– Við erum búin að sjá mikið af landinu með þátttöku í mótinu, en við viljum skoða meira, segja þrír skátar á heimsmóti fyrir 18 – 25 ára sem nú er að ljúka á Úlfljótsvatni. Þau lágu yfir Íslandkorti og voru að plana hvert þau myndu fara að mótinu loknu á bílaleigubíl sem þau voru búin að bóka.

– Já, við erum búin að skoða SafeTravel og látum vita af okkur, sögðu þau og notuðu tækifærið til að pumpa Íslendinginn um hvernig aka ætti yfir ár, en höfðu reynslu af akstri á malarvegum og voru könnuðust við umferðarskiltið >einbreið brú< þó þau væru ekki búin að ná framburðinum.

Linda Björk Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri skráning og ferðaskrifstofu Moot,  hefur verið að bóka skáta og ferðir og leiðbeina þeim.  Hús segist finna segist finna mikinn áhuga meðal skáta á að upplifa Ísland. Þeir séu ferðaglaðir og vilja sjá sem mest.

Við skipulagningu mótsins var gert ráð fyrir að þátttakendur myndu dvelja á landinu að meðaltali í um 3 vikur og þá á eigin vegum stóran hluta dvalar sinnar. Excel-spádómsmenn hafa áætlað að mótið og ferðir skátanna á eigin vegum skili yfir tveimur milljörðum í gjaldeyristekjur og þar af fer aðeins fjórðungur í beinan kostnað vegna mótsins, þannig að ljóst er að þjóðarbúið í heild nýtur góðs af því að heimsmótið var haldið hér á landi.

Erlendir skátar skunda á Þingvöll:

Raddir ungs fólks alls staðar að úr heiminum hljómuðu á Þingvöllum í dag en þar söfnuðust erlendir skáta saman til þinghalds. Tilgangur þingsins er að kynnast lýðræði, hvernig það virkar og skoða málefni sem snerta ólík samfélög. Sameiginleg ályktun þingsins verður send til heimsstjórnar skáta, WOSM. Seinni dagur þings er á morgun.

Svokallað Youth Forum er einn liður í dagskrá alþjóðlega skátamótsins, World Scout Moot sem nú stendur yfir á Úlfljótsvatni. Alls 5.000 skátar frá um 100 þjóðlöndum eru á svæðinu og eru tveir dagar notaðir í hópastarf. „Það var lang mestur áhugi fyrir svokölluð Youth Forum eða þingi unga fólksins”, segir Dagmar Ýr Ólafsdóttir, sem heldur utan um verkefnið.

Hún segir að tæplega 1200 skátar hafi sótt um að taka þátt í þingstarfinu og var því ákveðið að halda þingið tvo daga í röð og gæta þess að hlutur kynjanna væri jafn og hvor hópur endurspeglaði allan heiminn. „Það má eiginlega segja að þetta séu nokkurs konar þjálfunarbúðir fyrir verðandi þingmenn í 106 löndum, segir Dagmar Ýr.

Vettvangur til að kynnast lýðræði

Þingið er vettvangur til þess að kynnast lýðræði og hvernig það virkar og verða niðurstöðurnar kynntar í lok skátamótisins og síðan verðar þær kynntar heimsstjórn skáta í þeirri von að þær muni verða teknar framtíðarskipulag stjórnarinnar.

Skátarnir fara með rútum frá Úlfljótsvatni til Þingvalla en þingið hefst um kl. 09.00 og stendur yfir allan daginn.  Dagmar Ýr segir að sjálfur þingstaðurinn, Þingvellir, hafi sterkt aðdráttarafl fyrir erlendu skátana en þeim er ljóst að þar var alþingi Íslendinga frá 930-1798 og að staðurinn er á náttúruminjaská UNESCO.

Meðal þema sem rædd verða á þinginu eru jafnrétti, menntun, atvinnuleysi, umhverfismál, flóttamenn og margt fleira.

Youth Forum er einn liður í dagskrá alþjóðlega skátamótsins, World Scout Moot sem nú stendur yfir á Úlfljótsvatni. Ljósmynd: Fredrik Sahlström

„Það hefur komið mér gleðilega á óvart hve skátarnir keyra nútímalega leiðtogaþjálfun sem stenst samanburð við það helsta sem er að gerast í þessum málum í heiminum,“ segir Rúna Magnúsdóttir en hún er í hópi sem vinnur að heimildamynd um skáta.

Heimildamyndin ber yfirskriftina „Hvað er svona merkilegt við að vera skáti?“ og Bjarney Lúðvíksdóttir er aðalsprautan í gerð hennar. Hún segir efnið vera mjög áhugavert og þarft að gefa almenningi innsýn í skátastarfið. Hún gerir ráð fyrir að myndin verði sýnd í sjónvarpi.

Bjarney og félagar eru þessa dagana við tökur á Úlfljótsvatni og segja þau vera einstaklega líflegt að fylgjast með heimsmóti skáta 18 – 25 ára.


Bjarney hefur verið í sambandi við skáta á samfélagsmiðlum þeirra og þar benti hún á nokkrar staðreyndir sem fólk er sér almennt ekki meðvitað um:

1) Íslenska skátahreyfingin er sú fyrsta í heimi til að sameina stelpur og stráka í skátastarfi.

2) Af þeim 24 NASA geimferðalöngum sem ferðuðust með geimflauginni Apollo 8 og Apollo 10 og 17 annarra geimtengdra verkefna, voru 20 skátar. (Samkvæmt NASA.gov)

3) Þátttakendur World Scout Moot á Íslandi eru í dag fleiri en þátttakendur Eve online fan fest og vetrarólympiuleikanna.

4) Áætlað er að World Scout Moot skili um tveimur milljörðum inní þjóðarbúið, fyrir utan gríðarlega landkynningu.

5) Marta Magnúsdóttir er yngsti skátahöfðingi Ísland frá upphafi (og mögulega á norðurlöndunum að auki).

6) Það eru 31 milljón starfandi skátar í heiminum, það jafngildir íbúafjölda Perú.

 

Marta Magnúsdóttir skátahöfði Íslands leikur stórt hlutverk í heimildamyndinni og hefur Bjarney og tökuteymi hennar fylgt Mörtu eftir, en Marta er þessa dagana þátttakandi í World Scout Moot 18 – 25 ára.

Tökumaður með Bjarney og Rúnu er Kristján Kristjánsson og er Ká-ið í BéKáErr productions.

Það er til fyrirmyndar að sjá ungt fólk frá ólíkum heimshlutum og allskonar menningu að vinna saman, leysa verkefni, kynnast hvert öðru og njóta lífsins og skátaandans” sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra í heimsókn sinni á World Scout Moot í dag.

Óttarr átti fund með þeim Mörtu Magnúsdóttur skátahöfðingja, Hrönn Pétursdóttur mótsstjóra World Scout Moot og fleira forystufólki skátahreyfingarinnar. Á fundinum fékk ráðherra upplýsingar um gang mála á skátamótinu og þær áskoranir sem mætt hafa þátttakendum og stjórnendum. Umfang mótsins er mikið og viðfangsefnin mörg enda er þessi viðburður af svipaðri stærðargráðu og Vetrarólympíuleikar eins og Hrönn Pétursdóttir mótsstjóri benti á.

Fundurinn fór fram í elsta skátaskála Úlfljótsvatns, Gilwell-skálanum. Fór vel á því enda er faðir Óttarrs, Dr. Ólafur Proppé, skólastjóri Gilwell-skólans sem heldur utan um leiðtogaþjálfun íslenskra skáta.

Magnað að upplifa stemmningu og samheldni

Það er magnað að fá að upplifa stemmninguna og samheldnina á þessu alþjóðlega skátamóti. Skátastarf er mikilvægt fyrir ungt fólk en það er ekki bara leið fyrir ungt fólk að vaxa úr grasi og standa á eigin fótum heldur mikilvægt lýðheilsu- og lýðræðismál”.

Hrönn Pétujrsdóttir mótsstjóri, Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi. Ljósmynd: Nicolas Mercier

 

Dagskrá World Scout Moot á Úlfljótsvatni er skipt upp í fjölbreytt dagskrársvæði og eru fjögur þeirra nefnd eftir íslensku landvættunum.

Upp á ensku eru þau nefnd The Bull, The Eagle, The Giant og The Dragon og hefur hvert svæði sín sérkenni. Öll vinna þau þó með þema mótsins, Change, þar sem skoðað er hvað gerir okkur að því sem við erum, hvernig ytri breytingar hafa áhrif á okkur og hvernig við getum stuðlað að breytingum á umhverfi okkar.

Á dagskrársvæðinu The Dragon (drekinn) er unnið með margvísleg viðfangsefni á sviði lista og sköpunar og gefst þátttakendum kostur á að taka þátt í trommuhring undir stjórn Karls Ágústs Úlfssonar leikara, mála rúnir, taka lagið við eldstæði inn í tjaldi og spreyta sig í joggli, húlla og fleira.

Eftir að þátttakendur World Scout Moot luku leiðangrum sínum um Ísland kom allur hópurinn saman á Úlfljótsvatni til að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá.

Þema dagskrárinnar á Úlfljótsvatni er Alþingi og er vísað til þess ævafornar siðar Íslendinga að koma saman til Alþingis eftir langt og strangt ferðalag.

Trommuhringur í dagskrárþorpi drekans

Dagskrá Alþingis er fjölbreytt og felur meðal annars í sér útivistarverkefni, vinnustofur, málþing, áskoranir af margvíslegu tagi og fjölmenningarleg viðfangsefni svo dæmi séu tekin. Dagskránni er skipt upp í nokkur dagskrársvæði og eru fjögur þeirra nefnd eftir íslensku landvættunum sem upp á ensku eru The Bull, The Eagle, The Giant og The Dragon og hefur hvert svæði sín sérkenni.

Öll vinna þau þó með þema mótsins, Change, þar sem skoðað er hvað gerir okkur að því sem við erum, hvernig ytri breytingar hafa áhrif á okkur og hvernig við getum stuðlað að breytingum á umhverfi okkar.