnáttu sína og geta tekið stefnu á korti til að geta skilað inn réttu tímaplani til foringjanna. Kunna ekki annars allir skátar það?…

Fyrsta liðið lagði af stað út í snjóinn og rokið klukkan 07:30 á laugardeginum í göngu um Hafravatn til að leysa pósta og lenda í ævintýrum. Hin liðin fylgdu síðan fljótt á eftir… Orðarugl, slúðurgerð, fjallgöngur, súrringar úr spagettí, prjón án prjóna, bootcamp og #TanSelfie var meðal þrautanna sem liðin þurftu að leysa á leiðinni til að safna stigum.

Hrollur 2017

Get ready, steady, GO! Sunnudagskeppnin að hefjast.

Þegar krakkarnir mættu aftur upp í skála að göngu lokinni klukkan 17:00 kom í ljós að aðeins 16 skátar höfðu „lifað af“ laugardaginn. Það voru nefninlega 9 skátar sem „dóu“ á leiðinni. Ekki örvænta, að „deyja“ á Hrolli þýðir einfaldlega að gefast upp og fara heim… Það voru því aðeins 5 lið (í stað 9) sem fengu hamborgaraveislu að göngu lokinni og tóku þátt í sleikjukeppninni um kvöldið. Hvað ætli það sé? Í sleikjukeppninni fá liðin 5 mínútur til að sleikja upp foringjana og láta þeim líða sem best. Því betri sem sleikjan er því fleiri stig.

Þegar búið var að ganga frá öllu á sunnudagsmorgninum var komið að ÓVÆNTU sunnudagskeppninni. Þar kepptust liðin um að vera fyrst til þess að leysa hinar ýmsu þrautir og fá sem flest stig. Í ár þurftu krakkarnir að elda súpu á prímus,
róa á kajökum á Hafravatni og súrra þrífót – allann tímann klædd í björgunarvesti.

Hrollur 2017

Sigurliðið, Penguinsquad með Herra Hroll.

Að lokum var komið að verðlaunaafhendingunni. Í fyrsta sinn í sögu Hrolls fór Herra Hrollur ekki heim í Mosfellsbæinn heldur í Víflaheimilið. Það var liðið Penguinsquad sem sigraði Hroll 2017 en í því voru 2 strákar úr skátafélaginu Vífli.  Mosverja liðið Mammaþín lenti í örðu sæti og TF-stuð úr Kópum lentu í 3 sæti.

 

Psst.. heyrst hefur að DS. Malmquist frá Klakki hafi verið með besta slúðrið.

Sjáumst aftur að ári! – Hrollsteymið.

Smáþjóðaleikar skáta eða Euro Mini Jam verða haldnir í þriðja sinn á næsta ári og þá í Mónakó, en leikarnir hafa áður verið haldnir á Íslandi og í Lichtenstein.
Skátar með trönur, sitt helsta byggingarefni

Skátar með trönur, sitt helsta byggingarefni

Sumarið 2013 fóru flokkar úr dróttskátasveitum Mosverja og Ægisbúa á Euro Mini Jam og við fengum ferðasögu sem Hulda María Valgeirsdóttir og Védís Helgadóttir  skrifuðu um mótið sem komu haldið var í Liechtenstein í lok júlí og komu þátttakendur þaðan sem og frá Mónakó, Lúxemborg og Íslandi. En þá að ferðasögunni:

Valslöngvubygging, spurningakeppni og fjársjóðsleit

Við mættum á mótssvæðið þar sem mikill hiti og myrkur tóku á móti okkur. Á næstu dögum kynntumst við svæðinu og tókum þátt í skemmtilegri dagskrá. Öllum þátttakendum á mótinu var skipt upp í alþjóðlega flokka. Alþjóðlegu flokkarnir fóru saman í sólarhringshike og kepptu í flokkakeppni. Einnig var keppt í þríþraut en þá voru það löndin sem kepptu sín á milli. Í þríþrautinni var keppt í valslöngvubyggingu úr trönum, spurningakeppni og fjársjóðsleit. Ísland sigraði þríþrautina og hreppti gulldverg að launum.

Menningarferð og sólarhringhike

Einn daginn fóru allir á mótinu í menningarferð til Vaduz sem er höfuðborg Liechtenstein. Við skoðuðum fræg kennileiti í borginni og fórum síðan í kúrekagarð. Þar var maísvölundarhús, ýmsar kúrekaþrautir og dýr.

euro4

Eftirminnilegast var sólarhringshike sem við fórum í með alþjóðlegu flokkunum. Hver flokkur fékk sína eigin leið og leiðirnar gátu jafnvel farið í gegnum þrjú lönd. Hver flokkur þurfti að finna sér gistingu sjálfur með því að banka upp á hjá íbúum bæja sem var gengið í gegnum. Það var mismunandi á milli flokka hvernig gistiaðstaðan var. Áður en við lögðum af stað fengum við pening fyrir mat sem við áttum að kaupa í matvörubúðum á leiðinni. Í okkar hike-i lentum við í þrumuveðri og þegar við vorum búin að komast í töluverða hæð þurftum við að leita skjóls í hlöðu vegna eldinga sem voru beint fyrir ofan okkur. Eftir langa og blauta ferð fundum við loks fólk sem vísaði okkur á vel búið skátaheimili sem við fengum að gista í. Næsta dag var veðrið mun betra og sólin skein. Þetta var því mikið ævintýri og mögnuð upplifun.

euro3

Vikivaki, harðfiskur, lýsi og djúpur

Eitt kvöldið var hver þjóð með kynningu um sína menningu. Við dönsuðum vikivaka þar sem við skörtuðum skotthúfunum okkar sem við prjónuðum fyrir mótið. Einnig buðum við upp á lýsi, harðfisk og djúpur. Við fengum síðan að smakka hina ýmsu rétti frá hinum löndunum.

Síðasta kvöldið var haldin hátíð í kastalanum sem var á mótssvæðinu. Boðið var upp á ýmsar veitingar og stóð hátíðin fram á nótt. Eftir mótið fóru Mosverjar og Ægisbúar til Sviss og Kandersteg og gerðum ýmislegt skemmtilegt saman.

Við hvetjum ykkur til þess að sækja um að fara á Euro Mini Jam!

Hulda María Valgeirsdóttir og Védís Helgadóttir

euro5

 

Næstu leikar: Nánari upplýsingar 

 

 

 

„Það er oft vitnað í þetta verkefni og það hefur fært okkur mikinn velvilja,“ segir Ævar Aðalsteinsson félagsforingi skátafélagsins Mosverja um gönguleiðir í Mosfellsbæ, en skátafélagið hefur gert þær aðgengilegri á nokkrum árum í samvinnu við bæjarfélagið.
Útivistarfólk glöggvar sig á kortunum áður en lagt er af stað.

Útivistarfólk glöggvar sig á kortunum áður en lagt er af stað.

Nú hafa nær 90 km gönguleiða verið stikaðar um fell og dali í bæjarlandinu og aðgengi með bílastæðum, girðingaprílum og göngubrúm orðið nokkuð gott. Stöðugt fleiri njóta útivistar á þessum leiðum, en 20 þúsund göngukort eru í umferð.

Ánægja meðal íbúa og stjórnenda bæjarins

„Þetta gönguverkefni hefur orðið skátafélaginu lyftistöng og einnig gott dæmi fyrir sveitarfélagið þar sem kraftur í frjálsum félagasamtökum virkjaður til góðs.  Hér er verkefni sem skiptir fólk máli,“ segir Ævar stoltur af framlagi skátafélagsins.  „Íbúar tengja vel við þetta verkefni og eru ánægðir með framtakið. Þeir tala um „gönguleiðirnar okkar“ og líta á það sem sitt. Það finnst mér vera góð meðmæli.“

Ævar segir að mikil aukning hafi orðið á umferð gangandi fólks á útivistarsvæðinu og greinilegt sé að stikuðu gönguleiðirnar hafi haft mjög jákvæð áhrif til aukinnar þátttöku almennings á því að nýta sér þetta frábæra útivistarsvæði sem Mosfellingar eiga við bæjardyrnar.

Stikun gönguleiða í Mosfellsbæ hefur verið hluti af starfi skátafélagsins Mosverja í nær tíu ár, en hugmyndavinna hófst árið 2006 þegar Mosverjar voru fengnir til að koma með tillögur að útivistarmöguleikum í tengslum við vinnu við skipulag og útivist á Hafravatnssvæðinu. Hugmyndir skátanna voru lagðar fyrir stjórnendur Mosfellsbæjar 2007 sem leist svo vel á að unnin var kostnaðarætlun og í framhaldi voru Mosverjar beðnir um að halda utan um verkefnið. Sá vilji var rammaður inn með verksamningi sem gerður var í lok árs 2008. Ævar segir að þar sé ágætis dæmi um samstarfssamning um rekstur milli bæjarfélags og skátafélags.  Hann er mjög ánægður með samskiptin við stjórnendur bæjarfélagis og hrósar tæknideild bæjarins fyrir gott samstarf.

Áning

Vegprestar, göngubrýr, girðingastigar og skátaskjól

Gengið upp bratta leið á Úlfarsfelli

Gengið upp bratta leið á Úlfarsfelli

„Vinnan við stígagerðina hefur verið unnin samkvæmt áætlun og því fjárframlagi sem Mosfellsbær hefur getað lagt í verkefnið á hverju ári,“ segir Ævar sem verið hefur verkefnastjóri frá byrjun. Fyrsta árið voru stikaðir 10 km, ásamt því að afla leyfa hjá landeigendum, hanna og skipuleggja göngukortið. Í framhaldi tók við hönnun skilta, vegpresta, girðingastiga og göngubrúa ásamt skipulagi bílastæða og fleira sem tengdust gönguleiðunum.

Ævar segir að nú sé verkið mjög langt komið miðað við upphaflegu áætlunina og grípur fram listann úr gögnunum. Helstu verkliðir voru:

  • Stikaðar gönguleiðir í Mosfellsbæ 87 km
  • Bílastæði 10
  • Girðingastigar 12
  • Göngubrýr 5
  • Plankabrýr 3
  • Upplýsingaskilti með vegprestum 12
  • Vegprestar 30
  • Skátaskjól 4
  • Fræðsluskilt 18
  • Göngukort

Búið er að prenta fjögur upplög af göngukortinu og heildarupplag þess er nú 20.000 eintök. Hægt er að nálgast kortið  í Varmárlaug og í Lágafellslaug, sem og á vefsíðu Mosfellsbæjar – mos.is og vefsíðu skátafélagsins – mosverjar.is.

Mikilvægt að nýta vel frábært útivistarsvæði

Unnið að uppsetningu fræðsluskilta

Unnið að uppsetningu fræðsluskilta

„Á næstu árum verður unnið að að því að klára síðustu verkliðina og þá er hægt að fara lengra með verkefnið ef mönnum sýnist svo,“ segir Ævar. „Alltaf er hægt að bæta við gönguleiðum og stækka svæðið ásamt því að nú er komin þörf að  endurnýja og halda við ákveðnum leiðum og mannvirkjum sem tengjast verkefninu. Við höfum orðið vör við aukningu fólks á svæðinu. Það kallar á meiri vinnu í viðhaldi. Við þurfum að leggja stíga á þeim svæðum sem álagið er mest, en er það ekki ánægjulegt að fleiri skuli nýta sér þessa þjónustu.“

Til viðbótar upphaflega verkefninu hefur verið ákveðið að setja upp fyrstu hringsjána  í Mosfellsbæ.  Henni hefur verið valinn staður á Reykjaborg og er undirbúningur hafinn.

Ævar segir að margvíslegir möguleikar tengist Hafravatnsvæðinu og segir skátafélagið hafa áhuga á að taka þátt í hugmyndavinnu um framtíðarnýtingu þess svæðis. Skátafélagið hafi mikið verið nýtt sér svæðið og hafi meðal annars afnot af skátaskálanum Hleiðru sem einnig er kallaður Skjöldungaskálinn. Mosverjar halda árlega vetrarskátamót undir heitinu Hrollur, þeir hafa verið með sumarnámskeið á Hafravatni og skátasveitirnar sæki með ýmsa viðburði sína á svæðið.

Áð á stikaðri gönguleið

Áð á stikaðri gönguleið

Skátarnir njóta velvilja

Göngueiðirnar eru notaðar allan ársins hring. Hér eru skíðamenn vestan í Reykjaborg

Göngueiðirnar eru notaðar allan ársins hring. Hér eru skíðamenn vestan í Reykjaborg

Stikuðu gönguleiðirnar hafa einnig eflt útivist og útilíf í starfi Mosverja.  „Við notum þetta heilmikið og verkefnið hefur einnig dregið upp þá mynd af skátastarfinu í Mosfellssveit að skátarnir sinni mikið útivist,“ segir Ævar. „Mosverjar vilja vera í fararbroddi skátafélaga og ásamt öðrum aðilum innan sveitarfélagsins auka og efla aðstöðu og aðgengi almennings til útivistar.  Oft er vitnað í framlag skátanna og við njótum mikils velvilja fyrir vikið.“

Í framhaldi af gönguleiðaverkefninu hefur vaxið meiri velvilji gagnvart byggingu skátaheimilis og segir Ævar það verkefni vera í undirbúningi.  Bæjarfélagið hefur sett fram þá hugmynd að skátaheimili verði við tjaldsvæðið og hefur verið rædd sú hugmynd að skátarnir hafi umsjón með því.  Tjaldsvæðið er í nálægð við ævintýragarðinn sem er meðfram Varmánni, á bökkum hennar.

Ævar segir að það sé langtímaverkefni að byggja tjaldsvæðið upp og koma upp trjám til skjóls. Hann tekur þó fram að endanlegur staður fyrir skátaheimili sé ekki kominn. Undirbúningsnefnd að byggingu skátaheimilis var mynduð fyrir ári síðan og þar sitja meðal annarra bæjarstjóri, formaður íþrótta- og tómstundanefndar, auk hans sem félagsforingja Mosverja.  Hann gerir ráð fyrir að línur skýrist betur í vetur.

Tengt efni:

Göngukortið er aðgengilegt á vef Mosverja