Efni sem á að fara í stóra myndarammann efst á forsíðunni.

Sjöundi var Hurðaskellir,
– sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í rökkrinu
fá sér vænan dúr.

Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó harkalega marraði
hjörunum í.  

Jóhannes úr Kötlum

 

Hurðaskellir kom í nótt með nýjan Nóra fyrir skátahreyfinguna. Þeir sem eru með aðgang ættu endilega að nýta sér jólin til að skoða og prufa og læra á nýjan Nóra.

Breytingin fyrir foreldra/forráðamenn er lítil og því ætti hún ekki að hafa áhrif á þeirra notkun.

Nóri er félagatal og viðburðaskráningarkerfi sem við notum til skráninga fyrir þátttakendur og sjálfboðaliða.

Við starfsfólk Skátamiðstöðvarinnar munum aðstoða ykkur eftir bestu getu en við eru líka að læra…

 

Helsta breytingin er sú að nú er einn vefur hvort sem þú ert starfsmaður eða þátttakandi/forráðamaður. Það fara því allir inn á skatar.felog.is og skrá sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum.

DMS uppfærsla var send út fyrir helgi og þurfa allir að hlaða henni niður sem hafa aðgang að DMS. Þar helst lykilorð óbreytt en notendanafn verður kennitala.

 

Gangi ykkur vel með nýjan vef.

 

:: Hér má finna handbók Greiðslumiðlunar fyrir Nora 2

 

Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans er í dag, 5. desember. Það eru yfir 10 milljón sjálfboðaliðar í skátahreyfingunni og hlutverk þeirra er að styðja við ungmennastarfið og deila út jákvæðum boðskap skátanna í verki. Íslenskir skátar unnu þrekvirki við undirbúning og framkvæmd World Scout Moot í sumar og sýndu þar sannkallað fordæmi í verki sem mun veita innblástur um ókomna tíð.

Nú er komið að verkefni sem hefur verið í gangi í yfir 100 ár og það er að styðja við störf sveitarforingja. Sveitarforingjar í skátastarfi eru mikilvægustu sjálfboðaliðarnir í skátahreyfingunni og verkefni sjálfboðaliða ársins 2018 er að styðja við þeirra störf.

Jakob Guðnason hefur verið ráðinn staðarhaldari Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni og mun hann hefja störf 1. febrúar n.k.

Jakob hefur starfað lengi í skátahreyfingunni og gegnt mörgum trúnaðarstörfum. Hann var í núverandi stjórn BÍS en hefur nú sagt sig frá þeim störfum.

Jakob hefur fjölbreytta starfsreynslu og kemur úr starfi sem afgreiðslustjóri hjá Set hf. Hann starfaði sem dagskrárstjóri við Útilífsmiðstöð skáta á árunum 2010-2013.

Skátar bjóða Jakob velkominn til starfa.

Síðastliðinn laugardag, 4. nóvember, áttu fálkaskátar á Suðurlandi frábæran dag í Laugardalnum þar sem þeir tóku þátt í Fálkaskátadeginum. Í ár var dagurinn samstarfsverkefni skátafélaganna Skjöldunga og Garðbúa.

Hressir Mosverjar í Ásabolta.

 

Það voru hátt í 70 skátar sem mættu í Goðheima og þurftu skátarnir að takast á við hinar ýmsu þrautir eins og Ásabolta, Mjölniskast, Skátatafl, Fenrisúlfinn og fleira. Þema dagsins var einmitt norræn goðafræði og því var dagskráin í takt við það.

 

(Óskar) Þór með Mjölni.

 

Þrátt fyrir kalsaveður og vind skemmtu krakkarnir sér við að kynnast goðafræðinni nánar og enduðu daginn á síðdegisvöku…. sem er eins og kvöldvaka nema fyrr um daginn… svona ef þið voruð að velta því fyrir ykkur!

Áður en Bræðralagssöngurinn var sunginn og deginum slitið fengu krakkarnir kakóbolla og kex til að hlýja sér fyrir heimferðina.

 

 

 

 

Hér má finna fleiri myndir af deginum.

 

Skátastarf á Íslandi er 105 ára í dag og það er hægt að líta björtum augum til framtíðar. Skátastarf á erindi til ungmenna í dag alveg eins og það gerði fyrir hundrað árum. Það er verkefni okkar sem að skátastarfi stöndum að tryggja það að skátastarf sé traustur og öruggur vettvangur fyrir ungmenni til að eiga margar af bestu stundum lífs síns, öðlast aukið sjálfstraust, meiri víðsýni, meiri gleði og vaxa á alla vegu. Það tryggjum við með því að gera hlutina vel og hlúa að kjarnanum. Ef kjarninn er í lagi stækkar hann af sjálfu sér.

Til hamingju með afmælið!

Marta Magnúsdóttir,
skátahöfðingi

Jóhanna Björg Másdóttir og Ásgeir R Guðjónsson hafa tekið að sér fararstjórn á World Scout Jamboree 2019.

Þessar vikurnar er verið að kynna Jamboree í skátafélögunum og hvetjum við öll skátafélög til að hafa samband við Jóhönnu og Ásgeir til að fá kynningu og nánari upplýsingar um mótið.

Heimasíða með upplýsingum um Jamboree 2019 fer fljótlega í loftið – fylgist með á www.skatamal.is og á facebook.

Svo má líka senda fyrirspurnir á jamboree2019@skatar.is