Sýningin Skátar á Akureyri í 100 ár opnar á laugardaginn 28. október kl. 14. í Minjasafninu á Akureyri.

Á sýningunni má sjá muni og myndir úr sögu skátastarfs í bænum, frá 1917 til dagsins í dag.
Við hvetjum alla skáta til að koma og kíkja við, en sýningin mun standa fram í mars 2018.

Verið velkomin.

 

Ljósmynd: Páll Pálsson.

Þrátt fyrir óveðursviðvaranir um allt land héldu vaskir skátar á viðburðinn Ungir talsmenn á Akureyri síðastliðna helgi (24.-26. febrúar). Viðburðinn, sem haldinn var í nýja glæsilega skátaheimili Klakks, Hyrnu á Akureyri, sóttu 12 rekka- og róverskátar víðsvegar að af landinu.  Margir gætu velt því fyrir sér hvað Ungir talsmenn er, en það er helgarnámskeið á vegum Bandalags íslenskra skáta þar sem skátarnir fá tækifæri til að læra um notkun samfélagsmiðla í þágu skátastarfs, myndatöku og framkomu í fjölmiðlum.

Brugðið á leik við Hamra

Framtíðarsýn?

Helgin hófst á föstudegi með kynningu á viðfangsefnum viðburðarins í formi ýmissa hópverkefna og glærukynninga. Skátunum var skipt í fjóra flokka sem hver um sig tók að sér samfélagsmiðil eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir. Eftir staðgóðan morgunverð á laugardagsmorgninum, hófst dagskrá dagsins með fyrirlestrinum Að vera virkur borgari sem var hollari en hafragrautur. Þar lærðum við hvernig skátar um allan heim taka virkan þátt í samfélaginu og hvernig við getum verið betri samfélagsþegnar í okkar samfélagi. Síðar um daginn eftir Carbonara dásemd fórum við í ævintýralandið Hamra þar sem ljósmyndakennsla Halldórs Valberg fyrr um daginn nýttist vel. Þar fengum við að leika lausum hala með myndavélar að vopni. Þeir sem fylgja Skátarnir á Snapchat, Instagram eða Facebook hafa líklegast ekki misst af því. Ekki örvænta Tryggvi Marinósson, framkvæmdarstjóri Hamra…. þó að við höfum stolið smjörklípu af þér fyrir lummugerð þá færðu það margfalt til baka með flottum auglýsingum af Hömrum í formi ljósmynda.

 

 

 

Næsta ævintýri fór fram í sundlaug Akureyrar þar sem meirihluti hópsins tók sér sundsprett og yljaði sér í heita pottinum. Þegar heim var komið beið heljarinnar pizzuveisla svangra þátttakenda. Þegar allir höfðu borðað nægju sína tók við valdagskrá af ýmsum toga. Í boði var að taka upp útvarpsþátt, læra að vera fyrir framan og aftan myndavélina í viðtali og skrifa þessa grein. Deginum lauk svo á rólegu nótunum þar sem þáttakendurnir hjúfruðu sig saman á vindsængum og svifu inn í draumalandið.


Það var um 9 leytið á sunnudagsmorgninum, þegar fyrstu þátttakendurnir vöknuðu, sem við áttuðum okkur á því að okkur var vandi á höndum. Allir vegir frá Öxnadalsheiði að Reykjavík voru lokaðir. Eftir að hafa talað við Vegagerðina fengum við þær upplýsingar að ef við værum ekki komin út úr Akureyri fyrir klukkan tvö yrðum við föst á þar fram á þriðjudag. Hvað gera skátar þá? Ákveðið var að klára tiltekt eins fljótt og hægt var og keyra sem fyrst suður. Þó að ævintýrið hafi endað fyrr en áætlað var þá komust allir sáttir heim, ánægðir með skemmtilegan og fræðandi viðburð, þrátt fyrir veður.

Þessi grein er því góð áminning að láta ekki eitthvað eins og veður koma í veg gott skátastarf. Við erum nú einu sinni skátar – ávallt viðbúnir er það ekki?

 

Þessi grein var skrifuð af skipuleggjendum og þátttakendum Ungra talsmanna; Sölku, Vigdísi Fríðu, Sæbjörgu, Fanneyju, Magnúsi og Sunnu Líf.

Skátafélagið Klakkur gekk í síðustu viku frá endanlegu samkomulagi við Akureyrarbæ vegna nýs skátaheimilis að Þórunnarstræti 99 á Akureyri. Klakkur gekk frá leigusamningi til ársins 2045 á húsnæðinu sem mun tryggja starfsemi félagsins um ókomna tíð. Þetta eru lok á samkomulagi sem gert var við Akureyrarbæ 2014 vegna húsnæðis og uppbyggingarmála félagsins. Samhliða þessu fékk Klakkur heimild til að selja skátaheimilið Hvamm og nýta söluandvirðið til frekari uppbyggingar skátastarfs á Akureyri.

Sjá nánar í frétt á vef Akureyrabæjar.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var eftir undirritun samkomulagsins eru frá vinstri: Tryggvi Marinósson framkvæmdastjóri Hamra, útilífs- og umhverfismiðstöðvar skáta, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri, Ólöf Jónasdóttir félagsforingi Skátafélagsins Klakks og Silja Dögg Baldursdóttir formaður samfélags- og mannréttindaráðs.

Mynd: Akureyrabær

Tvær getraunir voru í síðasta Skátablaði og nú hefur verið dregið úr réttum svörum:

Daníel Eiríksson í Landnemum fann Braga skátahöfðingja á síðum blaðsins og Agnes Vala Tryggvadóttir í Klakki var með öll svör rétt í krossgátunni. Þessir glöggu skátar fá svefnpoka frá Skátabúðinni í verðlaun.

Um leið og við þökkum öllum fyrir þátttökuna þá óskum við þeim Daníel og Agnesi Völu hjartanlega til hamingju með vinningana!

Mæðgurnar Agnes Reykdal og Bryndís Hafþórsdóttir frá Akureyri eru í þeim hópi sem lauk Gilwell-leiðtogaþjálfuninni á nýliðnu ári. Hrefnu Hjálmarsdóttur þótti það áhugavert að mæðgur lykju sömu þjálfun á sama tíma og grennslaðist fyrir um hverjar þær eru.

Ólst upp við fræga skátagötu

„Agnes Reykdal er fædd 1960 og ólst upp í Ásaveginum á Akureyri. Það var fræg skátagata, mörg börn og flestöll í skátastarfi. Vinsæll skátaforingi bjó í götunni og svo var stutt að fara niður í Völuból sem var félagsheimili Valkyrjunnar. Agnes var að sögn vel virk, þræddi öll skátamót og viðburði sem völ var á. Á þessum tíma var dróttskátastarfið öflugt og fékk Agnes Forsetamerkið 1977. Eftir þann tíma var hún ljósálfaforingi í tvö ár. Næstu árin tóku önnur verkefni í lífinu við. Svo var það í fjörugri Fálkafellsveislu árið 2012 að Agnes mætti og kynntist gildisskátum út Kvisti og gekk í hópinn. Þar hefur hún starfað síðan og tekið virkan þátt. Þegar Bryndís dóttir hennar fór að safna liði til að skella sér á Gilwell var Agnes alveg til og sér ekki eftir því.

Situr í stjórn Klakks

Bryndís Hafþórsdóttir er fædd árið 1980. Hún varð skáti mjög ung en þá var öflugt skátastarf á Eyrinni á Akureyri. Gömlu skátafélögin á Akureyri höfðu sameinast í eitt félag sem var Skátafélagið Klakkur. Bryndís átti þar mörg góð ár í skáta-og dróttskátastarfi og var um skeið sveitarforingi skátasveitar sem hét Álfar. Bjó um tíma í Reykjavík og varð félagi í Skátakórnum. Því næst lá leiðin austur á Egilsstaði og þar tók Bryndís þátt í að endurreisa Skátafélagið Héraðsbúa 2007-2008 . Þar hóf hún leikskólakennaranám í fjarnámi. Leiðin lá síðan aftur til Akureyrar þar sem Bryndís lauk náminu. Ekki veitti af liðsauka hjá Skátafélaginu Klakk og gerðist Bryndís drekaskátaforingi í nokkur ár.

Þegar Gilwell þjálfunin bauðst sem fjarnám að hluta til var hún ekki lengi að hugsa sig um og fór svo að 7 skátar frá Akureyri drifu sig og að auki var einn Gilwellskáti sem tók 1. skref sér til upprifjunar. Bryndís situr nú í stjórn Klakks“.