Efnis sem tengist fullorðnum í skátastarfi.

25. september sendi Stjórn Æskulýðsvettvangsins frá sér áskorun til yfirvalda sem hljómar svona:

 

Vegna ítrekaðara frétta af kynferðisafbrotamönnum og barnaníðingum sem hafa fengið uppreist æru og öðlast starfsréttindi sín á ný og þar með átt auðvelt með að snúa til fyrri starfa vill Æskulýðsvettvangurinn koma eftirfarandi áskorun til yfirvalda á framfæri.

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 segir í 3. – 4. mgr. 10. gr.: „Óheimilt er að ráða til starfa hjá aðilum, sem 2.gr. tekur til og sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í æskulýðsstarfi, einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegnar brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940“ sem fjallar um kynferðisbrot.

Öll aðildarfélög Æskulýðsvettvangsins gera þá kröfu til sinna sjálfboðaliða og starfsmanna sem vinna með börnum og ungmennum að þeir skili inn samþykkt fyrir því að þeirra aðildarfélag hafi heimild til að sækja upplýsingar úr sakaskrá um hvort þeir hafi hlotið slíkan refsidóm.

Æskulýðsvettvangurinn hefur um árabil barist fyrir því að ferlið til uppflettingar úr sakaskrá ríkisins verði einfaldara og skilvirkara m.a. á þann veg að aðildarfélög geti gert það rafrænt. Sú vinna hefur ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir og eru það mikil vonbrigði þar sem um er að ræða eitt stærsta barnaverndarmál íslensks samfélags.

Af fréttaflutningi síðustu daga er ljóst að enn fleiri galla má finna á kerfinu sem á að sinna eftirliti og forvörnum þegar kemur að því að tryggja hagsmuni barna og ungmenna. Í ljósi þess skorar stjórn Æskulýðsvettvangsins á íslensk yfirvöld að bregðast strax við og koma þeim forvörnum og því eftirliti sem þeim ber að sinna í lag. Stjórnin skorar á yfirvöld að ljúka ferlinu um rafræna uppflettingu í sakaskrá og grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að þeir sem hafa gerst sekir um kynferðisbrot komist ekki í starf með börnum og ungmennum. Slíkt á aldrei að vera möguleiki, börnin eiga alltaf að njóta vafans.

Eins og áður er Æskulýðsvettvangurinn tilbúinn til samvinnu við yfirvöld við að ljúka þessum málum.

 

F.h. Æskulýðsvettvangsins,

___________________________
Auður Inga Þorsteinsdóttir,
Formaður Æskulýðsvettvangsins

 

Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagins Landsbjargar. Hlutverk Æskulýðsvettvangsins er að standa vörð um hagsmuni barna og ungmenna og stuðla að heilbrigðum, uppbyggjandi og vönduðum aðstæðum í æskulýðsstarfi. Tilgangur og markmið félagsins er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna m.a. á sviði fræðslu- og forvarnarmála er snúa að hagsmunum barna og ungmenna í æskulýðsstarfi.

 

:: Smellið hér fyrir heimasíðu Æskulýðsvettvangsins

:: Smellið hér fyrir “ábyrgt æskulýðsstarf”( lög og reglugerðir BÍS) er varðar vinnu með börnum og ungmennum

 

Fríður flokkur frá Fræðasetri skáta tók þátt í ráðstefnu norrænna skátasafna sem fram fór í Finnlandi um síðustu helgi. Norrænu skátasöfnin hafa með sér þétt samstarf og hafa komið saman til skrafs og ráðagerða annað hvert ár síðan 1985. Af einhverjum ástæðum hafa íslenskir skátar ekki verið með í þessum hópi þar til nú.

Frá setningu ráðstefnunnar.

Stukkum á þetta tækifæri

Norðurlöndin hafa skipst á að halda ráðstefnuna og í ár var komið að Finnlandi. Formaður ráðstefnunefndar, Matti Helanko, hafði fregnir af starfsemi Fræðasetursins í gegnum vinkonu sína, Danfríði Skarphéðinsdóttur sem kom á tengslum á milli hans, Fræðasetursins og Minjanefndar skáta og í kjölfarið barst þessum aðilum boð um að taka þátt.

„Við hjá Fræðasetri skáta vorum ekki seinir á okkur og stukkum á þetta tækifæri“ segir Gunnar Atlason fararstjóri íslenska hópsins. „Okkar starfsemi hérlendis er ung að árum og við gerðum okkur strax grein fyrir því að það væri mikilvægt að mæta, byggja upp tengslanet, læra og fræðast af nágrönnum okkar“.

Gunnar segir að það sé umhugsunarefni að safnastarfsemi skáta skuli ekki hafa verið sýndur sami áhugi hérlendis og tíðkist t.d. á Norðurlöndunum en þar eru dæmi um lifandi söfn sem hafa starfað í meira en fimm áratugi og séu virkir gerendur í skátastarfinu með sínu starfi.

Safna, sýna og skapa upplifun

„Við hjá Fræðasetri skáta brennum fyrir því að safna og sýna skátamuni og minjar og því var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að mæta á svæðið, segja frá okkar starfi og kynnast því sem aðrir eru að gera” segir Páll Viggósson, einn þátttakenda.

„Eitt af því mikilvægasta sem við tökum með okkur úr þessari ferð er metnaður norrænu safnanna til að vera virkir þátttakendur í skátastarfinu með lifandi safnastarfsemi – það er fáum til gagns að safna skjölum og dóti á bak við luktar dyr – ungu skátarnir þurfa að komast í tæri við söguna með áþreifanlegum hætti og það er einmitt það sem við höfum lagt áherslu á í Fræðasetrinu við Úlfljótsvatn“ bætir Páll við.

Í finnskum fjallaskála: Gauti, Gunnar, Páll, Atli og Sturla.

Nina frá Finnlandi að segja dönskum kollegum sínum eitthvað merkilegt.

Virk þátttaka skiptir máli

Atli Bachmann segir að virk þátttaka skipti máli. „Það var sérstaklega gaman að heyra frá dönsku söfnunum og samstarfi þeirra á landsmóti danskra skáta nú í sumar. Söfnin eru 8 talsins og þau sameinuðust flest í vinsælu dagskráratriði á landsmótinu þeirra. Um 36.000 skátar tóku þátt í mótinu og u.þ.b. 1.500 skátar fóru í gegnum safnatjaldið á degi hverjum.

„Þau settu upp áhugaverð verkefni, voru með bíótjald og buðu upp á dagskrá sem tengdi það gamla og nýja sem sló í gegn. Elda á gömlum tækjum, rata eftir áttavita, kveikja upp eld, máta gamla skátabúninga, prófa viðlegubúnað frá fyrri tíð o.s.frv. – við munum fá alla þessa pósta senda til okkar og getum vonandi nýtt þá á Fræðasetrinu“, segir Atli.

Gunnar Atlason og Atli B. Bachmann.

Sjálfborgandi sjálfboðaliðar

„Við leituðum til BÍS eftir fjárhagslegum stuðningi vegna þátttökunnar en fengum ekki“ segir Guðmundur Pálsson. „Það aftraði okkur hinsvegar ekki frá því að fara og var allur kostnaður greiddur úr vasa hvers og eins. Flug, ráðstefnugjald, gisting og fæði er u.þ.b. 150.000 kr. á mann. Það má því segja að við félagarnir í Fræðasetri skáta höfum fjárfest 900.000 kr. úr eigin vasa í að afla okkur þekkingar sem Bandalag íslenskra skáta hefði fyrir löngu átt að vera búið að fjárfesta í“ bætir Guðmundur við.

Er þá ótalinn kostnaður hvers og eins vegna sumarleyfisdaga og fjarvista frá fjölskyldu.

Hverrar krónu virði

„Þessi ferð var hverrar krónu virði og miklu meira en það” segja þeir Gauti Torfason og Sturla Bragason frá Fræðasetrinu. „Á þessari helgi fengum við staðfestingu og viðurkenningu á því að við værum að feta rétta leið með starfi okkar á Fræðasetrinu og auk þess erum við nú komin formlega í hóp viðurkenndra skátasafna á Norðurlöndunum og það er verulegur slagkraftur í því samstarfi” segir Gauti.

Sigling um skerjagarðinn.

Forskot á sæluna

„Við tókum smá forskot á sæluna og mættum til Helsinki þremur dögum fyrir ráðstefnuna og nýttum tímann til að kynna okkur söfnin á svæðinu og kynna okkur hvernig menn eru að setja upp sýningar“ segir Sturla. „Við heimsóttum þjóðminjasafn Finna, skoðuðum Sibelius-garðinn, steinkirkjuna og fleira en mest þótt mér koma til Nýlistasafnsins og Ólympiuþorpsins – af þessum stöðum má margt læra“.

Ráðstefnan á Íslandi 2021

Norðmenn munu halda næstu ráðstefnu sem fram fer í Osló árið 2019. Við slitin var borin upp formleg tillaga þess efnis að óska eftir að íslenskir skátar myndu taka að sér að halda ráðstefnuna árið 2021 og tóku íslensku fulltrúarnir vel í þá ósk og var því fagnað með lófataki.

Það er því ljóst að íslenskra skáta bíður ærið verkefni, undir stjórn Fræðaseturs skáta, að undirbúa næstu ráðstefnu.

:: Sjá fleiri myndir

 

Það hefur svo sannarlega verið „kátt í höllinni“ síðustu daga en Laugardalshöllin hefur verið aðsetur lokaundirbúnings World Scout Moot.

Um helgina hefur starfslið mótsins mætt til starfa, hvaðanæva að úr heiminum og tekið til óspilltra málanna við lokahandtök undirbúning mótsins.

Hápunkturinn í höllinni verður svo á þriðjudagsmorgunn kl. 10:00 þegar glæsileg setningarathöfn mótsins fer fram en að henni lokinni dreifast þátttakendur á ellefu miðstöðvar vítt og breytt um landið.

Slakað á eftir langan vinnudag

Ævintýri líkast

Að sögn Sölva Melax, kynningarfulltrúa mótsins, hafa síðustu dagar verið ævintýri líkastir. „Það er mögnuð upplifun að fallast í faðma við fólk frá fjölmörgum löndum sem hefur verið að vinna með okkur undanfarin misseri yfir netið í ýmsum verkefnum. Nú erum við loks að hittast til að hrinda hugmyndum okkar endanlega í framkvæmd og uppskera“.

Mótið á vefmiðlum

Sölvi vill minna á að skátar og almenningur geta fylgst með mótinu í gegnum margvíslega vefmiðla sem skátar nýta sér. „Við erum með öflugt teymi sem miðlar mótinu á netið og nýtum okkur að sjálfsögðu helstu samfélagsmiðla“ segir Sölvi og minnir á að á opinberri vefsíðu Bandalags íslenskra skáta, Skátamál.is, hefur verið sett upp sérstök þemasíða með upplýsingum um mótið og gagnlega tengla svo sem yfirliti yfir þá samfélagsmiðla sem veita upplýsingar um gang mála.

Mótsappið

„Á mótum sem þessum er hefð fyrir því að gefa út viðamikla mótsbók fyrir þátttakendur og starfsfólk sem inniheldur gagnlegar upplýsingar. Við ákváðum hins vegar að fara í þá vinnu að setja upp sérstakt smáforrit (app) sem þjónar sama tilgangi og býður reyndar upp á margvíslega fleiri möguleika en gamla góða mótsbókin“.

Sölvi hvetur alla skáta og aðra áhugasama um að næla sér í appið en það er aðgengilegt fyrir iPhone og Android og nafn þess er 15th World Scout Moot, Iceland.

Nánari upplýsingar

:: Þemasíða Skátamála um mótið

  • Yfirlit frétta
  • Fjölmiðlaumfjöllun
  • Myndefni
  • Yfirlit yfir samfélagsmiðla
  • Mótssöngurinn
  • o.fl. o.fl.

:: Vefsíða World Scout Moot

:: Samfélagsmiðlar

/gp

Um helgina fór fram á Úlfljótsvatni 5. skref Gilwell-leiðtogaþjálfunar. En 5. skrefið er lokaskrefið og voru því 18 nýjir Gilwell-nemar útskrifaðir á sunnudeginum.

Leiðtogi í eigin lífi var yfirskrift námskeiðsins og unnu þátttakendur með það hvernig þau geta orðið betri leiðtogar og stjórnendur í sínu lífi og í sinni vegferð.

Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Gilwellskáti og mannauðsstjóri hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, hélt fyrirlestur um Að finna leiðtogann í sjálfum sér. Jón Lárusson, Gilwellskáti og markþjálfi hélt líka fyrirlestur um Markþjálfun og skátastarf.

Auk þess komu aðrir leiðbeinendur Gilwell-skólans að námskeiðinu með fyrirlestrum og umræðum.

Eftir útskriftina s.l. sunnudag hafa 142 skátar lokið Gilwell-leiðtogaþjálfun frá fyrstu útskrift úr nýju kerfi í maí 2013.

Skátahreyfingin óskar þessu 18 skátum innilega til hamingju með áfangann.

 

Alexandra Dögg Viðarsd Berndsen, skátafélaginu Bjarma á Blönduósi
Andrea Dagbjört Pálsdóttir, skátafélaginu Mosverjum
Arnkell Ragnar Ragnarsson, skátafélaginu Fossbúum
Daði Björnsson, skátafélaginu Árbúum
Dagný Hjálmarsdóttir, skátafélaginu Borgarnesi
Guðjón Orri Sigurðarson, skátafélaginu Árbúum
Guðrún Sigtryggsdóttir, skátafélaginu Árbúum
Halldóra Aðalheiður Ólafsdóttir, skátafélaginu Vífli
Haukur Örn Harðarson, skátafélaginu Mosverjum
Jóhanna Björg Másdóttir, skátafélaginu Kópum
Kristjana Sigurv. Sveinsdóttir, skátafélaginu Strók
Kolbrún Ósk Pétursdóttir, skátafélaginu Garðbúum
Magnús Geir Björnsson, skátafélaginu Klakki
Ragnhildur L Guðmundsdóttir, skátafélaginu Heiðabúum
Sonja Ósk Kristjánsdóttir, skátafélaginu Strók
Sæbjörg Lára Másdóttir, skátafélaginu Strók
Vilhjálmur Snær Ólason, skátafélaginu Strók
Þröstur Ríkarðsson, skátafélaginu Árbúum

:: Hér má lesa meira um Gilwell leiðtogaþjálfun

 

:: Hér má lesa um Sumar-Gilwell sem haldið verður í ágúst 

Hlutverk foringja í skátastarfi er ekki bara að halda utan um skátafundi, merkja við börnin og kenna þeim skemmtilega skátaleiki. Eitt af stærstu hlutverkum þeirra er að vera einn af þeim einstaklingum sem taka þátt í uppeldi barnanna, efla þau og þroska á sínum forsendum. Því eins og máltækið segir “það tekur heilt þorp að ala upp barn”. Skátaforingja ber að vera faglegur í samskiptum við börnin og koma fram við börnin á jafningjagrundvelli en um leið vera leiðbeina skátunum á uppbyggilegan hátt. Virðing og traust er fyrst og fremst það sem þarf að einkenna góð samskipti á milli foringja og skáta.

Kristjana S. Sveinsdóttir, Skátafélaginu Stróki skrifar um Skátastarf sem uppeldishreyfingu

Uppeldishlutverkið

Já ég er foreldri, en samt sem áður hefur það verið mitt helsta verkefni að kljást við þá skemmtilegu skáta sem eru í skátaflokknum mínum. Börn eru jafn misjöfn og þau eru mörg og við veljum ekki börnin inn í skátaflokkinn okkar. Börn eru svo heppin að það eru allir velkomnir í skátana og eru þá hinir ýmsu persónuleikar sem hefja skátastarf. Einstaklingar með mismunandi bakgrunn og mismunandi uppeldi, einstaklingar með mismunandi sýn á lífið og mismunandi skoðanir. Þetta, og svo miklu miklu meira, eru hlutir sem við þurfum að taka tillit til þegar við erum skátaforingjar. Því það er okkar verkefni að börnunum finnist þau öll vera velkomin og þau séu öll samþykkt.

Sem drekaskátaforingi, hef ég þurft að kljást við einstaklinga sem ég persónulega myndi ekki velja í flokkinn, já ég sagði þetta, þessa týpísku óþekku krakka sem geta gert mann gráhærðan á einni sekúndu. En ég hef líka upplifað fullkomna breytingu á barni eftir nokkra fundi, þar sem barnið fór að eflast og verða öruggara og fór þá að sýna sínar allra, allra bestu hliðar og barnið sem kom á fyrstu fundina var bara ekki líkt þeim einstaklingi sem var farin að leiða hópinn í krefjandi verkefnum. Traust og virðing skapaðist á milli foringja og barnsins og barnið sá með tímanum að ákveðin hegðun skilaði ekki því sem það hélt og hegðunin breyttist í kjölfar aga og samvinnu allra. En það eru einmitt þessir einstaklingar sem fá mann stundum til að efast um eigin hæfni til þess að starfa með börnum, í augnablik veltir maður því fyrir sér hvers vegna maður leggur það á sig að mæta á skátafundi til að láta öskra á sig. En jafnframt eru það þessir einstaklingar sem fá mann til þess að vera fullkomlega öruggan með að maður sé að vinna gott starf þegar maður fær einn daginn faðmlag frá þeim alveg óvænt og án orða.

Það er mér eitt atvik minnisstæðast þar sem drekaskáti, sem reynt hafði mikið á taugar foringjana, kastar hlut þvert yfir herbergið með þeim afleðingum að verkefni annars hóps skemmist. Ég snöggreiðist og æsi mig mikið við drekaskátan, en um leið og ég hafði sleppt orðinu vissi ég að þetta var ekki rétt leið til þess að ná til viðkomandi og vissi jafnframt að þetta voru ekki viðbrögð sem voru fagleg af skátaforingja. Ég tók sjálfa mig taki og ræddi við skátann á rólegum nótum sem virkaði mun betur en æsingurinn. Ég var líka farin að þekkja einstaklinginn betur en svo að ég ætti að vita að það væri eins og að kasta olíu a eldinn að æsa sig við viðkomandi.

Þetta atvik minnti mig jafnframt á að við erum öll mannleg og þá sérstaklega þegar kemur að samskiptum, við getum öll stigið feilspor og sagt eithvað eða gert eithvað sem okkur finnst eftir á erfitt að kyngja að hafi verið viðbrögð okkar. En til þess að hægt sé að læra af reynslunni þá þurfum við stundum að setjast niður og fara yfir hvað sé hægt að gera betur.

Að lokum

Þetta verkefni fékk mig til að renna yfir samskipti mín við börnin undanfarin tvö ár. Það er margt sem reynir á taugarnar en í flestum tilfellum tekst manni að vinna með þeim einstaklingum og fá þau á sitt band. Þegar börnin sem eiga við hegðunarvandamál að stríða takast á við mjög krefjandi verkefni, sem viðkomandi segist ómögulega geta leyst af hendi, og verkefnið tekst dásamlega vel og barnið fyllist stolti. Þá fyllist ég líka stolti, það segir mér að barnið geti blómstrað á sínum forsendum í flokknum hjá mér og fái það umhverfi og rými til að dafna. Þá er ég viss um að ég sé á réttri hillu og samskiptin séu í þokkalegu róli þó svo ég efist stundum um mig. Stoltið lætur mig halda áfram að mæta á fundi og halda áfram að starfa sem hluti af þorpinu sem elur upp barnið.

 

Kristjana Sigurveig Sveinsdóttir

Drekaskátaforingi í Stróki

Í gær fór fram kaffishúsakvöld í Skálanum, Skátaheimili Mosverja. Kaffishúsakvöldið var fjáröflunarkvöld fyrir Skálann, skátaheimili sem Mosverjar keyptu sl. haust. Síðustu vikur hafa farið í  að standsetja salinn í skátaheimilinu til þess að hægt verði að leigja hann út og þar með auðvelda reksturinn á húsinu.

Auglýsingin fyrir kvöldið lofaði m.a Bræðrabandinu, töfrabrögðum, leynigest og flugeldasýningu. Þar sem notkun flugelda er aðeins leyfð samkvæmt lögreglusamþykkt dagana 28.-31. desember og 6. janúar fór bara fram sýning á flugeldum. Þeim verður svo skotið upp 28. desember n.k.

Einnig var boðið upp á dýrindis veitingar: heitt kakó, vöfflur, kaffi og súkkulaðitertu.

Mosverjar vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra er lögðu leið sína í Skálann í gær og einnig sérstakar þakkir til allra þeirra er tróðu upp og skemmtu. Rikk Tikk fyrir þeim.

Að lokum skora Mosverjar á önnur félög að standa fyrir skemmtikvöldum svo við skátarnir getum haft gaman saman.