Efni sem á að fara í stóra myndarammann efst á forsíðunni.

Fundarmynd
Það er hugur í drekaskátaforingjum sem hittust í Skátamiðstöðinni í gærkvöldi og ræddu málefni yngstu skátanna. Farið var yfir sameiginlega viðburði sem eru framundan, Drekaskátadaginn, sem haldinn verður í Kópavogi 1. mars og Drekaskátamótið í júní, en það er fyrir marga krakkana fyrsta skátaútilegan.

Drekaskátarnir eru fyrir 7 – 9 börn og er mikil aðsókn í þau félög sem áttu fulltrúa á fundinum. Hægt væri að bæta við foringjum til að mæta eftirspurn.

Sigríður Júlía, Hraunbúum, Grímur, Svönum, Liljar Már, Segli og Ásta Guðný úr Heiðabúum.

Sigríður Júlía, Hraunbúum, Grímur, Svönum, Liljar Már, Segli og Ásta Guðný úr Heiðabúum.

Í umræðu um samskipti við foreldra var samhljómur um að best væri að senda tölvupósta reglulega með upplýsingum hvað gert væri á fundum og hvað sé framundan. Magnea Tómasdóttir drekaskátaforingi í Kópum sagði „gott að foreldrar fylgist með börnunum og einnig gott að þau fái að vera börn án foreldra“.

Aníta Ósk, Heiðabúum, Magnea, Kópum, Sigþrúður og Aðalbjörg, Svönum og Ingibjörg, Unnur og Jón Ingvar frá BÍS.

Aníta Ósk, Heiðabúum, Magnea, Kópum, Sigþrúður og Aðalbjörg, Svönum og Ingibjörg, Unnur og Jón Ingvar frá BÍS.

Gríðarlega vel hefur gengið að innleiða lýðræðisleiki í starfið sem gefa skátunum færi á að velja dagskrá á eigin forsendum. Ánægja var með úrval af verkefnum á dagskrárvefnum og þann stuðning sem foringjum stendur til boða í skátamiðstöðinni.

 

Kynning á skatarnir.is >  Drekaskátar 7 – 9 ára.  

SVIDI-ALLT-I-REYK---MYND-MED-FRETT-UM-FRAEDSLUKVOLD-16.1.14.2

„Reykurinn varð svo mikill að dansararnir hurfu og fólkið sem sat framarlega í hópnum, skátahöfðingi ásamt fyrirmennum og gestum, þurfti að hörfa frá“, segir Björn Hilmarsson margreyndur varðeldasstjóri kíminn um minnistætt atvik frá Landsmóti skáta árið 1990. „Við vorum beðnir að setja smá leikhúsreyk sem átti að liðast um gólfið á sviðinu um fætur dansaranna, en höfðum aldrei notað svona áður og settum allt of mikið af dufti í pottinn.“
„Þessi reynsla hefur oft vakið hlátur í minningunni og en um leið kennt okkur að gera ALDREI eitthvað á kvöldvökum sem við höfum ekki prófað áður“, segir Björn en hann leiðbeinir ásamt Gunnari Atlasyni og Guðmundi Pálssyni á fræðslukvöldi þar sem þeir ætla að kenna öll trixin í kvöldvöku- og varðeldastjórnun.

Gleði og fræðsla á fimmtudag

„Þetta verður bara eintóm gleði,“ segir Gummi Páls sem þykir fátt skemmtilegra en að taka lagið í góðra vina hópi. Þeir félagar hvetja fólk til að mæta í Skátamiðstöðina á fimmtudagskvöldið og hafa gaman saman!  „Og komast að leyndarmálunum á bak við að góða kvöldvöku sem lifir í minningu skátans í 100 ár, ef hann lifir svo lengi“ bætir Gunni Atla við.
Fræðslukvöldið á fimmtudag 16. janúar er haldið í Skátamiðstöðinni að Hraunbæ 123 og hefst dagskráin  kl. 19.30. Námskeiðið er ókeypis og opið öllum 16 ára og eldri. Margir hafa þegar skráð sig og má búast við góðri þátttöku. Þeir sem hafa ekki skráð sig eru beðnir um að gera það svo viðburðahaldarar vaði ekki reyk um þátttökuna.
Skráðu þig hér svo viðburðastjórar vaði ekki reyk  >>>

Hagnýt ráð

Þeir félagar munu gefa mörg hagnýt ráð og hér eru til upphitunar 10 atriði sem góðir kvöldvöku- og varðeldastjórar þurfa að hafa í huga:
 1. Vera alltaf vel undirbúin/n. Undirbúa dagskrá eftir aldri skátanna – yngri skátar hafa ekki úthald í langa dagskrá.
 2. Hafa pall – svið – hljóðkerfi – ef hópurinn er stór og skjávarpa fyrir texta frekar en textablöð
 3. Sjá skemmtiatriði ÁÐUR en þau fara „á svið“. Passa að þau séu ekki of löng.
 4.  Ekki gera neitt sem þú hefur ekki prófað áður
 5.  Hafa hljóðfæraleikara/undirspil ef hægt er, stilla hljóðfærin áður.
 6.  Láta alla sitja þétt og helst í röðum, það er gott fyrir hreyfisöngvana.
 7. Ef kvöldvakan er úti – passa vindátt – að neistar úr varðeldi fari ekki yfir hópinn.
 8. Ekkert hlé! Vera tilbúinn með aukalag eða leik ef það kemur bið eftir einhverju.
 9. Hafa aðstoðarfólk í að stýra hreyfisöngvum og láta alla taka þátt
 10.  Auðvitað er svo aðalatriðið að slá taktinn !

Hópur úr dróttskátasveitum landsins og unglingadeildum Landsbjargar fór í 10 km göngu á Hellisheiði um liðna helgi og gistu í tjaldi. Ferðin er hluti af verkefninu Vetraráskorun sem Skátarnir og Landsbjörg standa að, en markmið þess er að gera þátttakendur færa um að bjarga sér í krefjandi vetrarferðum.

Hópurinn gekk frá Hellisheiðavirkjun upp í Innstadal þar sem var tjaldað. Daginn eftir var haldið heim á leið í þungu færi og miklum vindi og skafrenningi. Fararstjórarnir Gísli Bragason og Finnbogi Jónasson segja að ferðin hafi reynt á úthald og  skipulag í vetrarferðum þar sem skátar tókust á  við kulda, snjó og vind. Dagleg verkefni eins og að tjalda og elda verða erfið viðfangs við slíkar aðstæður.

Crean Vetraráskorunin

Vetraráskorunin er samstarfsverkefni írskra og íslenskra skáta. Hún er kennd við írska pólfarann Crean, sem m.a. tók þátt í heimsskautsferð Scott fyrir um öld síðan.

Þetta er í þriðja sinn sem boðið er upp á þessa dagskrá hérlendis og tekur hún nokkra mánuði. Í lok nóvember var haldið helgarnámskeið í útiferðamennsku, um liðna helgi var gönguferð og í febrúar verður vikulöng ferð með írsku þátttakendunum. Þá verður dvalið í Skátamiðstöðinni á Úlfljótsvatni og á Hellisheiði.

Auk ferðanna vinna þátttakendur verkefni á sviði vetrarferðamennsku, sjálfskoðunar, markmiðs­setningar og samfélagsvinnu. Gerðar eru ákveðnar kröfur eru um verkefnaskil, þátttöku og áhuga.   Markmið Vetraráskorunarinnar er eins og áður segir að gera þátttakendur færa um að bjarga sér í vetrarferðum á fjöllum. Þeir læra undirstöðuatriði fjallaferða og vetrarferðamennsku. Meðal annars er kennd skyndihjálp á fjöllum,  rötun og kortalestur, GPS, næringarfræði ferðamannsins, góðir siðir í skálum og ferðareglur í hópferðum og veðurfræði á fjöllum.

Eftirsótt áskorun

Tuttugu manns á aldrinum 14 – 16 ára taka þátt núna og segir Guðmundur Finnbogason, verkefnisstjóri Vetraráskorunar Crean, að færri hafi komist að en vildu. Umsækjendur þurfa töluvert að hafa fyrir að komast í hópinn með umsóknum og síðan auðvitað að sanna sig þegar á hólminn er komið.

Nú um helgina útskrifaðist hópur úr leiðtogaþjálfun skáta og var mikil gleði ríkjandi á Úlfljótsvatni og var boðið til útskriftarveislu í námskeiðslok. Vegna slæmrar veðurspá þurfti þó að flýta þessum hluta námskeiðsins þar sem veðurstofan var búin að vara við slæmu veðri og færð. Flestir þeirra sem tóku þátt núna eru starfandi skátar eða hafa starfað sem skátar og nota þjálfunina til að komast inn í starfið á nýjan leik.

Nokkra breytingar hafa verið gerðar undanfarin ár á leiðtogaþjálfun skáta. Hún byggir á alþjóðlegum grunni og er meðal annars kennd við Gilwell Park í London.  Þetta er annar hópurinn sem lýkur Gilwell-leiðtogaþjálfun fyrir fullorðna sjálfboðaliða í skátastarfi samkvæmt breyttu fyrirkomulagi. Með þessum hópi sem nú lýkur þjálfuninni hafa yfir 30 Gilwell-skátar útskrifast á innan við einu ári. Meðalaldur þeirra er um 35 ára.

Námið höfðar betur til fullorðinna

Ólafur Proppé, sem leiðir fræðslumál skáta segir að beytingarnar felist aðallega í því að gera námið sveigjanlegra, brjóta það upp í smærri skref og koma þannig betur til móts við ólíkar aðstæður fullorðinna sjálfboðaliða. „Breytingarnar eru líka fólgnar í því að aðlaga leiðtogaþjálfunina betur að kenningum og reynslu af fullorðinsfræðslu. Við endurskoðun á Gilwell-þjálfuninni höfum við stuðst mikið við reynslu á alþjóðavettvangi og í einstökum löndum eins og t.d. Bretlandi og Írlandi svo einhver séu nefnd,“ segir Ólafur.

Leiðarbók fyrir Gilwell-þjálfunina er endurútgefin og byggir sú endurskoðun á reynslu eins og hálfs árs. Ólafur segir að í grunninn hafi tekist vel til og breytingar fólgnar í minni hátta lagfæringum.  „Breytingarferlinu er þó alls ekki lokið, en það er nátengt miklu átaki skátahreyfingarinnar um fjölgun fullorðinna í skátastarfi og virkjun nýs mannauðskerfi skátafélaga og Bandalags íslenskra skáta. Stefnt er að því að um 100 Gilwell-skátar verði útskrifaðir á ári innan fárra ára“, segir Ólafur.

Alþjóðlegt nám aðlagað aðstæðum hér

Gilwell-leiðtogaþjálfunin stendur á gömlum merg. Hún hófst 1919 í Gilwell Park í London og frá 1959, eða í rúmlega hálfa öld, hefur reglubundið verið boðin slík leiðtogaþjálfun hér á landi. Þjálfunin er fyrir fullorðna sjálfboðaliða í skátastarfi en gagnast þátttakendum líka í persónulegu lífi. Hún er byggð á samræmdum ramma frá alþjóðasamtökum skáta og er boðin í meira en hundrað löndum. Gilwell-þjálfunin er þó aðlöguð menningu og aðstæðum í hverju landi fyrir sig. Dæmi um ávinning af alþjóðlegri tengingu skátanna er að  ástralskir skátar haf boðið íslenskum skátum að nota netnámskerfi sitt þannig að hægt verður að ljúka hluta þjálfunarinnar í fjarnámi (e-learning).

Leiðtogi í fimm skrefum

Fyrsta námskeið næsta hóps sem fer af stað innan ramma Gilwell-leiðtogaþjálfunarinnar verður laugardaginn 18. janúar næstkomandi. Eins og áður segir er þjálfuninni áfangaskipt til að gera hana aðgengilegri.

Þjálfuninni er lokið í fimm skrefum:

·         Fyrri hluti (skref 1 og 2) eru tvö dagslöng námskeið um starfsgrunn skáta, markmið og leiðir í skátastarfi.

·         Seinni hluti (skref 3-5) samanstendur af tveimur dagslöngum námskeiðum um verkefni í skátastarfi, áætlanagerð, skipulagningu skátastarfs eða viðburðastjórnun og einu helgarnámskeiði um leiðtogafræði þar sem þátttakendur fá m.a. tækifæri til sjálfsmats sem gagnast við leiðtogastörf bæði í skátastarfi og á öðrum sviðum lífsins.

Þátttakendur eru hvattir til að ljúka fyrri hlutanum helst innan sex mánaða og öllum fimm skrefunum innan 12-18 mánaða. Reynslan sýnir að þjálfunin tekur yfirleitt um eitt ár.

Stefnt er að því að sem allra flestir fullorðnir sjálfboðaliðar í skátastarfi ljúki Gilwell-leiðtogaþjálfun. Þeir eru alls ekki skuldbundir til að taka að sér störf sem skátaforingjar, heldur er ekki síður ávinningur „að þeir verði leiðtogar í eigin lífi“,  eins og Ólafur Proppé segir.

Þeir sem hafa áhuga eru beðnir um að vera í samband við Dagbjörtu í Skátamiðstöðinni í síma 550-9800

Öflugur hópur þátttakenda:

Þátttakendur sem luku leiðtogaþjálfuninni núna um helgina eru:

 • Kolbrún Reinholdsdóttir, Mosverjum
 • Valborg Sigrún Jónsdóttir, Árbúum
 • Björk Norðdahl, Kópum
 • Eiríkur Pétur E. Hjartar, Mosverjum
 • Sölvi Þór Hannesson, Hraunbúum
 • Bergný Dögg Sophusdóttir, Skátafélag Akraness
 • Hjördís Jóna Gísladóttir, Svönum
 • Kristín Rós Björnsdóttir, Svönum
 • Bergþóra Sveinsdóttir, Segli
 • Valdimar Már Pétursson, Kópum
 • Þórgnýr Thoroddsen, Vífli
 • Guðrún Inga Úlfsdóttir, Fossbúum
 • Steinunn Alda Guðmundsdóttir, Fossbúum
 • Birna Dís Benjamínsdóttir, Árbúum  

 

Tenglar:  Gilwell – leiðtogaþjálfunin  http://skatamal.is/sjalfbodalidar/gilwell-leidtogathjalfun

Fleiri myndir:

Revolution Slider Error: Slider with alias gilwell_jan_2014 not found.

Nú um helgina stendur yfir á Úlfljótsvatni námskeið hjá hópi sem er að ljúka Gilwell-leiðtogaþjálfun skáta. Hjá þessum fimmtán manna hópi eru að baki nokkrir áhugaverðir og öflugir námskeiðsdagar og margvísleg verkefnavinna. Það er því forvitnilegt að heyra hvað þátttakendur hafa að segja um leiðtogaþjálfunina og hvaða verkefni voru áhugaverðust.

Selskapur fyrir fullorðna

Björk Norðdahl úr Kópum er ánægð með að hafa drifið sig á Gilwell og segir að það hjálpi til við að setja sig inn á skátastarfið á nýjan leik. Hún veit reyndar hvernig hjartað slær í skátunum því hún á nokkur börn sem öll eru í skátastarfi og hefur stutt þau og hvatt áfram.  Eitt af verkefnum Bjarkar á Gilwell var að skoða hvernig best væri að standa að skátastarfi fyrir fullorðna og kallar hún verkefnið Draumasveitin Selirnir, en Selirnir eru skátasveit foreldra, eldri Kópa og annarra sem vilja fá tækifæri til taka þátt í skátastarfi. Selskapurinn starfar í tengslum við skátafélagið Kópa.

Björk segir að markmiðin með starfi Selanna séu nokkur, einkum þó stuðningur við skátastarfið og að skapa foreldrum og eldri skátum tækifæri til að kynnast og rækta áhugamál sín. Selirnir eru:

 • vettvangur fyrir foreldra sem vilja kynnast starfi barna sinna og hverjir öðrum;
 • vettvangur eldri skáta til að vera í tengslum við aðra eldri skáta og foreldra í sínu félagi;
 • boðleið fyrir samskipti foreldra og eldri skáta;
 • vettvangur fyrir stuðning við skátastarfið, hvort heldur við starfið innan skátafélagsins Kópa eða við starfið í skátasveitunum og flokkunum;
 • vettvangur fyrir áhugamál félaga, margvíslegt grasrótarstarf og almennt skátastarf, sjálfsprottið og breytilegt.
 • gamansamur félagsskapur

Draumasveitin Selirnir er ekki bara ímyndað verkefni, heldur er starfið veruleiki og hafa Selirnir nú þegar komið að margvíslegum þáttum í starfi Kópa. Þeir hafa tekið þátt í skátamótum, útilegum og stórum viðburðum eins sumardeginum fyrsta. Fyrr í vetur buðu Selirnir félagsráði og stjórn Kópa að koma meira inn í viðburði á vegum félagsins og/eða skátasveita. Það yrði unnið í samvinnu foringja og Sela. Í boði er að Selir miðli þekkingu sinni til foringja félagsins og jafnvel leggi þeim lið við skátastarfið.  Rætt hefur verið um ýmiss konar námskeið, til dæmis í  ljósmyndun, rötun, ullarvinnslu, video, hjólaviðgerðum, heimasíðugerð eða hverju því sem fólki dettur í hug. Sumir þessara viðburða verða á dagskrá í febrúar og mars.

Leiðtogi í fimm skrefum

Næsti hópur Gilwell-leiðtogaþjálfunarinnar fer af stað í þessum mánuði, en fyrst námskeiðið verður laugardaginn 18. janúar næstkomandi. Þjálfuninni er áfangaskipt í fimm skref:

 • Fyrri hluti (skref 1 og 2) eru tvö dagslöng námskeið um starfsgrunn skáta, markmið og leiðir í skátastarfi.
 • Seinni hluti (skref 3-5) samanstendur af tveimur dagslöngum námskeiðum um verkefni í skátastarfi, áætlanagerð, skipulagningu skátastarfs eða viðburðastjórnun og einu helgarnámskeiði um leiðtogafræði þar sem þátttakendur fá m.a. tækifæri til sjálfsmats sem gagnast við leiðtogastörf bæði í skátastarfi og á öðrum sviðum lífsins.

Þátttakendur eru hvattir til að ljúka fyrri hlutanum helst innan sex mánaða og öllum fimm skrefunum innan 12-18 mánaða. Reynslan sýnir að þjálfunin tekur yfirleitt um eitt ár.

Skátarnir bjóða öllum fullorðnum sjálfboðaliðum í skátastarfi að taka þátt í Gilwell-leiðtogaþjálfuninni.Þeir sem hafa áhuga á  eru beðnir um að hafa samband við Dagbjörtu í Skátamiðstöðinni í síma 550-9800 eða á skatar@skatar.is

Öflugur hópur þátttakenda

Þátttakendur sem ljúka leiðtogaþjálfuninni núna um helgina eru:

 • Kolbrún Reinholdsdóttir, Mosverjum
 • Valborg Sigrún Jónsdóttir, Árbúum
 • Björk Norðdahl, Kópum
 • Eiríkur Pétur E. Hjartar, Mosverjum
 • Sölvi Þór Hannesson, Hraunbúum
 • Bergný Dögg Sophusdóttir, Skátafélagi Akraness
 • Hjördís Jóna Gísladóttir, Svönum
 • Kristín Rós Björnsdóttir, Svönum
 • Bergþóra Sveinsdóttir, Segli
 • Valdimar Már Pétursson, Kópum
 • Þórgnýr Thoroddsen, Vífli
 • Guðrún Inga Úlfsdóttir, Fossbúum
 • Steinunn Alda Guðmundsd, Fossbúum
 • Birna Dís Benjamínsdóttir, Árbúum
 • Jón Halldór Jónasson, Kópum

 

Tenglar:  Gilwell – leiðtogaþjálfunin  http://skatamal.is/sjalfbodalidar/gilwell-leidtogathjalfun

Fjáröflunarfyrirtæki Bandalags íslenskra skáta, Grænir skátar, vilja þakka fyrir viðskiptin á árinu sem er að líða. Reksturinn hefur gengið vel  og um er að ræða stærsta ár Grænna skáta frá upphafi.

Allur ágóði Grænna skáta rennur beint til uppbyggingar á Skátastarfi á Íslandi. Tekjulind Grænna skáta virkar þannig að viðskiptavinir okkar gefa Skátunum skilagjaldskyldar umbúðir og þeir flokka umbúðirnar í túrbótalningarvélinni sinni og skila til Endurvinnslunar. Ágóðinn rennur síðan beint í uppbyggingar á Skátastarfi á Íslandi.

Aukin þjónusta

Grænir skátar hafa safnað skilagjaldskyldum umbúðum frá 1989 og eru í dag með yfir 60 móttökustöðvar og eru með útibú á víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu og eru stærstu útibúin á Sorpustöðvunum. Grænir skátar hafa sett sér það að markmiði að efla sína þjónustu og stefna að á árinu 2014  að fjölga útbúum um helming. Stefnt er á að setja söfnunargáma a allar helstu grenndarstöðvar á höfðuðborgarsvæðinu. Þannig geta viðskiptavinir Grænna skáta nýtt ferðina þegar farið er með annan úrgang í endurvinnslu.

Allra ávinningur

Það er ávinningur allra að gefa endurgjaldskyldar umbúðir til Skátana. Með því er verið að efla endurvinnslu á Íslandi, gefa ungu fólki tækifæri á að iðka þroskandi tómstundastarf hjá öflugu forvarnar- og æskulýðsssamtökum sem Skátarnir eru og stuðla að auknum atvinnutækifærum fyrir fatlaða, því nokkrir einstaklingar með skerta starfsgetu vinna hjá Grænum skátum segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Grænna skáta. Það er því margfaldur ávinningur af því að gefa.

Rekin að mestu með sjálfsaflafé

Landssamtökin Bandalag íslenskra skáta er að mestu rekin með sjálfsaflafé og því er rekstrareiningin Grænir skátar mikilvægur þáttur af starfssemi hennar. Allur hagnaður af rekstri Grænna skáta rennur beint til þess að styrkja skátastarfið. Rekstur Grænna skáta hefur lengi verið mikilvægasta fjáröflun Bandalags íslenskra skáta. Við höfum litið svo á að þetta sé okkar Lottósjóður segir Hermann og bendir á að Skátarnir eru ekki hluti af að Lottósjóðnum og þurfa því að treysta meira á sjálfsaflafé en önnur félagasamtök.

Nánari upplýsingar veitir Hermann Sigurðsson, farsími 693-3836.

Meðfylgjandi með eru af skátum úr Skátafélaginu Mosverjum, Mosfellsbæ.

Ljósmyndari; Skátarnir