Efni sem á að fara í stóra myndarammann efst á forsíðunni.

Í dag er alþjóðlegi sjálfboðaliðadagurinn, dagurinn var fyrst haldinn árið 1985 að frumkvæði félags Sameinuðu þjóðanna. Markmið skátastarfs er að hvetja ungt fólk til að vera virkt í samfélaginu og þegar fjöldinn allur af einstaklingum gefur tíma sinn til þess að svo verði má með sanni segja að þar sé verið að sýna fyrirmynd í verki. Það er einstakt lærdómstækifæri fólgið í því fyrir ungt fólk (á öllum aldri) að gefa tíma sinn og vinnuframlag án þess að fá greitt fyrir það inn á bankabókina, því launin fyrir það að láta gott af sér leiða verða seint metin til fjár.
Það er stöðugt verkefni og áskorun að skapa umhverfi þar sem sjálfboðaliðar fá að njóta sín og vaxa í starfi, það er mjög mikilvægt að veita sjálfboðaliðum skýrar verkefnalýsingar á sama tíma og þeim er veitt frelsi til að ákveða hvað þeir taka sér fyrir hendur.

Til hamingju með daginn sjálfboðaliðar og takk fyrir ómetanlegt framlag!

Skátablaðið hefur verið gefið út og sent á starfandi skáta landsins! Blaðið í ár er með breyttum áherslum þar sem áhersla er lögð á að styðja við gott skátastarf og auðvelda áhugasömum að stunda virkt starf í skátunum. Hér neðar má lesa skemmtilegan pistil frá ritstjóra um breyttar áherslur blaðsins.

Ef að Skátablaðið kom ekki heim til þín þá eru nokkur blöð sem voru endursend í Skátamiðstöðina og einnig eru til nokkur auka blöð fyrir áhugasama.

Hér má nálgast blaðið á rafrænu formi:
:: Rafræn útgáfa Skátablaðsins ::

Hér má nálgast blaðið í prentvænni útgáfu:
:: Skátablaðið – Prentvænt ::

Ritstjórn Skátablaðsins biður lesendur um að svara stuttri könnun um nýja útgáfu blaðsins! Hvað finnst þér um nýjar áherslur og ný viðfangsefni blaðsins? Komdu þínum skoðunum á framfæri með því að taka þátt í könnuninni. Ritstjórn Skátablaðsins þakkar þér fyrir þátttökuna.

:: Smelltu hér til þess að svara könnuninni ::

Ritstjóraspjall,

Breyttar áherslur Skátablaðsins

Fyrir þremur árum síðan bauðst mér að taka þátt í Upplýsingaráði BÍS. Hluti af starfi mínu fyrir ráðið er að semja Skátablaðið. Ég hef gaman að því að skrifa greinar og taka viðtöl og vinnan hefur mér fundist skemmtileg, lærdómsrík og gefandi.

Vinnan á bakvið Skátablaðið er þó meiri en flesta órar fyrir. Það þarf til að mynda að velja viðfangsefni, skrifa greinar, endurskrifa greinarnar, hella upp á kaffi, finna réttu myndirnar, prófarkalesa, brjóta um blaðið, drekka kaffið, safna auglýsingum og ýmislegt fleira. Því er mikilvægt að blaðið skili tilsettum árangri og þjóni tilgangi sínum, en þá er einmitt nauðsynlegt að staldra aðeins við og velta fyrir sér: Hver er tilgangurinn með útgáfu Skátablaðsins?

 

Upplýsingar á nýjum vettvangi
Ég hóf smá rannsóknarvinnu og skoðaði eldri eintök af blaðinu. Það sem ég sá voru blöð sem höfðu þann tilgang að upplýsa skáta landsins um allt það helsta sem skeð hafði síðastliðið ár.

Upplýsingaflæði er vissulega mikilvægt fyrir félagasamtök á við skátana, en í dag höfum við fleiri leiðir til þess að uppfylla upplýsingaskylduna. Í einu orði: Netið. Við erum með nokkra vefi á vegum skátanna, Facebook-hópa, Instagram-aðgang og síðast en ekki síst; Þriðjudagspóstinn.

Gott skátastarf er góð auglýsing

Svo virðist sem að ákveðinn samhugur sé innan skátahreyfingarinnar um að besta auglýsingin fyrir skátana sé gott skátastarf. Stuðningur við skátaforingjann skiptir þar höfuðmáli.

Þetta blað gengur út á skátastarf. Blaðið er ekki upptalning á atvikum og afrekum skátanna síðastliðið ár, heldur verkefnamiðað upplýsingarrit fyrir alla þá sem vilja stunda virkt skátastarf næsta veturinn og í framtíðinni. Í stað greinargerða um starfsemi skátanna síðustu misseri, þá kynnir blaðið hvern aldurshóp fyrir sig með fjölbreyttum verkefnum. Landsmót aldursbila og umhverfið eru sérstök áhersluatriði í blaðinu.

Tilgangur blaðsins er hreinlega að stuðla að góðu skátastarfi með hugmyndum að verkefnum. Von ritstjórnar er að blaðið komi til með að nýtast sem hugmyndabanki fyrir einstaka skáta, sveitir, flokka og sjálfboðaliða. Að blaðið sé tímalaust, nýtist sem kynningarefni og geymist á góðum stað.

Ég vona að þið séuð jafn spennt fyrir blaðinu og ég er!

Bestu kveðjur til ykkar allra,
Vigdís Fríða

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi Íslands hittust í gær til að tala um Byggjum betri heim verkefnapakkann.

Marta afhenti Katrínu verkefnabókina sem skátarnir ætla að notast við til þess að ná því markmiði að gera heiminn að betri stað.

Verkefnabókin Byggjum betri heim er byggð á fræðsluefni sem danskir skátar létu gera, en efnið byggir á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Verkefnabókina og fleiri upplýsingar um þetta nýja og spennandi verkefni má finna hér.

Um helgina hittust stjórn og ráð BÍS á Úlfljótsvatni.
Markmið fundarins var m.a. að fara yfir þau verkefni sem liggja fyrir fram að næsta skátaþingi og skerpa línurnar ásamt því að gera sér glaðan dag og hrissta saman hópinn.
Dagurinn hófst á því að hópnum var skipt upp í flokka og í framhaldinu var haldin flokkakeppni, svona litlir „Úllaleikar“. Flokkurinn Bjórar báru sigurorð á Afríku í spennandi og skemmtilegri keppni.

Eftir vinnu helgarinnar er óhætt að segja að stjórn og ráð BÍS séu betur samstillt fyrir verkefni vetrarins. Fjölmörg spennandi verkefni eru á dagskrá sem munu líta dagsins ljós í vetur.

Svipmyndir frá þessum skemmtilega og afkastamikla degi á Úlfljótsvatni:

Skátarnir og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hluti af skátaheitinu er loforð sem við gefum hvoru öðru um að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að skilja við heimin aðeins betri en við komum að honum. Með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fáum við nú 17 mismunandi markmið sem við getum unnið að til þess að gera heiminn betri og sjálfbærari.

Sveigjanlegt efni fyrir allan aldur

Efnið tengt Heimsmarkmiðunum er gert fyrir norræna skáta og er haft eins sveigjanlegt og hægt er til þess að það henti skátafélögum, sveitum og flokkum sem best. Þetta þýðir að efnið getur verið nýtt af allri sveitinni eða flokknum á fundum en einnig getur það nýst hverjum aldurshópi fyrir sig í útilegum og helgarferðum.

Efnið er gert til þess að gera heimsmarkmiðin aðgengileg og skemmtileg fyrir börn og ungt fólk í Norðurlöndunum og til þess að veita skilning á því að allir geti lagt sitt af mörkum til þess að markmiðunum verði náð. Efnið er sérstaklega gagnlegt vegna þess að það er gert aðgengilegt með sérstökum leiðbeiningum og verkefnum sem hægt er að framkvæma í nærsamfélaginu.

 

Fáðu efnið

Smelltu hér til þess að fá prentvæna útgáfu af efninu.

Smelltu hér til þess að skoða efnið á vefnum, í tölvu, spjaldtölvu eða síma.

Með efninu fylgir verkefnapakki þar sem skátarnir geta unnið sér inn merki ef þeir þekkja heimsmarkmiðin og vita hvernig hægt er að lifa í takt við þau. Skátarnir þurfa að vita og skilja hvað þeir geta lagt af mörkum til að skapa betri heim.

Fáðu efnið frá Skátamiðstöðinni með því að senda póst á skatar@skatar.is

Lestu meira um heimsmarkmiðin hér:: www.un.is/heimsmarkmidin/

 

Efnið var gert af Spejderne – Skátabandalaginu í Danmörku með stuðningi frá Tuborgfondet.

Fyrir frekari upplýsingar um þetta efni og vinnu BÍS tengt heimsmarkmiðunum, endilega hafið samband við Margrethe G Friis á netfangið margrethe@skatar.is

Ef þú vilt bæta einhverju við starfsemina tengda heimsmarkmiðunum eða umhverfismálum skaltu einnig senda það til hennar.

Um helgina, aðfaranótt sunnudags, var haldið Vökuhlaup á höfuðborgarsvæðinu fyrir drótt- og rekkaskáta.
Vökuhlaupið er bráðskemmtilegur og krefjandi, 12 klukkustunda póstaleikur sem fer fram yfir heila nótt. Þátttakendur gengu 15 km og stóðu sig frábærlega! Gangan var frá Vífilsstöðum að Elliðavatnsbæ og spreyttu þátttakendur sig á allskyns þrautum og leikjum á leiðinni.

Vökuhlaupið var skipulagt af nokkrum metnaðarfullum og hugmyndaríkum róverskátum sem kalla sig Ævintýrahópinn. Þau vilja hvetja fleiri skáta sem eru með góðar hugmyndir að viðburðum til þess að taka af skarið og framkvæma þá.

Vökuhlaupið heppnaðist einstaklega vel, þökk sé snillingunum í skipulagsteyminu, vöskum róver-sjálfboðaliðum og sérstaklega áhugasömum og hressum þátttakendum.