Efni sem á að fara í stóra myndarammann efst á forsíðunni.

Alls hefur 1.500.000 dósum og flöskum verið skilað til endurvinnslustöðvarinnar í Skátamiðstöðinni að Hraunbæ 123 frá því hún var opnuð fyrir ári síðan. Viðskiptavinurinn sem skilaði inn tímamótadósinni heitir Valgerður Andrésdóttir og fékk hún að launum sígrænt jólatré frá skátunum og blómvönd.

Allra ávinningur

Það er ávinningur allra að skila dósum til Skátanna. Viðskiptavinir móttökustöðvarinnar fá að sjálfsögðu sitt 14 krónu skilagjald  á hverja einingu eins og á öðrum stöðvum og skátarnir fá þóknum frá Endurvinnslunni fyrir hverja afgreidda einingu. Með því að koma með dósirnar sínar í móttökustöðina í Hraunbænum stuðlar fólk einnig að fleiri atvinnutækifærum fyrir fatlaða, því nokkrir einstaklingar með skerta starfsgetu vinna hjá Grænum skátum, eins og rekstrareiningin heitir.

Rafræn túrbótalningarstöð

Móttökustöðin í Hraunbænum er aðeins ársgömul og búnaður hennar með því besta sem gerist.   Viðskiptavinir Skátanna geta komið í móttökustöðina án fyrirhafnar við að telja umbúðirnar og geta sturtað umbúðunum í túrbótalningavélina og losna þar með við allt subb. Nákvæmnin er mikil og allt skilagjald skilar sér til viðskiptavinarins.

Góð leið fyrir félagasamtök

Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Grænna skáta, segir að þau vilji þjónusta og létta undir með félagasamtökum.  „Yfir jólahátíðirnar og eftir áramót bjóðum við félagasamtökum og öðrum sem safna dósum að koma með dósirnar til okkar og telja.  Það er fjórfaldur ávinningur. Við eflum  endurvinnslu á Íslandi, leggjum fjáröflun viðkomandi einingar lið, styrkjum skátastarf á Íslandi og losnum við allt subb í heimahúsum,“ segir hann.

Móttökustöðin í Hraunbæ 123 er opin alla virka daga kl. 12:00 – 18:00 og laugardaga og sunnudaga kl. 12:00 – 16:30. Sími 550-9800

Nánari upplýsingar veitir Hermann Sigurðsson, farsími 693-3836

Meðfylgjandi er ljósmynd af verðlaunahafanum með ánægðum starfsmönnum í rafrænu móttökustöðinni í Hraunbæ 123.

Ljósmyndari; Skátarnir

BETLEHEM: Í byrjun desember, ár hvert, ferðast ungur drengur eða stúlka frá Austurríki til Betlehem til að tendra Friðarljósið. Friðarljósið er svo fært til Vínarborgar þaðan sem því er deilt um allan heim.

Þann 14. desember munu skátar hvaðanæva úr Evrópu taka þátt í athöfn í Vín þar sem þeir munu tendra kerti af Friðarloganum og færa logann heim til sín sem tákn um frið og von. Skátar hafa tekið þátt í þessu verkefni í 25 ár og hér á Íslandi hafa St. Georgsskátar, félagsskapur eldri skáta, haft veg og vanda að verkefninu.

:: Nánar um verkefnið

:: Friðarloginn á Íslandi

Skátarnir ætla að fjölga fullorðnum í skátastarfi og nú um helgina var þétt setið á námskeiði um mannauðsstjórnun sem er liður í því uppbyggingarstarfi.  „Við viljum opna skátahreyfinguna, bjóða nýtt fólk velkomið til okkar og fjölga fullorðnum,“ segir Benjamín Axel Árnason stjórnandi námskeiðsins.

„Þátttaka var langt umfram væntingar og er okkur mikil hvatning til að halda áfram á þessari braut,“ segir hann. Námskeiðið var vel sótt en yfir sjötíu þátttakendur voru á námskeiðinu og komu frá 19 skátafélögum, Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni, og Bandalagi íslenskra skáta.

Frískir vindar í leiðtogaþjálfun

Námskeiðið um helgina var fyrsta framhaldsnámskeiðið í leiðtogaþjálfun skátanna eftir breytingar sem gerðar voru nýlega. Fjallað var um mannauðsstjórnun í skátastarfi og hvernig leiða á það starf, bjóða fólk velkomið og gera starfið aðgengilegt og aðlaðandi. Leiðtogaþjálfun skáta heitir Gilwell og eins og nafnið bendir til er það hluti af alþjóðastarfi hreyfingarinnar.  Leiðbeinendur sem fengnir voru hafa mikla reynslu af mannauðsstjórnun í fyrirtækjum og í sjálfboðastarfi.

„Skátahreyfingin vill bjóða fleiri börnum og ungmennum til þátttöku kraftmiklu og vönduðu uppeldisstarfi. Til að við náum því verðum við að fá fleiri fullorðna til liðs við okkur og einnig viljum við styðja við þá sem eru þegar í starfi. Við viljum veita fólki góðar og hagnýtar upplýsingar og aðferðir til að útfæra gott starf. Undirtektir við þessu námskeiði og frábær þátttaka færa okkur mikinn kraft í að halda áfram á þessari braut“, segir Benjamín.“

Sjálfboðaliðar nauðsynlegir í barna- og ungmennastarfi

„Það er ekki hægt að reka íþróttastarf á Íslandi án sjálfboðaliða, það er svo einfalt,“ segir Þráinn Hafsteinsson yfirþjálfari hjá frjálsíþróttadeild ÍR. Hann deildi reynslu sinni með skátunum en starf frjálsíþróttadeildarinnar er mjög öflugt um þessar mundir. Skátahreyfingin og íþróttastarfið eigi það sameiginlegt að vera byggt upp á sjálfboðavinnu og því sé mikilvægt sé að hlúa vel að þessum hópi og umbuna honum.

„Þetta er ekkert sjálfsagt mál heldur er þetta mikilvægt framlag inn í starfið og samfélagið almennt. Að taka ábyrgð og vinna með öðrum í samfélaginu er mjög göfugt og við teljum okkur vera að leggja fólki til verkefni þar sem það lærir samvinnu og samfélagslega ábyrgð,“ segir Þráinn.

Mikilvægt umræðuefni

„Ég er ánægður með framtakið. Þetta er þarft umræðuefni sem kemur okkur öllum við, sérstaklega til að koma í veg fyrir að fólk brenni út of snemma og hætti í hreyfingunni,“ segir Kristján Jóhannes Pétursson, fyrrverandi félagsforingi Skátafélags Borgarness og einn af þátttakendum námskeiðsins. Valborg Sigrún Jónsdóttir, sveitarforingi í Árbúum og þátttakandi tók undir orð Kristjáns.

„Við komumst að því hvar við sem hreyfing stöndum höllum fæti, við þurfum fleira fólk. Okkur voru sýndar aðferðir til að bæta úr því svo núna getum við byrjað að gera eitthvað í málunum og vonandi fengið fleiri með okkur í lið,“ segir Valborg.

Skátahreyfingin er opin öllum sem hafa áhuga á starfinu og gildum þess. Þar er þörf fyrir fjölda fullorðna sjálfboðaliða til að vinna með öðrum fullorðum og sinna störfum sem ekki snúa beint að börnum og unglingum.

Seinni hluti námskeiðsins verður 1. febrúar 2014. Það er opið öllum og mun skráning fara fram á heimasíðu skátanna  www.skatar.is.

Við búum í þjóðfélagi þar sem breytingar hafa orðið miklar á undanförnum mánuðum og árum. Þessar breytingar eru ekki allar jákvæðar og þær reyna sennilegar mest á unga fólkið okkar, fólkið sem á að erfa landið.

Skátahreyfingin býr yfir reynslu og þekkingu af því að þroska og efla ungt fólk með því að skapa því skilyrði til að takast á við þroskandi verkefni í hópstarfi þar sem allir eru með.

Það er okkar hlutverk að gera sem flestum kleift að kynnast hreyfingunni og taka þátt í þroskandi starfi til að efla þessa einstaklinga og skapa þannig betra samfélag.

Stjórn Skátafélagsins Klakks fól undirituðum félagsforingja með stuðningi Bandalags íslenskra skáta að undirbúa og sjá um stefnumótun fyrir félagið á Akureyri. Við ætlum okkur að fá til liðs við okkur hóp af frábæru fólki til að skipuleggja, stjórna og taka þátt í þessu verkefni.

Framundan er spennandi vinna við stefnumótun og að draga upp framtíðarsýn fyrir skátafélagið Klakk. Mig langar að bjóða þér að taka þátt og leggja þitt lóð á vogarskálarnar við þessa vinnu.

Haldinn verður vinnufundur sunnudaginn 24. nóvember í Útilífsmiðstöðinni að Hömrum. Við byrjum kl. 12:00 Þá er ætlunin að fara í ákveðna greiningarvinnu (SVÓT) til að átta okkur á stöðu lykilþátta í starfsemi okkar og fara síðan í framtíðarsýn félagsins ofl.

Vertu með í að móta framtíðina.

Vinsamlegast láttu sem fyrst vita um hvort þú hefur tök á að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni með okkur, helst eigi síðar en nk. fimmtudaginn 21 . nóvember. Hægt er að skrá sig með því annaðhvort með því að skrá sig í skráningarkerfinu www.skatar.is/vidburdaskraning, hringja í síma 862-4593 eða senda tölvupóst ámaggaogari(hjá)simnet.is

 

Með skátakveðju

Margrét Th. Aðalgeirsdóttir,

Félagsforingi  Skf. Klakks

Bandalag íslenskra skáta auglýsir eftir umsóknum um þátttöku í Crean-vetraráskoruninni árið 2014. Tveggja vikna útivistarævintýri og áskorun fyrir ungt fólk á aldrinum 14-15 ára (fæddir 1998-1999).

Verkefnið er samstarfsverkefni BÍS, Landsbjargar og Scouting Ireland. Frá Írlandi koma allt að 20 skátar sem farið hafa í gegnum langt umsóknar- og matsferli. Frá Landsbjörgu koma allt að 10 þátttakendur og frá BÍS allt að 10 þátttakendur.

Markmið verkefnisins er að þátttakendur verði færir um að bjarga sér í vetrarferðum á fjöllum. Þeir læra undirstöðuatriði fjallaferða og vetrarferðamennsku. Meðal annars skyndihjálp á fjöllum, vetrarferðamennsku, rötun og kortalestur, GPS, næringarfræði ferðamannsins, skálahegðun og ferðareglur í hópferðum, veðurfræði á fjöllum, og ýmislegt annað sem talið er skipta máli.

Verkefnið skiptist í vetrarferðir og verkefni unnin í frítíma.

Ferðirnar eru:

  • 22.-24. nóvember – í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Inni og útiverkefni í vetrarferðamennsku.
  • 10.-12. janúar – í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Gönguferð og verkefni í vetrarferðamennsku.
  • Vika í febrúar (nánari tímasetning síðar líklega 9.-16. feb) – Úlfljótsvatn og Hellisheiði. Verkefni og vetrarferð. Vikutími þar sem þátttakendur gætu þurft að taka frí í skóla.

Þátttakendur þurfa að mæta í allar ferðirnar.

Auk ferðanna þurfa þátttakendur að vinna heimaverkefni í formi leiðarbóka. Verkefnin eru á sviði vetrarferðamennsku, sjálfskoðunar, markmiðasetninga og samfélagsvinnu. Vinna þarf öll verkefnin á tilsettum tíma til að geta haldið áfram í verkefninu. Verkefnisstjórnin áskilur sér rétt til að enda þátttöku ef að þátttakendur eru ekki að standa skil á verkefnum eða sýna að þeir hafa ekki getu eða vilja til að ljúka verkefninu.

Kostnaður við ferðina er 39.000 á mann. Innifalið í því er allur matur í öllum ferðunum, gistingar og ferðir til og frá Skátamiðstöðinni. Þátttakendur þurfa sjálfir að koma sér í Hraunbæ 123 og heim aftur.
Þátttakendur þurfa að hafa allan helsta búnað til vetrarferða s.s. góðan skjólfatnað, svefnpoka sem þolir vetrarveður, bakpoka og gönguskó. Ekki er nauðsynlegt að eiga klifurbúnað, ísaxir, brodda, skíði, tjöld eða eldunarútbúnað.

Takmarkaður fjöldi þátttakenda kemst að í verkefninu. Umsóknir og umsagnir ráða úrslitum um hverjir eru teknir inn. Það er því mikilvægt að leggja mikið í umsóknina.

Umsækjendur þurfa jafnframt að gera sér grein fyrir að ætlast er til 100% þátttöku bæði í ferðum og í verkefnavinnu.

Umsókn:

Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í Crean- vetraráskorun þurfa að skrá sig í gegnum viðburðaskráningakerfi skátanna fyrir 1. nóvember.

Í gluggann sem heitir „upplýsingar til stjórnenda viðburðar“ þarftu að skrifa aðeins um þessi atriði:

  • Verkefni innan skátahreyfingarinnar.
  • Bæði foringjastörf (ef einhver) og verkefni s.s. ferðir og útilegur (Jamboree, fjallaferðir og annað slíkt).
  • Hvers vegna villtu taka þátt í Crean-vetraráskoruninni?
  • Hvernig telur þú að verkefnið muni nýtast þér í framtíðinni?
  • Hvernig muntu nýta það sem þú lærir fyrir skátana?

Skila þarf:
Leyfisbréfi frá foreldrum sem fæst hjá BÍS (taka þarf fram að umsækjandi fái frí í skóla sé það nauðsynlegt)
Umsögn frá skátaforingja og félagsforingja

Jón Ingvar viðburðastjóri Bís tekur við fylgigögnum í tölvupósti, jon@skatar.iseða útprentuðum á pappír og veitir frekari upplýsingar.

Gilwell-nemar sérhæfa sig eftir því hvort þeir eru á sveitarforingjaleið eða stjórnunarleið. Fjórða skrefið er næstsíðasta skrefið í Gilwell-leiðtogaþjálfun. (1. og 2. skref eru nauðsynlegir undanfarar).

Sveitarforingjaleið
Þátttakandinn:
– Skipuleggur dagskrárhring fyrir skátasveit
– Lærir aðferðir til að fá skáta til að hafa frumkvæði og taka þátt í ákvörðunum í skátastarfi
– Lærir á táknræna umgjörð skátastarfs
– Lærir leiðir til að hvetja skátana til skapandi verkefna
– Tekur virkan þátt í sameiginlegu mati Gilwell-þátttakenda

Stjórnunarleið
Þátttakandinn:
– Skipuleggur verkefni eða viðburð sem ætlaður er stórum hópum skáta frá mörgum skátafélögum
– Lærir á uppbyggingu skátahreyfingarinnar á Íslandi og á alþjóðavettvangi
– Lærir á fjáröflun, skipulagningu og stjórnun á stærri viðburðum og verkefnum við skátastarf, markaðsvinnu, rekstrarmál og skýrslugerð
– Lærir á helstu atburði sem skátum á Íslandi bjóðast utan við hefðbundið skátastarf í hverri skátasveit
– Tekur virkan þátt í sameiginlegu mati Gilwell-þátttakenda

Fullorðnir sjálfboðaliðar með góða leiðtogahæfni eru kjölfestan í skátastarfi. Gilwell-leiðtogaþjálfun eykur færni fyrir þetta mikilvæga hlutverk. Þar öðlastu þekkingu og færni til að leiða starfið á þeim fjölbreytta vettvangi sem skátastarf er. Gilwell-leiðtogaþjálfun eykur sjálfstraust og nýtist vel í atvinnulífinu.

Góður leiðtogi er ekki sá sem stjórnar eða leiðir aðra einhliða „eins og herforingi“. Góður leiðtogi getur unnið í teymi með öðrum og laðað fram það besta bæði hjá einstaklingum og hópum – og góður leiðtogi er líka „leiðtogi í eigin lífi“.
Skráning hér

Fyrir nánari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við undirritaða,
Ása Sigurlaug Harðardóttir, Verkefnastjóri fullorðinsfræðslu