Efni sem á að fara í stóra myndarammann efst á forsíðunni.

Náttúrulega, Landsmót Rekka og Róverskáta fór fram 9.-15.júlí síðastliðinn.

44 skátar byrjuðu mótið á því að ganga Laugarveginn á þremur dögum. Fyrsta daginn var gengið frá Landmannalaugum, í gegnum Hrafntinnusker og í Álftavatn þar sem var tjaldað. Næsta dag var gengið í Emstur og síðasta daginn var gengið í Þórsmörk inn í Bása á Goðalandi. Gangan var krefjandi fyrir hópinn en gleðin og krafturinn skein í gegn. Veður varð með besta móti og varla vart við rigningu eða rok.

Í Básum bættust við 20 íslenskir og 15 danskir skátar til viðbótar. Þá hófst þriggja nátta mót í Básum og nánast umhverfi. Þar að auki komu ýmsir eldri skátar í heimsókn á meðan móti stóð og má ætla að allt að 100 skátar hafi verið á svæðinu þegar mest var.

Skátarnir sem tóku þátt fengu að kynnast flokkakerfinu að eigin raun með því að mynda flokka sem skipt var í tvær sveitir sem hvor fékk sína aðstöðu til eldamennsku. Flokkarnir tóku síðan þátt í dagskrá.  Til upplýsinga um dagskrá og önnur mikilvæg atriði voru haldnir sveitarráðsfundir.
Dagskrá var fjölbreytt og stóð saman af opnum dagskráliðum svo sem lengri og styttri göngum, sigi úr Álfakirkjunni, fræðslu og smiðjum í tjaldbúð. Lögð var áhersla á afslappað umhverfi þar sem hver flokkur valdi sér áskorun sem hentaði.

Ýmsar uppákomur voru á mótinu svo sem föstudagsfjör, stuð-stund Benna, kvöldvaka þar sem gestum og gangandi í Básum var boðið að taka þátt í almennilegri skátakvöldvöku og heilmikil gleði og glaumur.

Hálfur dagur var helgaður samfélagsvinnu. Skátarnir tóku höndum saman og aðstoðuðu Skógræktina í Þórsmörk og Útivist með verkefni á svæðinu. Hópur skáta fór langt upp fyrir Kattahryggi, um hálfa leið upp á Fimmvörðuháls, með fræ og áburð í fötum til að dreifa í kanta gönguleiðarinnar. Stærsti hópurinn tók að sér að bera 20 metra löng og 28 kg plaströr upp í gil fyrir ofan Bása þar sem Útivist er að reisa aðfallsrás í litla virkjun til þess að framleiða rafmagn fyrir aðstöðuna á svæðinu. Labba þurfti með rörin talsverða vegalengd og voru 2-3 skátar um hvert rör. Flutt voru hátt í 70 rör sem voru samtals um 2 tonn að þyngd. Síðasti hópurinn undirbjó birkigræðlinga sem gróðursettir verða í Þórsmörk þar sem aðstoða þarf gróður við að ná sér á strik. Þátttakendur voru ánægðir með að fá að leggja hönd á plóg og skildu sáttir við dagsverkið.
Það skiptust á skin og skúrir í Mörkinni en þessi frábæri hópur skáta naut lífsins í botn allan tímann hvort sem það var pollagalla- eða stuttbuxnaveður. Þátttakendur eru margir hverjir foringjar eða verðandi foringjar í skátafélögum landsins. Það er auðvelt að sjá af lífsgleði, elju og krafti þátttakenda að framtíðin er björt.

[Myndaalbúm]

Sunnudaginn 15. júlí síðastliðinn skrifaði Bandalag íslenskra skáta (BÍS) og Skátasamband Reykjavíkur (SSR) undir samning varðandi Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni.
BÍS mun kaupa hlut SSR í ÚSÚ og verður þá BÍS eini eigandi ÚSÚ.
Allir aðilar eru ánægðir með samninginn og mikil gleði ríkir fyrir framtíðinni.

 

Við hvetjum auðvitað alla skáta landsins til þess að nýta svæðið á Úlfljótsvatni í útilegur og dagsferðir.

Landsmót fálkaskáta heppnaðist stórkostlega vel!

Fálkaskátar flykktust saman á Laugar í Sælingsdal og tóku þátt í frábærri dagskrá að víkingasið.
Dagskráin sló í gegn! Þar var farið í ýmsar þrautir og leiki, lært að skilmast, föndrað, sungið, gengið, hlegið og hlaupið. Svo fátt eitt sé nefnt. Meira að segja skein sólin á skátana um helgina!

Fálkaskátarnir settu upp tjaldbúð og fengu tækifæri til að spreyta sig í matseld og tjaldbúðavinnu.

Stemmingin var frábær á svæðinu og allir fóru kátir og glaðir heim eftir æðislegt mót! Mótsstjórn á stórt hrós skilið og við hrópum “B-R-A-V-Ó!” fyrir þeim.

Takk fyrir frábært mót allir sem að því komu, og við hlökkum til næsta móts.

Hér má sjá fleiri myndir frá mótinu. 

Öðru af fjórum landsmótum aldursbilanna lauk í gær. 
Dróttskátar settu mótið sitt í Viðey síðasta miðvikudag og var því slitið seinnipartinn í gær, sunnudag.

Margt var bardúsað á mótinu, flekagerð og siglingar, sig og klifur, gönguferðir, menningaferðir og fleira.

Mörg skátamót hafa verið haldin í Viðey með tilheyrandi “Viðeyjarmóts-dagskrá” og margar helstu hefðir Viðeyjarmóta voru hluti af dagskrá landsmóts dróttskáta.
Til dæmis var dansað dátt á Bryggjuballi og fótboltamót var haldið á milli dagskrárliða!

Haldnar voru fjörugar kvöldvökur, skátarnir æfðu sig í að kveikja eld og gerðu skemmtilega keppni úr því og á laugardegi grilluðu allir saman yfir langeldi.

Síðast en ekki síðst má segja að dróttskátar lærðu og æfðu sig í að hafa ofan af fyrir sjálfum sér, sem oft er eitt af því sem dróttskátar gera best. Skáti er jú sjálfstæður.

Dróttskátar eru uppátækjasamir og láta veðrið ekki stoppa sig í að hafa gaman!
Skoðaðu myndirnar til þess að fá tilfinningu fyrir stemminguninni á landsmóti dróttskáta.

Smelltu hér til að sjá mynda-albúmið.

Drekaskátamót er frábær hefð og mikil tilhlökkun er fyrir mótinu ár hvert.
Margir skátar voru að gista í fyrsta skipti í tjaldi og drekaskátamót er frábær áskorun fyrir skáta á aldrinum 7 – 9 ára.

Mótið í ár var fyrsta landsmót drekaskáta og það sló í gegn!
Þemað var táknræn umgjörð drekaskáta, sem eru dýraheimasögur.
Skátarnir fóru allir sáttir og glaðir heim eftir helgi sem var full af fjöri, leikjum og reynslu.

Skátarnir sýndu vináttu og gleði hvert sem þau fóru tóku þátt í fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá.

“Mynd segir meira en þúsund orð” hefur oft verið sagt, og það á vel við.

Kíktu í albúmið á Facebook síðunni okkar, eða inn á Instagram til þess að upplifa stemminguna í myndum!

Sjáumst hress á næsta ári!

… sem gera um 1360 kennslustundir eða rúmlega 54.000,- mínútur sem líka má yfirfæra í 22 framhaldsskólaeiningar!

Dagana 4.-6. júní iðaði Skátamiðstöðin af fræðslu og fjöri því í upphafi hvers sumars er komið að því að fræða öll þau ungmenni sem vinna við útilífsskóla skátafélaganna á sumrin.

Skólastjórar og aðstoðarskólastjórar hittust tvo daga, mánudag og þriðjudag frá 10-14 og fræddumst um hin ýmsu mál sem þau þurfa að sinna, svo sem skráningar, mannauðsstjórnun, ábygð og skyldur, frávik í hegðun og heilsufari og margt fleira sem gott er að kunna og vita. Þau nýttu einnig tímann til að samræma, deila og vinna með hugmyndir sem upp komu. Rakel Ýr Sigurðardóttir kom inn sem gesta fyrirlesari og fræddi um hvernig er best að vinna með hóp ungmenna sem eru að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaðinum.

Starfsmenn sumarnámskeiðana (vinnuskólaliðar) mættu aftur á móti þrjá daga, mánudag, þriðjudag og miðvikudag.

Á mánudeginum var 4 klst. Fyrstu hjálpar námskeið undir stjórn Sigrúnu Jónatansdóttur og Guðrúnar Þóreyjar Sigurbjörnsdóttur.

Á þriðjudeginum var svo Verndum þau námskeið, námskeið um barnavernd. En þar er frætt um andlega, líkamlega og kynferðislega misnotkun á börnum og hvað á að gera ef við heyrum af eða verðum áskynja um hjá börnunum. Þetta námskeið er á vegum Æskulýðsvettvangsins og fyrirlesari að þessu sinni var Þorbjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur frá Barnahúsi.

Miðvikudeginum var svo varið í almenna fræðslu um hlutverk þeirra sem starfsmenn útilífsskólanna, réttindi og skyldur, hvað ber að varast, hvernig á að koma fram og tala við börn, frávik í heilsufari og hegðun ásamt skemmtilegri kennslu í leikjastjórnun sem Egle Sipaviciute fór með þau í. Þau lærðu þar nýja og skemmtilega leiki og einnig af hverju við förum í leiki…

Námskeiðið þeirra endaði svo á Pizzuveislu sem hvarf hraðar en ís í sumarsólinni.

Stjórnandi beggja námskeiðanna var eins og undanfarin ár hún Dagbjört Brynjarsdóttir – Dagga – en þetta var síðasta verkefnið hennar sem starfsmaður Skátamiðstöðvarinnar. Hún heldur nú út í sumarfríið (og drekaskátamót um helgina) og við taka ný verkefni hjá henni í haust. Hún hættir þó ekki að skátast því að sjálfsögðu heldur hún áfram að vera Drekatemjari í Mosverjum ásamt því að hún er í fararstjórn íslenska hópsins á Alheimsmót skáta í N-Ameríku næsta sumar.